Hanne Darboven látin

darboven2002Flest listtímarit á netinu og önnur greina frá því að Þýska listakonan Hanne Darboven hafi látist í vikunni 67 ára að aldri.

Darboven var eitt af stóru nöfnunum í konseptlistinni. Hún nálgaðist listina kerfislægt og skrásetti daglegt líf í texta, ljósmyndir og teikningar eftir tímaröð.

HÉR má skoða dagbókarprójekt Hönnu Darbovens fyrir DIA Beacon í New York með aðgengilegum hætti á netinu. Og HÉR má skoða meira um list hennar.


Ragnar Kjartansson mun fjalla um endalokin á Feneyjarbíennalnum

raggiÁhugavert að erlend listtímarit eru að greina frá því hvað Ragnar Kjartansson ætli að gera á Feneyjarbíennalnum áður en við heyrum um það í menningarumfjöllun hér heima (hefur allavega farið framhjá mér sem er kannski ekki að marka þar sem ég er nýkominn úr einangrun uppi í sveit, sem er líka ástæðan fyrir bloggleysi síðustu 2 vikur).

Í artforum.com segir að hann muni halda úti performans alla hátíðina.  Það hlýtur að verða lengsti maraþonperformans Ragnars.

Ég var rosa sáttur þegar tilkynnt var í fyrra að Ragnar yrði fulltrúi okkar á bíennalnum, En svo kom efnahagsfall og  kreppa og ég velti þá fyrir mér hvort að partífílingurinn sem hefur fylgt góðærinu væri ekki út úr myndinni og að senda Ragnar væri þá tímaskekkja, og að einhver annar, þyngri í sinni list, væri meira viðeigandi.

En í artforum las ég að væntanlegt framlag listamannsins heitir The End.  Ég giska þá á að Ragnar ætli ekki að skafa af ástandinu. Halda dramanu í botni með einhverju samnorrænu volæði.

Ég hjó sérstaklega eftir því að í greininni í artforum var tekið fram að fulltrúar Ragnars væru galleríin i8 og Luhring Augustin  sem undirstrikar enn og aftur að Feneyjarbíennallinn er fyrir löngu orðinn listmarkaðskaupstefna.


Kjánaleg hugmynd

kjarvalboðÁskorun Kjartans Ólafssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að bankarnir selji um 4000 listaverk úr safni sínu er hreint út sagt kjánaleg.

Kjartan virðist álíta að huglægt verðmat listaverkanna upp að átta milljarða króna standist þegar þeim yrði öllum hrint út á markaðinn.

Þetta yrði eins og með bílaflotann hjá Glitni sem fór á einn fjórða af áætluðu verði. Nema að listaverkaflóð frá bönkunum mundi að auki stórskaða fyrirtæki eins og Fold, Borg, Stafn, Turpentine og mörg fleiri. Og sennilega valda gjaldþroti einhverja slíkra fyrirtækja sem nú berjast í bökkum

Það breytir engu þótt verkin yrðu seld með reglulegu millibili, eins og Kjartan leggur til. Myndlistarmarkaðurinn er í lamasessi eftir efnahagshrunið og 4000 listaverk í rýmingarsölu mundu skemma hann endanlega.

Auk þess er það framandleg firra að halda að til séu kaupendur fyrir þessi 4000 listaverk á einu bretti, nema þá kannski að menn fái tíu fyrir tvö.


mbl.is Listaverk föllnu bankanna verði seld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bravó Bragi og DV!

bragiAssssskoti er ég sáttur við Menningarverðlaun DV þetta árið.  Reyndar hef ég yfirleitt verið nokkuð sáttur með útkomu þessara verðlauna.  Valið á Braga er þó ólíkt því sem hefur viðgengist, enda ný nefnd að störfum.

Talandi um það að þá er pínu skrítið að Jón Proppé sitji hvorutveggja í nefnd Sjónlistarverðlauna og Menningarverðlauna DV. 

Ég hef ekkert á móti Jóni, en óþarfi að vera með sama fólkið, nema að Jón sé hættur í Sjónlistarverðlaunanefndinni.

Sjónlistaverðlaunin eru jú einskonar Eddu-Grímuverðlaun fyrir myndlist og hönnun en DV verðlaunin hafa fest sig í sessi gegn um árin og voru einu alvöru verðlaunin um tíma (ætla samt ekki að gera all of lítið úr Ullarvettlingnum). 

Þótt ekki séu álíka peningar í húfi í DV verðlaununum og hjá Sjónlistarverðlaununum að þá geta DV- menn verið stoltir yfir því að halda þessum verðlaunum úti. En ég las ritstjórnargrein DV og get vel skilið að á þessum tímum hafi aurinn verið vandlega skammtaður.

Hvað um það að þá hlaut Bragi Ásgeirsson menningarverðlaun DV fyrir Augnasinfóníuna á Kjarvalsstöðum.

Flott sýning og líka vel stýrð af Þóroddi Bjarnasyni. En þáttur sýningarstjóra kann oft að gleymast.


Tímabært!

Þessi yfirlýsing Katrínar um fjölgun starfslauna er löngu tímabær og er sókn af öðrum toga en flestir kunna að hafa vænst. 

Tala ekki um þá sem sjá ekki aðra leið en að viðhalda sömu gildum og komu okkur á hausinn.

Til þess að endurtaka mig ekki um of að þá vísa ég á næstu bloggfærslu mína hér fyrir neðan Virkjum listina! sem stuðning við fjölgun starfslauna og voru viðbrögð mín við grein Marðar Árnasonar, Sköpun gegn kreppu í gær.


mbl.is Leggur til breytingar á listamannalaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkjum listina!

beuys1 Mörður Árnason ritaði grein í Moggann í dag sem bar yfirskriftina Sköpun í kreppu. En hann vill nýta starfskrafta listamanna í auknum mæli.  Hann segir m.a.

 "Ég tel að ein af viðbrögðum okkar í kreppunni eigi að vera að blása til sóknar í sköpunargreinunum og fjölga störfum í listum og menningu. Starfslaun listamanna hafa ekkert hreyfst frá árinu 1996 – í þrettán ár, og eru ennþá 100 árslaun alls. Nú skulum við tvöfalda þessi laun næstu fimm árin. Það er eitthvert ódýrasta framlag til atvinnu- og verðmætasköpunar sem veitt verður af opinberu fé og nemur til dæmis aðeins brotabroti af þeirri ívilnun sem til stendur að veita væntanlegu álveri í Helguvík

beuysdemocracy Þessi ráðstöfun mundi losa hundrað önnur störf, fækka þar með atvinnulausum og draga úr bótagreiðslum. Og sköpunarstörfin búa til aðra atvinnu. Rithöfundar eru fyrsti hlekkurinn í keðju sem liggur um bókaforlög, prentsmiðjur, hönnunarstofur, fjölmiðla, verslanir, skóla og bókasöfn. Þeir afla tekna erlendis og skapa Íslendingum sannari og haldbetri ímynd en útrásarvitleysur og opinbert glys. Hönnun, kvikmyndir, sjónlistir."

Sem vaktmaður myndlistarinnar að þá mundi ég bæta við að framleiðsla á myndlistarverki eða hvers kyns listmunum kann að snerta ýmiskonar innflutning á efni og aðkeypta vinnu s.s. hjá trésmíðaverkstæði, blikksmiðju, skiltagerð o.fl. og leiðir svo til þess að rekstur á galleríum eða hverskyns listmunaverslunum sé raunhæfur.

Mörður heldur svo áfram;

"Vel má svo ímynda sér (takk, Guðrún Vera) að hluta þessara nýju starfa við listsköpun og menningariðju mætti skilyrða því að listamennirnir verðu hluta tíma síns til að vinna með atvinnulausu fólki og skólanemum. Við skulum virkja þá hæfileika sem í okkur búa. Missa ekki besta fólkið úr landi. Sköpun gegn kreppu."

beuysovercome Þessi umræða hefur einmitt verið inn á heimili mínu, en þakkir Marðar í sviganum beinast þarna til eiginkonu minnar, en hún er eldheit í þeirri skoðun að virkja eigi listamenn þegar ástandið er eins og raun ber vitni og hreinlega ráða þá til starfa.  Annað er sóun á kröftum. 

Listamenn sem þyggja laun hjá ríkinu, eins og starfslaun, eru nefnilega eins og sjálfseignarstofnun á framlögum frá ríkinu.  Og stofnanir hafa vissum skyldum að gegna gagnvart samfélaginu.

Mér þykir sjálfsagt að ríkið leiti til þessara stofnana (ég tala hér um ríkislaunaðan listamann sem sjálfseignarstofnun) og, eins og Mörður leggur til, virki enn fleiri til starfa til að takast á við ástandið.

beuys4 Þýski myndlistarmaðurinn Joseph Beyus (sem er á öllum myndunum) er einn helsti hugsjónarmaður myndlistar síðustu aldar, en hann taldi að samfélag gæti aldrei virkað lýðræðislega nema út frá skapandi hugsun og vildi þess vegna gera listir að drífandi afli samfélagsins, hóf þar af leiðandi að móta hugmyndir um samfélagslegan skúlptúr (social sculpture). Beuys sá listina sem heildrænt afl sem snerti alla þætti samfélagsins og sjálfur hafði hann afskipti af öllum fj...

Ég tek því undir með Merði, Guðrúnu Veru og Joseph Beuys; "Virkjum listina!"

Um Joseph Beuys má m.a. lesa HÉR og á Wikipedia


Óvenjulega venjulegar myndir frá Guantanamo

sims guantanamo 1Sýning Christophers Sims á ljósmyndum frá Guantanamo flóa í CAP í Washington hefur vakið athygli, ekki vegna hræðilegra ímynda af pyntingum eða ómannúðlegri meðferð á föngum, heldur vegna hversdagslegs yfirborðs.

Myndin hér að ofan sýnir t.d. sólbaðssvalir sem minna helst á einhvern túristastað þar sem menn sóla sig og drekka hanastél eða svaladrykki.  En þegar betur er gáð að þá speglast gaddavírsgirðing og ljóskastarar til kvöldeftirlits í rúðunum á klúbbhúsinu.

sims guantanamo 2   sims guantanamo cafe   Nokkrar myndanna sýna svæði þar sem börn fangavarðanna hafa verið að leik eins og myndin hér að ofan t.v. og svo eru myndir af matsölustöðum á Gantanamo. Myndin að ofan t.h. er frá Café Guantanamo en jafnframt má finna McDonald´s skyndibitastað innan gaddavírsgirðingarinnar.

sims guantanamo 4Þá má sjá myndir af útivistar og -afþreyingarsvæðum fangavarða s.s. útibíói og ekki vantar net til að sparka í og skora mörk í fótbolta.

Þótt Sims hafi fengið leyfi frá yfirvöldum til að ljósmynda fanga og verði eða hermenn að þá kaus hann að hafa myndirnar mannlausar þannig að ímyndin beinist ekki að appelsínugulu búningunum eða einkennisklæðnaði fangavarðanna, því að á bak við hversdagslegt umhverfið leynist líka óhugnaður.

Fjallað er um þessar myndir Sims í Washington Post


Tómar myndir

Ég tók niður sýningu mína Tómt í Gallery Turpentine í morgun.

ransu_14_turpentine

ransu_7_turpentine         ransu_10_turpentine

Þykir því við hæfi að birta hér á blogginu 3 myndir af málverkum frá sýningunni.


Snorri ætlar sér alla leið

snorriframboðNú þegar menn sjá tækifæri á að koma sér fyrir í endurnýjun flokkskerfisins (það þurfti mega efnahagskrass og búsáhaldarbyltingu til að einhver hreyfing yrði á framboðum)  að þá ætlar Snorri Ásmundsson myndlistarmaður sér ekki neina hógværð í sætaskipan Sjálfstæðisflokksins, ekkert 2-3 sæti eins og sumir. Hann ætlar alla leið í valdið.  

Snorri hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu (ég feitletraði eina málsgrein upp á eigin spýtur).

Kæru Sjálfstæðismenn

Þar sem ég hef ákveðið að gefa kost á mér í formannskjör Sjálfstæðisflokksins er rétt að skrifa nokkur orð til að hnykkja á nokkrum atriðum.

Sjálfstæðismenn hafa oft á tíðum fylgt leiðtoga sínum í blindni, um það þarf ekki að taka dæmi. Þessi foringjahollusta hefur á stundum verið flokknum og þjóðinni til trafala eins og nýlegir atburðir sanna. Ég tel að nú sé tími til að losa flokkinn við leifar gamalla tíma og leyfa nýjum og ferskum mönnum að njóta sín.


Það er mikill heiður að vera valinn fulltrúi á Landsfund Sjálfstæðisflokksins, en því fylgir einnig mikil ábyrgð. Ekki eingöngu hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn og framtíð hans, heldur einnig og ekki síður, hvað varðar framtíð Íslands. Það þarf að kjósa nýjan leiðtoga. Leiðtoga sem getur leitt flokkinn og þjóðina í gegnum þessar efnahagsþrengingar sem við nú stöndum frammi fyrir. Ég held að ég sé tilvalinn í það mikilvæga hlutverk og stuðningsyfirlýsingar flokkssystkina minna um land allt hafa eflt mig í þeirri trú.

Einhverjir kunna að halda að hér sé um fíflagang að ræða því andstæðingar mínir hafa oft borið það upp á mig að ég sé einhverskonar grínisti eða að mín pólitísku afskipti séu listgjörningur. Þá spyr ég á móti: Hvað er gjörningur? Og má ekki segja að aðgerðir og stefna ríkisstjórnar Geirs H. Haarde hafi verið eitt allsherjar gjörningagrín? – Það væri þá nær að hafa gjörningameistara við stjórnvölinn, ekki satt?

Fordómar verða til í ótta og einhverjir kunna jú að hafa ærna ástæðu til að óttast framgöngu mína og þá gjörninga sem ég hyggst fremja sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Ég t.d. líð ekki að ógeðfelldir, gráðugir drullusokkar hafi eitthvað með hagsmuni þjóðarinnar að gera. Þeir hinir sömu kunna að óttast að ég sigri í formannskjörinu og losi flokkinn undan oki spillingarinnar.

Kæru fulltrúar á flokksþingi, losið okkur úr viðjum óttans og takið fagnandi á móti nýjum og breyttum tímum með bjartsýnan og kjarkmikinn leiðtoga með gráblá augu sem kallar ekki allt ömmu sína.

Snorri Ásmundsson


mbl.is Ármann vill 2-3. sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tómt framlengt

tomt _ransu_editedSýningu minni Tómt í Gallery Turpentine hefur verið framlengd til föstudags.

Galleríið er á Skólavörðustíg 14, 2. hæð, Reykjavík. Opið frá 13-18.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband