Launmorðið á Jesse James

JessePittAllnokkuð húllumhæ var í kringum myndirnar No Country for old men (Cohen bræður) og There will be blood (Paul Thomas Andersson) í fyrra. Sá þær báðar og þótti þrælgóðar.  Ég lét hins vegar The Assassination of Jesse James by the coward Robert Ford (Andrew Domonik) framhjá mér fara þar til núna að ég leigði hana á DVD.

Ég verð að segja að hún slær þeim fyrrgreindu við, að mínu mati. Hreint út sagt töfrandi mynd sem varpar sannfærandi mynd af stigamanninum Jesse James, sem er sýndur nett geðveikur náungi og kvalinn sem slíkur. En goðsögn gerir hann síðan að einhverjum Hróa Hetti Bandaríkjanna.

JamesAffleckAðalleikararnir tveir, Brad Pitt og Casey Affleck, skila sínu með glæsibrag. Pitt túlkar James sem sjúklega tortrygginn sjarmör sem heldur öllum (nema eldri bróður sínum) í ótta með óútreiknanlegum geðsveiflum.  Casey Affleck er flottur sem Bob Ford. Manni finnst hann fyrst óttalega smeðjulegur en þegar leið á myndina fékk ég meðaumkun með honum.

Auðvitað er þetta allt smekksatriði og ég viðurkenni að vissir þættir í kvikmyndagerð Andrew Dominiks heilla mig vegna kvikmyndasögulegs samhengis.  En það er 70´s bragur á þessari mynd og minnir sitthvað á þegar ný-raunsæið birtist í vestrum eftir að John Wayne og Clint Eastwood höfðu áður mundað marghleypuna sem "ofurkabbojar" hvíta tjaldsins.  mccabeMér er þá sérstaklega hugsað til kvikmyndarinnar McCabe & Mrs. Miller (Robert Altman, 1971), sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Og ekki má heldur gleyma The Long riders sem Walter Hill gerði um James og Younger bræðurna (sem þó var öllu blóðugri en þessi og Jesse James var þá eiginlega góði gæinn).

Tökur og senur í Launmorðinu á Jesse James bjóða líka upp á áþekka dulúð og einkenndi Ástralskar kvikmyndir á áttunda áratugnum, en sá er óneitanlega gulltími Ástralskrar kvikmyndagerðar. Má nefna kvikmyndir eins og Walkabout (Nicholas Roeg, 1971), Picnic at hanging rock( Peter Weir, 1975) og auðvitað The chant of Jimmie Blacksmith (Fred Schepisi, 1978) sem fjallar einmitt um Ástralskan stigamann. Þetta eru allt stórbrotnar myndir, en Andrew Dominik er Ástrali (reyndar fæddur í Nýja Sjálandi) og sækir í þennan myndabrunn heimalands síns.

Ég er semsagt heillaður eftir horfa á þessa kvikmynd um aðdragandann að dauða Jesse James og bölva mér í hljóði að hafa ekki druslast á hana í bíó en þetta er vafalaust ein þessara mynda sem maður hefði betur séð á stóru tjaldi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sæll,

Ég var ekki jafn hrifinn af The Assasination of Jesse James by the Coward Robert Ford, fannst hún frekar langdregin og augljós, og dramað alls ekki grípandi því hún geðist yfir svo langt tímabil. En svona er smekkur fólks ólíkur. Þessi mynd virkaði á mig frekar eins og sagnfræðitími þar sem nákvæmnin var í fyrirrúmi. Ég kann að meta slíkt þegar sagan sjálf líður ekki fyrir það, en mér fannst hún gera það í þetta skiptið. 

Gagnrýni mín um myndina má lesa hérna

Hrannar Baldursson, 7.8.2008 kl. 16:15

2 identicon

vil bara benda á að Ben Affleck kemur hvergi nærri þessari mynd

Juan "uber" Scroll (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 20:24

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Það er nú hægt að víxla nöfnum þeirra bræðra Casey og Ben, og þar sem þeir eru bræður hefur Ben vissulega komið nálægt myndinni. En ég mæli með Gone Baby Gone, en þar er Casey mjög góður í aðalhlutverkinu og Ben bróðir hans með frábær tök á leikstjórninni. Með betri spæjaramyndum síðan L.A. Confidential.

Hrannar Baldursson, 7.8.2008 kl. 22:26

4 Smámynd: Ransu

Takk fyrir þetta.   Já Ben rataði þarna inn hjá mér í seinna skiptið, laga það hér með.

Já, Hrannar. Las rýni þína. Smekkurinn er vissulega misjafn.  Dominik náði einmitt að halda mér límdum við skjáinn með fegurð sem var einmitt hvað skörpust í hægum senum sem urðu fyrir vikið alls ekki langdregnar.

Hef ekki séð Gone Baby gone, en ætla að gera það við fyrsta tækifæri. Þótti L.A Confidelntial þrusugóð.

Ransu, 7.8.2008 kl. 22:43

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Gone Baby Gone er gerð eftir skáldsögu hins magnaða Dennis Lehane, en hann skrifaði líka Mystic River. Þessi er ekki jafn þung og MR, en í sama kaliber.

Hrannar Baldursson, 7.8.2008 kl. 23:57

6 identicon

Þetta er góð ríni hjá þér og ég er sammála þér að mörgu leiti. Þarna fannst mér dregin upp ný mynd af Mr. James. Fínasta mynd og Pitturinn var fínn.

 Ég ætla að nota tækifærið í þessu Kúreka bloggi og auglýsa eftir Morgan Kane bók nr. 6 Þetta er eina bókin sem mig vantar í safnið..

Guðmundur Ásgeirsson (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 09:54

7 Smámynd: Ransu

Sorrí Guðmundur.

Lét allar mínar Morgan Kane bækur frá mér, ásamt Ísfólkinu, fyrir þónokkrum árum.

Ransu, 8.8.2008 kl. 11:08

8 identicon

Já ekkert mál. Takk fyrir svarið. Ég held leitini bara áfram, hún mun detta á hausinn á mér einn daginn..

Guðmundur Ásgeirsson (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 11:36

9 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Takk fyrir skemmtilegan pistil, þetta er mynd sem ég hef lengi ætlað að sjá. Ætli maður haski sér ekki út á leigu nú um helgina og afgreiði málið þar með. Þessi mynd ætti að ganga vel í mann nú þegar haustar hægt og rólega; hún virkar að óséðu á mig sem svolítið "haustleg", bæði í stemmningu og útliti.

Jón Agnar Ólason, 8.8.2008 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband