Færsluflokkur: Bloggar

Að njóta góðs af neyð hvers annars

Umræða um hvort eigi að afnema einokun á áfengi kemur upp annað veifið og liggur nú sem tillaga á borði alþingis.  Eflaust er það tímaspursmál hvenær flöskurnar fara í matvöruhillurnar, en engu að síður ber að huga að ýmsu áður en maður tekur afstöðu til þessa. T.d. hvort það séu viturleg skilaboð til barna okkar að áfengisneysla sé jafn sjálfsögð og mjólkurneysla?  Oftast fer þessi umræða þó í vangaveltur um forræðishyggju, eða eiga þeir sem eru heilbrigðir á líkama og sál að líða fyrir veikleika hinna?  Ég las forvitnilegan pistil Kolbrúnar Bergþórsdóttur í 24 stundum um málefnið þar sem hún nefndi m.a. að áfengisböl væri vandamál fárra. Það er alrangt. Alkahólismi er vandamál margra og ógrynni af fólki leitar hjálpar hjá AA samtökunum einfaldlega til þess að halda lífi. Ég tala ekki um til að halda geðheilsu. Þessi hópur er samt bara brot af þeim sem þjakaðir eru af alkahólisma þar sem enn fleiri eru í neyslunni, afneituninni og síðan má dobbla vandamálið yfir í meðvirka aðstandendur alkahólistanna, þ.e. þeir sem verða fyrir áhrifum af sjúkdómnum án þess að hafa líkamlegt ofnæmi fyrir alkahóli.En forræðishyggja stöðvar ekki alkahólisma og er það hárrétt hjá Kolbrúnu að það grassera mun fleiri fíknir í samfélagi okkar sem ekki búa við álíka forræðishyggju og alkahólismi. S.s. átfíkn, kynlífsfíkn, sambandsfíkn, sambandafíkn og að ógleymdri spilafíkn.  Ég þekki tvo illa haldna spilafíkla. Þeir eru báðir öryrkjar, en sá er helsti markópurinn fyrir spilakassa. Annar þeirra er svo heltekinn að hann hefur oftar en einu sinni misst úrgang í brækur sínar af spenningi yfir kössunum. Gegn um kassana renna örorkubætur þessara manna til SÁÁ sem notar þær síðan til að hjálpa áfengissjúkum að hætta að drekka. Ég man aldrei hvaða rök SÁÁ hefur fyrir þessari ósiðlegu aðferð til að sækja sér pening, ég hef allavega aldrei tekið mark á þeim, en ég leyfi mér að efast um að talsmenn SÁÁ verði yfirmáta ánægðir ef áfengi fer í hillur matvöruverslana og verði þar með álíka aðgengilegt og spilakassarnir.  Því datt mér þessi sáttarlausn í hug (þ.e. ef við afgreiðum málið þannig að áfengi verði jafn sjálfsagt og mjólk). Að hluti af ágoða á sölu áfengis í matvöruverslunum fari í meðferðarstarf fyrir spilafíkla. Og í kjölfar þessa geta svo kynlífsfíklar fjármagnað sína meðferð með sölu á kókosbollum og átfíklar máski rekið vændishús. Þannig geta fíklar notið góðs af neyð hvers annars og þeir sem heilbrigðir eru á líkama og sál geta haft rauðvínskvöld sín í friði og í náungakærleik.

Að standast allt nema freistingar

Jæja, það fór þá þannig að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking mynduðu saman ríkisstjórn og hafa nú útdeilt ráðherrastólum. Ekkert kemur svosem stórlega á óvart. Ég hefði reyndar viljað sjá Björgvin í Menntamálaráðuneytinu, án þess þó að úthýsa einu konunni í ráðherraembætti Sjálfstæðisflokksins.  En máski stendur Björgvin sig vel í viðskiptamálum og Þorgerður bæti bara um betur í sínu starfi.

Ég vona líka að Þórunn Sveinbjarnardóttir standi sig í umhverfismálunum, hæun er allavega umhverfissinni. Mikið hefði verið traustvekjandi að sjá Mörð Árnason í þeim stól eða öðrum. Hvernig í ósköpunum stóð á því að hann var ekki ofar á lista Samfylkingar? Fáránlegt að hann skuli hafa dottið út af þingi.

Frábært að sjá Jóhönnu aftur í forsvari Félagsmálaráðuneytisins og svo hef ég fulla trú á að Árni M. Mathisen sé kominn í sinn rétta stól.

Einhver skynsemisskekkja hlýtur að orsakað skipan Guðlaugs Þórs sem heilbrigðisráðherra.  Einhvernvegin finnst mér að annar stóll hefði hentað honum betur.  Hann hefur reyndar reynslu af heilbrigðiskerfinu eftir að hann brenndist á baki um jólin og þurfti sökum þessa að kaupa auka hjálp inn á heimilið sitt, eins og hann orðaði það í einhverju viðtali.  Ætli hann hafi hugsað út í það hve mikill meirihluti þeirra sem kynnu að lenda í samskonar óhappi hafi ekki efni á að borga fyrir auka hjálp inn á heimilið?  Ég ætla samt að óska honum vel og vona að hann standa sig í þessu nýja hlutverki sínu.  Vinni fyrir fólkið, bæti heilbrigðiskerfið og stuðli að því að allir hafi sömu réttindi í heilbrigðismálum. Nái þar með góðu samstarfi við Jóhönnu.

Ég las að sjórnarflokkarnir hafi lofað skattalækkun á árinu. Ætlaði Samfylkingin ekki að hækka skattleysismörkin upp í 140.000 kr. frekar en að lækka skatta ef hún kæmist í stjórn?  Máski er þetta vísir að því sem koma skal og þá fyrsta fall Samfylkingarinnar í freistingar auðvaldsins, því Það hentar vissulega þeim sem eru á ráðherralaunum betur að lækka skatta frekar en að hækka skattleysismörk.  Slík aðgerð yrði þeim lægst launuðu í haginn.

En eins og Oscar Wilde heitinn sagði; "Ég stenst allt nema freistingar".


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband