Færsluflokkur: Íþróttir

Naktar bullur á Euro 2008

tunickSpencer Tunick er New York listamaður sem hefur unnið hylli listunnenda fyrir að hrúga saman berrössuðu fólki og ljósmynda þau.

Tunick sýndi í fyrra í Gallery i8 og fellur því undir "katagoríuna" - "Íslandsvinir".

Sýningin í i8 vakti engan sérstakan fögnuð hjá mér, en margar ljósmyndir listamannsins eru þó ansi magnaðar.

Næsta verkefni Tunicks mun væntanlega kæta íþróttaunnendur, en Tunick hyggst ljósmynda 2008 naktar knattspyrnubullur á Ernst Happel stadium í Austurríki þar sem úrslitaleikur Evrópukeppninnar í knattspyrnu fer fram sumarið 2008.

Frétt í Herald Tribune

http://www.iht.com/articles/ap/2008/04/10/arts/ODD-Nude-on-the-Pitch.php

Heimasíða listamannsins

http://spencertunick.com/


Gjörningalandslið Íslands

BuningurVenjulega þegar fjallað er um myndlistarviðburð í fjölmiðlum þarf blaðamaður á einhvern hátt að gefa lesendum ástæðu fyrir því að viðburðurinn sé á annað borð til umræðu í fjölmiðlinum, og er þá jafnan slegið fram mikilsverðum fyrirsögnum eins og "Landsliðið í gjörningum" sem kynnt var í Morgunblaðinu í dag. 

En auðvitað er þetta ekki landslið sem var til umfjöllunar, heldur félagslið Kling & Bang, sem hampaði  íslandsmeistaratitli í hittifyrra og eftir þessa umferð trónir það í efsta sæti "Landsbankadeildarinnar". Fast á hælum þeirra kemur svo lið Nýlistasafnsins, íslandsmeistarar frá því í fyrra, og í 3-4 sæti eru lið Myndhöggvarafélagsins og i8 sem eru til alls líkleg á árinu.

Ég tók það á mig að vera sjálfskipaður landsliðseinvaldur Gjörningaliðs Íslands. Og eftir stutta íhugun hef ég nú skipað Gjörningalandsliðið þetta árið.

Gjörningalandslið Íslands

Þjálfari: Magnús Pálsson (Magnús var margfaldur íslandsmeistari með gjörningaliði SÚM á áttunda áratug síðustu aldar. Hann lék um skeið með annaradeildarliði í Lundúnum en hefur undanfarin ár þjálfað sigursælt gjörningalið Nýlistasafnsins)

Aðstoðarþjálfari: Hlynur Hallsson (Hlynur er reyndar spilandi þjálfari á vinstri kantinum. Hann lék lengi sem atvinnumaður í Hannover í Þýskalandi en fluttist svo norður til Akureyrar til að sinna uppbyggingarstarfi þar.  Hann fremur sjálfur gjörninga en er ekki síður sigursæll í að skapa vettvang fyrir gjörninga annarra)

*

Mark: Halldór Ásgeirsson (Halldór er litríkur en rólyndis markmaður sem leynir á sér.  Hann lék með liði Nýlistasafnsins á níunda áratugnum en með liði Myndhöggvarafélagsins á þeim tíunda. Undanfarin ár hefur hann spilað með litlu félagsliði í Japan)

Vörn: Rúrí (Rúrí hefur löngum staðið vörn um Íslenska náttúru. Hún leikur með gjörningaliði Myndhöggvarafélagsins og er þeirra traustasti leikmaður)

Vinstri kantur: Sara Björnsdóttir(Sara leikur með Gallerí Ágúst sem í fyrra lék sitt fyrsta tímabil í "Landsbankadeildinni". Sara er þó enginn græningi í greininni. Hún hefur áður leikið með Gallerí Hlemmi, Gallerí Skugga og Kling & Bang).

Hægri kantur: Gjörningaklúbburinn (Þær Eyrún, Jóní og Sigrún eru eiginlega lið í sjálfu sér, en leika þó saman sem einn leikmaður. Þær leika með liði i8)

Miðja: Hannes Lárusson (Hannes er fyrirliði landsliðsins. Framsækinn reynslubolti. Hann er margfaldur meistari með liðum Nýlistasafnsins og Myndhöggvarafélagsins, en hefur nú verið keyptur yfir til liðs Kling & Bang og mun leika með þeim næstu misserin)

Sókn: Ragnar Kjartansson (Ragnar var valinn besti leikmaður "Landsbankadeildarinnar" á síðasta ári og var jafnframt markahæstur leikmanna. Hann vakti strax athygli í undirdeildarleikjum Klink & Bank, lék svo með liði Nýlistasafnsins en var keyptur yfir til i8 í fyrra en situr nú yfir tilboðum frá atvinnuliðum í Þýskalandi, Ítalíu og Bandaríkjunum).

*

Varamaður: Ásmundur Ásmundsson (Ásmundur vakti fyrst athygli með gjörningaliði Nýlistasafnsins en hélt svo til Berlínar til að reyna fyrir sér í atvinnumennsku. Ásmundur snéri heim í fyrra eftir lítilsháttar meiðsl og leikur nú með liði Kling & Bang)

Varamaður:  Egill Sæbjörnsson (Egill hefur verið helsti sóknarmaður landsliðsins síðastliðin ár, en missti sæti sitt í aðalliðinu í fyrra. Hann hóf ferilinn með liði Gallerís Hlemms en hefur verið í atvinnumennsku í Berlín síðustu misserin. Hann stendur nú á krossgötum og hyggst reyna fyrir sér í Brasilíu. Egill lék nýverið gestaleik með liði i8.)

Varamaður:  Ólöf Björnsdóttir (Ólöf hóf feril sinn sem yngsti liðsmaður i8 á tíunda áratug síðustu aldar. Hún stundaði svo atvinnumennsku í Lundúnum en snéri heim fyrir fáeinum árum og leikur nú með Kling & Bang)


mbl.is Landslið í gjörningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband