Töfrandi tvenna

Listasafn Reykjavíkur býður borgarbúum og gestum annarsstaðar frá upp á sjónræna veislu í Hafnarhúsinu

HFpair2004

Fyrst ber að nefna yfirlitsýningu Hreins Friðfinnssonar. Hreinn er vafalaust ástsælasti myndlistarmaður konsepttímabilsins á Íslandi og sá sem helst hefur haldið dampi af margrómuðum SÚM félagsskapnum (að Guðbergi Bergssyni undanskyldum, sem er ekki talinn með í myndlistarhópnum).

Þetta er semi-yfirlitssýning. Mikið af nýlegum verkum en eitthvað nær aftur til SÚM-verka áttunda áratugarins. Sýningin var áður í Serpentine gallery í Lundúnum.

List Hreins heyrir undir „Ljóðræna konseptlist“. Hreinn er ótrúlega næmur á fegurð í hinu smágerða og hversdagslega. Hann spilar talsvert með spegilmyndir, frá áþreifanleika til óáþreifanleika, sem einskonar tálsýn raunverunnar.  Þá virkar list Hreins dálítið sem niðji Belgíska málarans Rene Magritte (1898 - 1967) og spurningar hans um hlutinn, myndina af hlutnum og tungumálið.

 MargBlondalÖnnur sýning sem boðið er upp á í Hafnarhúsinu heitir „Þreifað á himnunni“og er einkasýning Margrétar H. Blöndal.

Margrét vinnur með fundið efni, notað efni, sem geymir í sér sögu eða tilfinningu. Og merkilegt hve henni tekst að töfra fram fegurð úr „ómerkilegum“ efnivið.

Margrét vinnur efniviðinn inn í rýmið líkt og óhlutbundinn flöt. Mér finnst aðferð Margrétar eiga margt sameiginlegt með aðferðum Jessicu Stockholder og Söru Sze, nema hvað Margrét vill lúta rýminu eða gefst upp fyrir því á meðan þær stöllur takast á við rýmið og sigra.

Einhver ofurnæmni og viðkvæmni er í þessari innsetningu Margrétar og sjónrænt spilar hún vel með þetta erfiða rými („Súlnasalurinn“ svokallaður) sem tekur miklum breytingum eftir því hvar maður er staðsettur í því. Þannig sýnist það á einum stað hálf tómlegt en á öðrum er það fyllt.

Skylduheimsókn í Hafnarhúsið. Verst að þar fáist ekki betra kaffi.

http://www.listasafnreykjavikur.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Bæði eru Hreinn og Margrét í hópi okkar bestu listamanna, ekki spurning. Þó finnst mér verk Hreins engan veginn njóta sín í þessu rými Hafnarhússins, ljóðrænan tapast. Margrét kemur hins vegar mun betur út. Talandi um vont kaffi, þá er enn verra að aðgangseyrir skuli ennþá innheimtur (mínus fimmtud.).

Ásgeir Kristinn Lárusson, 27.11.2007 kl. 13:29

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Sá sýningu Hreins og er sammála því að hann minnir um margt á Magritte - ekki leiðum að líkjast!

Ég er ekki hrifin af Hafnarhúsinu sem sýningarstað, finnst það einhvern veginn alltof hrátt og frekar fráhrindandi. Passar kannski fyrir sumar sýningar - alls ekki hvaða sýningu sem er.

Á eftir að sjá sýningu Margrétar - get ekki sagt að það sem ég hef séð af umfjöllun um hana hrífi mig, en það er vitanlega ekki að marka annað en að fara sjálf á staðinn og upplifa - og eins og hún segir sjálf er sýning hennar ekki "mónúmental" og ber því að skoða hana í því ljósi - sem viðleitni hennar til að sýna okkur þá fegurð sem getur leynst í "ómerkilegum" efnivið.

Ég hef ekki fengið mér kaffi þar - fékk mér kakó síðast, það var ágætt! 

Greta Björg Úlfsdóttir, 27.11.2007 kl. 14:52

3 Smámynd: Ransu

Já, salirnir eru erfiðir, og virðist það vandamál fylgja stærri söfnum á íslandi, loftið og lýsingin á Kjarvalstöðum er vonlaust dæmi og húsnæði Listasafns Íslands er handónítt.  Þó er salurinn sem hýsir verk hreins einna skástur í húsinu og það sennileg ástæða að sýningarstjóri Serpentine hafi fengið verk Errós færð niður.

Og auðvitað á að nota eitthvað af hagnaðinum af yfirdrætti landsmanna til að borga inngang í listasafnið.

Ransu, 27.11.2007 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband