8.2.2008 | 12:56
Þögn Ligetis
Í tilefni af sýningunni Þögní Hafnarhúsinu birti ég þennan frábæra texta Rúmenska tónskáldsins Györgys Ligetis, þar sem hann varð í senn valdur og móttakari viðbragða með því að þegja einn stuttan fyrirlestur.
Þetta er skráning tilfinninga við þögn. En jafnframt er Ligeti að skapa tilfinningatónverk.
Texti þessi birtist í Morgunblaðinu í fyrra í þýðingu Atla Heimis Sveinssonar og vitnaði Hafþór Yngvason í þessa tilraun í ræðu sinni við opnun Þagnar í gær.
____________________________________________________________
Framtíð tónlistar (samvinnutónsmíð)
Eftir György Ligeti
Eitt sinn var ég beðinn að tala um framtíð tónlistar fyrir hóp háskólamenntaðra áheyrenda. Það kom á mig hik. Hvað er unnt að segja um framtíðina? Það eitt er víst, að hún verður alltaf öðruvísi en maður gerir sér í hugarlund og segir til um. Til þess að fara ekki með rangt mál, með neitt fleipur, ákvað ég að þegja. Ég átti að koma fram á löngum fundi, þar sem sérfræðingar í bókmenntum, leik- og málaralist, auk fulltrúa annarra listgreina, áttu að skýra áheyrendum stuttlega frá framtíð sérgreinar sinnar í tíu mínútna erindi. Ég var síðastur ræðumanna, og vildi ganga úr skugga um, að ég fengi örugglega tíu mínútur til umráða. Þess vegna bað ég forstöðumann þessa fundar að sjá til þess, að ég yrði ekki truflaður á þeim tíma, sem mér hefði verið úthlutað, hvað sem kynni að gerast. Því var mér að sjálfsögðu lofað.
Bæði áheyrendur og ræðumenn voru frá ýmsum löndum. Hafði því hátalarakerfi verið lagt í salinn, heyrnartól við hvert sæti, og bak við glerrúðu í hliðarherbergi sátu nokkrir túlkar. Þeir voru vanir því að ræðumenn töluðu hraðar en unnt var að þýða, og báðu þess vegna sérfræðingana, að láta sér í té fyrirfram eintak af hverju erindi. Túlkarnir urðu mjög órólegir er ég neitaði að fá þeim neitt slíkt í hendur. Ég lagði mig í líma að fullvissa þá um, að þeir mundu ekki lenda í neinum erfiðleikum með að þýða það sem ég hefði til málanna að leggja, en tókst samt ekki að eyða kvíða þeirra.
Um leið og ég sté í pontuna setti ég af stað skeiðúr mitt, til að vera viss um að fara ekki fram úr þeim tíma, sem mér hafði verið fenginn til umráða. Ég þagði.
Hegðun áheyrenda breyttist svo sem nú skal skýrt frá. Það var hægt að greina milli margs konar atvika og ástands í salnum, og skipti ég nú frásögn minni í tuttugu sekúndna tímabil til hægðarauka.
Á fyrstu 20 sekúndunum var beðið með eftirvæntingu eftir því að ég hæfi mál mitt, og því sem ég mundi segja fyrst.
20''-40'': Undrunin vex yfir því að ég er ekki ennþá byrjaður að tala.
40''-60'': Undrunin breytist í auðsæjan ótta. Samt er ennþá þögn í salnum. (Kurteisir háskólamenntaðir áheyrendur.)
1'-1'20'': Fussað og blístrað í fyrsta sinn.
1'20''-1'40'':Áheyrendur skiptast í hópa: 1. hópur: Hinir kurteisu eða hluttekningarlausu. Þeir þegja enn, bíða og sjá hverju fram vindur. 2. hópur: Þeir sem virðast skemmta sér í laumi: Fussað, blístrað, hlegið lágt. Þessi hópur virðist ekki þora að vera háværari fyrst um sinn, kannske af virðingu fyrir 1. hóp. 3. hópur: Þeir sem halda að ég sé að öllum líkindum fífl. Þessi hópur er ennþá allhljóður, en á eftir að verða háværari og láta vanþóknun sína í ljós og missir algjörlega stjórn á sér á sjöttu mínútu. Þessi hópur stækkar stöðugt. 4. hópur: Þeir sem gera ráð fyrir því að ég sé að hafa þá að fífli. Þessi hópur er nú þegar orðinn gramur, en er samt tiltölulega stilltur. Missir stjórn á sér um leið og 3. hópur.
1'40''-2': Sama og áður.
2'-2'20'': Töflu hafði áður verið stillt upp á sviðinu. Ég sný mér nú við og skrifa með hvítri krít á töfluna: Framtíð tónlistar.* Hlátrasköll, öskur og stappað með fótunum. (Kurteisir háskólamenntaðir áheyrendur.)
2'20''-2'40'': Ég skrifa á töfluna: Gjörið svo vel að hlæja hvorki né stappa. Stapp og hlátrar verða sterkari.
2'40''-3': Ég skrifa enn á töfluna: Crescendo. Þessari áskorun er samstundis fylgt. Um leið og þriðja mínútan byrjar skrifa ég með rauðri krít á töfluna: Stopp. Litbreytingin hefur mögnuð áhrif: samstundis verður dauðaþögn.
3'-3'20'': Algjör þögn ríkir í salnum en síðan fer að bera á
skvaldri á nýjan leik. Eftir u.þ.b. 10 sekúndur hefur hávaðinn í salnum náð sama styrkleika og á undan þagnarmerkinu og verður sífellt sterkari.
3'20''-3'40'': Ég skrifa á töfluna með grænni krít: Látið ekki afvegaleiða ykkur. Augnabliksþögn, síðan fussað og sveiað af miklum móð.
3'40''-4': Ég skrifa að sinni ekkert fleira á töfluna. Áheyrendur öskra og baula.
4'-4'20'': Þótt einkennilegt megi virðast minnkar spennan í salnum. (Upphaf Adagio-þáttarins.)
4'20''-4'40'': Hávaðinn í salnum minnkar greinilega. Svo virðist sem áheyrendur séu farnir að þreytast.
4'40''-5': Nú hljóðna flestir og bíða þess í ofvæni hvað næst muni gerast, og hvenær ég muni "tala" til þeirra með hjálp töflunnar.
5'-5'20'': Veikt skvaldur og hvíslingar hefjast að nýju. Það virðist sem áheyrendur geti ekki fellt sig við þetta ástand. Enginn veit hversu lengi ég hef í hyggju að þegja. Þótt ræðumennirnir á undan mér hafi talað í tíu mínútur er enga ályktun unnt að draga af því - auk þess sem margir þeirra töluðu lengur en þeim hafði verið ætlað.
5'20''-5'40'':Öryggisleysið og óþolinmæðin eykst. Áheyrendur gera bæði ráð fyrir því að ég muni hætta á hverju augnabliki, og einnig að ég muni halda áfram tímunum eða jafnvel dögunum saman - já óendanlega. Ég geri ekkert, gef enga átyllu til neins. Áheyrendum gæti fundizt að þeir væru yfirgefnir úr því ég er alveg hættur að nota töfluna.
5'40''-6': Eins og áður, síðan stöðugt meiri órói. Forstöðumaður samkomunnar gefur mér merki með hendinni að hætta.
Hann heldur að tími minn sé löngu útrunninn, þar eð hann hefur ekki mælt hann.
Um það bil er sjötta mínúta hefst stendur óvenjulega æstur prófessor skyndilega upp, æðir út úr salnum og skellir á eftir sér hurðum. Þetta var eins og olíu væri hellt á eld og hefur þær afleiðingar að 3. og 4. hópur missa algjörlega stjórn á sér, svo ekki verður aftur tekið. Upp frá þessu breytist andrúmsloftið í salnum. Það hafði hingað til verið viðráðanlegt, órói aukizt og hjaðnað á víxl, en nú sýður fyrst upp úr. Leynd orka leysist úr læðingi. Nú myndast eins konar óperulokaþáttur með tíðum skiptingum einstakra radda, hópa og stórra kóra. Ég get aðeins skýrt frá nokkrum atvikum þessa lokaþáttar, svo fjölbreyttur og fíngerður var hann, sérlega hvað rytma og blæ snerti. Aragrúi smáatriða myndaði svo flókin og margbrotin tengsl, andstæður og hliðstæður, sín í milli, að mér heppnaðist ekki að skrá þau öll.
Ég gat gert mér grein fyrir heildarformi þessara atvika og var það nokkurs konar stretta.
Samkvæmt skeiðúri mínu var lengd þessa þáttar rúmar tvær mínútur. Í fyrstu bar mest á einstökum röddum, tenór, barítón og bassa. Kvenraddir voru allan tímann miklu óframfærnari; heyrði ég mestmegnis frá þeim mjóradda fliss og skræki. Frá einleiksröddunum heyrði ég aðallega fremur hófleg skammaryrði á ýmsum tungumálum. Franskur maður ásakaði mig af mikilli skrúðmælgi, fyrir að vera með "þýzka ósvífni". En Þjóðverji nokkur frábað sér slíkar staðlausar fullyrðingar, og kvað hegðun mína á engan hátt samræmast germönskum hugsjónum. Forstöðumaður samkomunnar gaf mér nú ekki lengur merki með hendinni, heldur skoraði hann munnlega á mig að hætta. Ég sá mig að lokum tilknúinn að grípa til krítarinnar á nýjan leik og láta hann vita að samkvæmt svissneska skeiðúrinu minn væri tími minn enn ekki útrunninn. En þar sem hann heimtaði samt sem áður að ég hætti samstundis neyddist ég að minna hann á það skriflega, með allri kurteisi, að samkvæmt loforði hans ætti ég rétt á tíu mínútum. Þrátt fyrir þetta hélt hann fast við að meira en hálfur tími væri liðinn frá því að ég sté í stólinn. Margir hrópuðu nú í kór: Út með þann klikkaða - og áttu við mig. Á áttundu mínútu gengu svo nokkrir herramenn ógnandi á svip upp að ræðustólnum og drógu mig niður úr honum.
Á þennan hátt var leikur þessi sem átti að standa í tíu mínútur styttur um tvær. Ég harmaði það ekki því svo mörg ógleymanleg og glæsileg atvik höfðu þegar átt sér stað. Það hafði orðið allt að því fullkomið samspil milli einsöngsradda og kórs, og þau músíkölsku form sem mynduðust voru í senn augljós, einföld, flókin og fjölbreytileg. Þess vegna setti ég mig ekki úr færi, síðar meir, að þakka áheyrendum, þ.e.a.s. flytjendum, hjartanlega fyrir allt saman.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:05 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.