14.5.2008 | 09:30
Allt á fullu
Nú er allt á fullu. Listahátíð í Reykjavík er að bresta á og listamenn og aðstoðarmenn að setja upp listaverk. Ef maður skreppur í Húsasmiðjuna í leit að einni vissri skrúfu má bóka að maður rekst á einn eða tvo frá einhverri listastofnun í sama tilgangi.
Í mínu tilfelli eru það 6 listamenn frá Króatíu. Þau eru að opna í Gallerí 100°, heimahögum Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi á föstudaginn. Þar eru starfsmenn gallerís á haus að smíða milliveggi og finna ýmsar lausnir í samvinnu við Króatísku listamennina. Og ég verð að segja að það er vonum framar að starfa með orkuveitunni í þessu. Mjög faglegt.
Hvað um það þá langar mig að nota næstu daga á blogginu til að kynna listamennina lítillega, sem og sýningarstjórann (byrja á henni).
Hún heitir Radmila Iva Jankovic og er fædd í Zagreb 1963. Listfræðingur og sýningarstjóri við Nútímalistasafnið í Zagreb í Króatíu. Kunnur fyrirlesari í heimalandi sínu og listgagnrýnandi. Hún fjallar um listir á Stöð 3 í Króatíska sjónvarpinu og í útvarpi.
Radmila sérhæfir sig í sýningum á list í almenningsrými og nýleg sýningarverkefni utan Samtímalistasafnsins eru Tvíæringurinn í Tiranaí Albaníu og sýningaröðin Zadar Live: Artist's Interventions in Urban Space í Króatíu.
Ég kynntist Radmilu þegar ég var í gestavinnustofu ISCP í New York árið 2006. Hún var þá "Curator in residence" á vegum "SÍM" í Króatíu. Ég sat fyrirlestur hjá henni um Króatíska samtímalist og fannst mjög spennandi.
Í kjölfarið fórum við að vinna að þessari sýningu sem opnar á föstudaginn klukkan 18:00.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.