Úttekt á sýningarstarfsemi.

listasafnÞetta er aldeilis flott að fá svona heilsíðuúttekt frá Bergþóru á sýningarstöðum á Íslandi. Gefur nokkuð skarpan mismun á sýningarstarfsemi.

Söfnin byggja á annarskonar starfsemi en sölugallerí og eðlilega eru sýningar farnar að þróast í þá áttina. Þ.e. að gallerísýningar eru þá sölusýningar en safnasýningar falla undir verkefni eða "prójekt".

"Aðrir sýningarstaðir", eins og Mogginn kallar þá, eru reknir með ýmsum hætti allt frá því að vera innan reksturs fyrirtækis, eins og Gallerí 100° í Orkuveitu Reykjavíkur, til einkaframtaks eins og raunin er með Gallerí Box, Suðsuðvestur ofl.

Eðlilegra hefði verið að setja alla þá staði sem taka prósentur af sölu í flokkinn "Gallerí", þannig að Gallerí Fold, Fótógrafí og Kling & Bang færðust um set.

Ekki veit ég hversvegna Listasafn ASÍ var skilgreint sem " Aðrir sýningarstaðir" en það á heima í safnaflokknum alveg eins og Hafnarborg og Gerðarsafn (sem reyndar er eina safnið sem tekur prósentur af sölu)

Eftir slíkar tilfærslur sætu eftir sýningarsalir sem mætti skilgreina sem "Not-for-profit" eins og tíðkast í útlandinu.

leiga

Athyglisvert að Grafíksafnið sé ekki með í úttektinni, sérstaklega þar sem talað er um liðna tíð í greininni þegar listamenn greiddu leigu fyrir sýningarrými.  En þannig er enn háttað í sýningarsal íslenskrar grafíkur.

Ég held að Listasafn Reykjavíkur sé eina safnið sem greiði listamönnum fyrir að sýna. En yfirleitt er sá aur bara upp í kostnað. Reyndar greiðir Hallgrímskirkja (sem er ekki inni í þessari úttekt og á heldur ekki heima þar) einhvern pening fyrir sýningar í anddyri, en þar með er það upptalið.  Þetta er eitthvað sem þarf að breytast, allavega hjá opinberum söfnum. En yfirleitt er það þannig að allir fá greitt fyrir vinnu sína sem koma að sýningu (grafískir hönnuðir eða þjónar á opnun) nema listamennirnir.

Fæst söfn gera sýningarskrár utan stóru safnanna (sem oftast gera þó bara blöðung), en slíkar heimildir skipta listamenn og sýningarstaði máli.

skráHjá Listasafninu á Akureyri eru yfirleitt metnaðarfullar skrár, sem og hjá Þjóðminjasafninu (veit samt ekki hvort Þjóðminjasafnið eigi heima í svona úttekt).

Listasafn Reykjanesbæjar prentar alltaf ágæta skrá með sýningum og Gallerí 100° er einnig með vandaða sýningarskrá sem gestir fá ókeypis.

Gallerí Turpentine og i8 prenta blöðunga með texta og litmyndum fyrir hverja sýningu.

Af úttektinni að dæma er augljóslega hægt að velta heilmiklum fjármunum með einbeittri gallerístarfsemi og þannig skapast líka einhver sannfærandi markaður.

Af því tilefni mætti líka rannsaka verð á íslenskri myndlist. Hvað ræður því hvað verk eftir þennan eða hinn listamanninn kosta. Og hvernig er verðmyndun á íslenskri myndlist samanborið við verðmyndun erlendis.


mbl.is Íslensk list selst vel erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heidi Strand

Í upptalningu vantaði Ráðhús Reykjavikur og Norræna húsið.

Heidi Strand, 21.6.2008 kl. 11:03

2 Smámynd: Ransu

Jamm. Norræna húsið ætti að vera með og undir "aðrir staðir". En Ráðhúsið er varla inni í þessu dæmi, ekki frekar en kirkjur, bankar og ýmsar stofnanir sem hafa tilfallandi sýningarstarfsemi á göngum eða í anddyri.

Sennilega er eitthvað fleira sem er líka að gleymast í upptalningu.

Ransu, 21.6.2008 kl. 16:53

3 Smámynd: Heidi Strand

 Tjarnarsalur Ráðhússins er sýningarsalur og þar eru  nær alltaf sýningar af ýmsu tagi, bæði listsýningar og annað.Það er engan vegin sambærilegt við bankar og þess háttar.

Heidi Strand, 21.6.2008 kl. 18:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband