6.7.2008 | 22:17
Ígildi
Sýningin "Ígildi" (Ekvivalenjica) opnaði í vikunni í Galeria Otonka og Art radionica Lazareti í Dubrovnik í Króatíu og samanstendur af verkum eftir 5 íslenska listamenn, Guðrúnu Veru Hjartardóttur, Helga Hjaltalín, Hlyn Hallsson, JBK Ransu og Þorvald Þorsteinsson.
Yfirheiti sýningarinnar kom til þegar listamennirnir báru saman bækur sínar og ég áttaði mig á að við værum öll á einhvern hátt að nálgast Króatískan kultúr í gegnum okkar eigin menningu, leitandi að jafngildi eða Ígildi.
Verk Guðrúnar Veru Hjartardóttur, Áhorfandi, er framhald af samnefndu verki hennar sem var í Deiglunni í vor. Að þessu sinni eru það videoupptaka sem sýnir íslenska áhorfendur í raunstærð þeir standa og horfa á sýningargesti Lazareti.
Guðrún Vera sýnir einnig ljósmynd af inngangi Þjóðminjasafns Íslands þar sem textinn "Making of a Nation" er áberandi, en það er yfirheiti sýningar sem nú er í Þjóðminjasafninu.
Hlynur Hallsson fer hamförum með spreybrúsann. Hann spreyjar Hamar og sigð og hakakross í Otonka. Við inngang Lazareti er merki um að málað hafi verið yfir veggjakrot, sem raunin var, í verki sem heitir "Ritskoðað" og í litlu rými krotaði Hlynur setninguna This is not America(strikaði yfir "not") og við enda þess er videó af Lóu dóttur hans að tyggja tyggjó.
Helgi Hjaltalín á hund sem rekur ættir sínar til hundaræktara á þessum slóðum. Helgi sagaði útlínur hundsins á krossvið og tók hann (plathundinn) í heimsókn til hundagarðs. Tók þar ljósmyndir og sýnir auk útsagðan krossviðinn.
Fyrir sýninguna fór Þorvaldur Þorsteinsson á hleðslunámskeið hjá Hannesi Lárussyni þar sem hann lærði að hlaða torf og grjót að fornum hætti. Hann sýnir vídeó af Hannesi hlaða í torfhleðslu en jafnframt hlóð Þorvaldur vegg í sýningarrýmið úr nærtækum hlutum, tölvuskjáum, stólum, klæðum o.fl. út frá sömu lögmálum og torfhleðsluvegg.
Ég sýni nýtt verk í röðinni Virðingarvottur til staðgengilsins. Mála hringi með fluorecsent málningu á vegg og dreifi plast fluorescent hringjum á gólfið sem nota má sem frisbee eða til að "juggla". Samspil mínimalisma og leik, svipað og ég hef áður gert með Hula-hopp.
Flokkur: Menning og listir | Breytt 8.7.2008 kl. 14:14 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir góða útlistun...mig langaði svo að geta séð sýninguna....já og til hamingju.
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 7.7.2008 kl. 15:14
gaman að lesa þetta og sjá myndir. til hamingju til þessara góðu listamanna.
kær kveðja
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 8.7.2008 kl. 13:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.