30.12.2008 | 11:37
Topp 10 - Myndlistaruppgjör ársins 2008
Í áramótablaði Morgunblaðsins verða fullt af topp 10 listum og þ.á.m. listi yfir 10 "bestu" myndlistarsýningar ársins(má líka segja "athyglisverðustu", "merkilegustu", eða eitthvað þvíumlíkt).
Ég á bara 1/4 hluta af þessari samsetningu í Morgunblaðinu og birti þessvegna minn topp 10 lista hér á blogginu. En þar sem ég verð á brott yfir áramótin og í netlausum bústað þá birti ég listann minn í fyrra fallinu.
2008 er óneitanlega sérstakt ár í listinni. Einkageirinn var búinn að vera duglegur að styrkja útrás listamanna sem/og innrás erlendra stjarna. Ríkið var líka farið að treysta á einkageirann sem stoð undir fjármögnun sýninga. En svo sprakk blaðran og listamenn og liststofnanir knúin til að endurskoða sína hagi. Þótt ekki séu kennimerki um breyttar áherslur í listinni ennþá.
Hannes Sigurðsson forstöðumaður Listasafnsins á Akureyrir á tvímælalaust besta sýningartitilinn í ár, "Bæ, bæ Ísland". Það hefði verið óskandi að sýningin hefði staðist titilinn. En sumar hugmyndir eru einfaldlega of stórar um sig og ómögulegt að þjóna þeim. Og þannig var með Bæ, bæ, Ísland.
Verk Ásmundar Ásmundssonar, "Into the Firmament" (sem ég kallaði "Partíturninn" í gagnrýni þegar verkið var sýnt í Reykjanesbæ árið 2005) var endursýnt á Bæ bæ Ísland. Einhvernveginn fær þessi steyputurn allt aðra merkingu eftir efnahagsfallið og ætti að vera reistur til frambúðar á góðum stað í Reykjavíkurborg sem minnisvarði um innantómt góðærið og sukkinu sem því fylgdi.
Bróðir Ása, hann Snorri, átti flottasta gjörninginn í ár þegar hann rétti Geir H. Haarde uppsagnarbréf Davíðs Oddssonar á blaðamannafundi. Ég íhugaði jafnvel að láta gjörninginn inn á topp 10 listann minn yfir bestu sýningar ársins. En læt duga að nefna hann hér enda voru aðrir gjörningar sem framdir voru í mótmælum gegn ríkisstjórn ekki síðri og ekki endilega af hendi viðurkenndra myndlistarmanna. Bónuspokinn á alþingi var þeirra á meðal og sölumiðar sem límdir voru á barnamyndirnar við Austurstræti sem ígildi söluverðs á hvert barn á Íslandi var alveg brilljant og frábær endurnýting á listinni sjálfri. Höfundur er hinsvegar ókunnur.
Mér þótti ekki vandasamt að velja besu sýningu ársins. Reyndar hugsaði ég upphaflega að sýningin List mót byggingarlist í Listasafni Íslands ætti heimtingu á efsta sætinu. En eftir umræðu við nokkra kollega og nánari íhugun að þá stendur framlag Steinu Vasulka, Of the North, á þessa sömu sýningu uppi sem sýning ársins. En verkið var áfram sem sýning á sumarsýningu eftir að List mót byggingarlist lauk. Of the North var tvímælalaust hápunkturinn á List mót byggingarlist, enda líkast til að þessi vonlausi sýningarsalur á efstu hæð listasafnsins hafi verið smíðaður fyrir verk Steinu. Listakonan nýtti sérkenni salarins "to the max" og gersamlega eyddi honum þannig að maður stóð eins og einhver míkró vera inn í kosmískum andardrætti (svo ég hljómi dálítið dramatískur).
10 bestu myndlistarsýningar á Íslandi árið 2008
1) Of the North Steina Vasulka - Listasafn Íslands
2) Grasrót Ýmsir Verksmiðjan á Hjalteyri
3) Þríviður Guðjón Ketilsson, Hannes Lárusson og Helgi Hjaltalín - Listasafn Reykjanesbæjar
4) Guðný Rósa Ingimarsdóttir - Listasafn Íslands (á sýningunni Streymið)
5) I hate nature / Aluminati Martha Schwartz Listasafn Reykjavíkur, Kjarvalsstaðir
6) Augnasinfónían Bragi Ásgeirsson -Listasafn Reykjavíkur, Kjarvalsstaðir
7) Óvissulögmálið Sirra Sigrún Sigurðardóttir Kling & Bang
8) Klessulistahreiðrið Ýmsir Listasafn ASÍ
9) Jón Laxdal - Jónas Viðar gallerí
10) Sjóndeildarhringur Bjarni Sigurbjörnsson, Kristinn G. Hrafnsson og Svava Björnsdóttir Gerðarsafn
Gleðilegt ár,
Ransu
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:44 | Facebook
Athugasemdir
Já gaman að sjá þennan lista, sá reyndar ekki allar sýningarnar en sammála mörgu, t.d. finnst mér Óvissulögmál Sirru standa upp úr og Martha Schwartz en Sjóndeildahringur á ekki heima þarna að mínu mati, þó þar hafi verið fín verk þá fannst mér sýningin ekki grípandi. Það voru nokkrar fleiri góðar í Hafnarhúsinu: Samsíða heimar, Ingibjargar Jónsdóttur, Fullt af engu eftir Jónu Hlíf og Þögn finnast mér eftirminnilegastar.
Jóhanna H. Þorkelsdóttir (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 15:44
Tíunda sætið var erfitt í þessum lista. Hefði vel viljað láta Þögn á listann en þar sem ég var sjálfur sýningarstjóri Þagnar verð ég að útskúfa hana eins og allar sýningar sem ég kem sjálfur nálægt.
Íhugaði að láta sýningu Ólafs og Líbíu, Allir eru að gera það sem þeir geta eða Búdda er á Akureyri á listann. Einnig þótti mér sýning Sólveigar Aðalsteinsdóttur í ASÍ geta átt heima í 10. sætinu. En það eru verk Svövu Björnsdóttur sem gera það að verkum að mér þótti Sjóndeildarhringur eiga sætið skilið. Þau voru svaka fín. Einnig þótti mér skemmtilegt við sýninguna að málarinn (Bjarni) fetaði sig í átt að skúlptúr, skúlptúristinn (Svava) fetaði sig í átt að málverkinu og skúlptúristinn (Kristinn) snerti einhverskonar konkretljóðalist.
Ransu, 4.1.2009 kl. 19:49
Flottur listi þó að ég sé auðvitað ekki sammála öllu.) En mjög ánægjulegt að þú hafir sett Grasrótarsýninguna í Verksmiðjunni á Hjalteyri í annað sætið! Og auðvitað gaman að sjá frábæra sýningu Jóns Laxdals í Jónas Viðar Galleríi á listanum.
Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 9.1.2009 kl. 22:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.