Cronenberg lofar

Ég fór á Eastern promises í Háskólabíó, nýjasta mynd Davids Cronenbergs. Hann hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér gegnum tíðina, eða allt síðan ég sá Scanners (1981) og  Videodrome (1983) sem ég heillaðist af á unglingsárunum. Dead Ringers (1988) sló síðan naglann á höfuðið, enda tær snilld með Jeremy Irons í sínu langbesta hlutverki á annars glæsilegum leikferli. Cronenberg er einn af þessum kvikmyndargerðarmönnum sem hefur tilfinningu fyrir áþreifanleika og jaðrar við að vera skúlptúrískur. Í Dead Ringers, Naked Lunch (1991), Crash (1996) og eXistenZ (1999) nær hann verulega góðu flugi sem slíkur. Í Spider (2002) færist fantasían hinsvegar nær veruleikanum, þótt það sé veruleiki geðklofa þar sem Ralph Fiennes sýnir svaka takta.  Hún var hinsvegar hægari og í þyngri kantinum og féll í skuggann á vinsældum myndarinnar A Beautiful Mind (Ron Howard, 2001) sem var um samskonar málefni en hafði meira "entertainment value". Þegar ég sá  A History of Violence (2005) var ég ekki alveg að átta mig á hvað Cronenberg væri að fara. Þessi útsýrði fantasíuleikstjóri var kominn í dálitla klisjumynd, sem hann skilaði frá sér mjög vel, en einhvernvegin fannst mér nóg búið að vera af svona ofbeldisminnisleysisofurleigumorðingja myndum, þótt Cronenberg nái vissulega einhverri dýpri mynd á efnið, sem dýpkar enn við annað áhorf og þriðja. 

Ég fór síðan á Eastern Promises í gær og vissi ekki við hverju ég ætti að búast. Myndin hefur hlotið misjafna dóma í útlandinu.  Viggo Mortensen er alveg brilliant í sínu hlutverki og þótt Cronenberg skelli þarna smá lögguleik með í plottið sem maður var svosem búinn að spotta út áður en til kastanna kom að þá þótti mér þráðurinn halda og endirinn ekki ósvipaður og í A History of Violence. Þ.e. að maður fær tilfinningu fyrir ástandi sem gefur manni innsýn í framhaldið.  Þá voru líka dálítil Lilja 4 ever (Lukas Moodyson, 2002) skilaboð í þessu sem eru ansi áleitin og sitja í manni lengi á eftir og svo var umræddur áþreifanleiki að skjóta upp kollinum af og til í aftökum og limlestingum.

Mér var sagt af áhugamanni um mannspekingi að Rússar séu mjög meðvitaðir um skuggann sinn og að þeir gangi með skuggann sér við hlið. En þetta er einmitt kaldur og skuggalegur veruleiki sem Cronenberg sýnir. Ömurlegt að svona mannsal skuli vera í gangi og að menn sjái ekkert athugavert við að skipta á ungum stúlkum og nokkrum kössum af áfengi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband