1.12.2007 | 14:24
Raunveruleikagjörningur með óraunverulega sprengju
Listrými, s.s. safn eða gallerí, er verndarsvæði myndlistar þar sem gestir geta gengið að listinni vísri og listamaðurinn leikið sér innan þess ramma. Í almenningsrými lýtur listin öðrum lögmálum þar sem listamaðurinn þarf að taka tillit til umhverfisins og jafnvel virkni rýmis. Listrými getur hinsvegar verið notað sem almenningsrými eins og 24 ára íslenskur myndlistarnemi í Toronto í Kanada hefur kannað og fyrir vikið gæti þurft að sitja undir þungum dómi stjórnvalda.
Að gera eftirmynd af sprengju og leggja hana frá sér í listasafni án þess að kynna það sem listaverk færir hugmyndina inn í almenningsrými.
Þetta er dæmigert Post-art (Sið list) þar sem listin verður að raunveruleikagjörningi og virknin fellst í almennum viðbrögðum. Þ.e. að almenningur er ómeðvitandi þáttakandi í gjörningnum og án þeirra "raunverulegu" viðbragða er gjörningurinn einskins virði.
Á sínu 25. aldursári færði Orson Welles sögu HG Welles, Innrásin frá Mars, í raunveruleikabúning, sem fréttaflutning í útvarpi og skapaði öngþveiti víða um Bandaríkin. Hann slapp við dóm þar sem að útvarpið hafði jú ráðið hann til verksins.
Ég velti fyrir mér í þessu samhengi hvar ábyrgð skólans liggur. Tveimur kennurum hefur verið vísað tímabundið frá starfi og nemanum líka. Verkið ku hafa verið unnið innan kennsludagskrár og þá hljóta kennarar að hafa fylgst með gangi mála, allavega ef ég er að kenna í LHÍ eða Fornámi MÍR að þá fylgist ég með nemendum og spegla hugmyndir þeirra. Máski gekk neminn skrefi lengra en kennarar höfðu hugsað eða hann rætt við þá og hann raungert hugmynd upp á eigin spítur án þess að ígrunda afleiðingar þess.
Ég vildi ekki vera í sporum þriðja árs nemans og sendi honum stuðning minn hér. Leitt ef þetta skemmir fyrir honum listnám, hann er augljóslega hugmyndaríkur, og enn verra ef hann þarf að dúsa í fangelsi fyrir vikið. Ég leyfi mér þó að trúa að svo verði ekki, að dómari fari ekki að setja eitthvað fordæmi öðrum til viðvörunar, og hann sleppi með sektir og brottrekstur úr landi. Og umtalsverða athygli í fjölmiðlum -En mér dettur í hug kvikmyndin Art school Confidential (Terry Zwiggoff, 2006) í kjölfar þessa máls.
Hér er annar linkur um gjörninginn. http://www.ctv.ca/servlet/ArticleNews/story/CTVNews/20071129/bomb_hoax_071130/20071130?hub=CTVNewsAt11
Íslenskur listamaður í fangelsi í Toronto | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:55 | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst þetta skemmtilegur gjörningur hjá honum ef satt skal segja. Hinsvegar er leitt hvaða afleiðingar hann hefur í för með sér.
Ragga (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 14:52
Ákaflega ungæðislegur gjörningur. Þetta er auðvitað það viðkvæmt mál að það mátti alveg búast við þessum viðbrögðum - kannski voru þetta einmitt viðbrögðin sem listamaðurinn kallaði eftir, þá er þetta bara í lagi. Held þó tæplega að hann hafi gert sér grein fyrir þessum hörðu viðbrögðum fyrirfram.
Ef einhverjir hneykslast á viðbrögðunum eru þeir einfaldlega fífl sem ekki hafa fylgst með því hvað er á seyði í kringum þá í veröldinni.
Góð samlíking hjá þér með Orson Welles. Tek undir með þér að vonandi hefur þetta ekki slæm áhrif á skólagöngu unga listanemans. En auðvitað er það ekkert nýtt að listamenn taki slíka áhættu með verkum sem storka samfélaginu. Tek undir það að ábyrgð kennara hans hlýtur að vera nokkur, hafi þeir vitað um gjörninginn, að leiða honum fyrir sjónir að hann færi þarna inn á mjög viðkvæmt svið sem því fólki sem á um sárt að binda vegna sprengjuógna finnst ekki hafandi í flimtingum.
Hins vegar, svona absúrd og á léttari nótum, þá slægi það ef hann fengi þyngsta dóm, talað er um 4 ár, fyrir tiltækið, myndi það slá allt út um tímalengd gjörninga trúi ég, alla vega eftirminnilegan gjörning Silvíu Nætur&Co. hér um árið!
Greta Björg Úlfsdóttir, 1.12.2007 kl. 15:26
Í síðustu málsgreininni sló greinilega eitthvað saman í mínum eigin heilasellum, svo sem sjá má, vonandi skilst meiningin samt sem áður!
Greta Björg Úlfsdóttir, 1.12.2007 kl. 15:44
Svona eftir á að hyggja þá vefst það líka fyrir mér að skilja hvað hann ætlaði að sýna fram á með þessum gjörningi...fyrir utan þetta sem ég var að lesa á línknum sem þú gafst:
'It’s a statement against our culture of fear' is the way Dan, who didn't give his last name but identified himself as a friend of the accused, described the incident.
Næ samt ekki alveg að tengja...vona að ég sé samt ekki alveg sljó
Greta Björg Úlfsdóttir, 1.12.2007 kl. 15:53
Það sem þetta hverfist um, er ekki hvað má teljast almenningsrými og hvað listrými, heldur hvenær má teljast eðlilegt að valda fjölmörgum manneskjum miklu hugarangri.
Í þessu tilviki, þar sem m.a. fjáröflun átti sér stað, er nokkuð ljóst að margir hafa orðið fyrir verulegu uppnámi. Kannski hefur ævi einhverra með hjartaveilu verið stytt nokkuð fyrir vikið. Í dæmi þínu um Orson Welles man ég ekki betur en að einhverjir hafi fyrirfarið sér af ótta.
Það að skelfa tugi eða hundruði getur átt sér "eðlilegar" skýringar. T.d má ætla að þegar Bandaríkjamenn réðust inn í Írak, hafi tugir þúsunda, ef ekki hundruðir, verið skelfingu lostnir.
En listamenn hafa ekki skotleyfi á að skelfa almenning. Í hvaða rými sem er.
Það er háttur hrekkjusvína.
Það að Þórarinn geti vísað í hlandskál sem gosbrunn eða "Þetta er ekki pípa", þá þarf ríkari ástæður en þær að kunna lítið eitt fyrir sér í listfræði til að valda skelfingu margra.
List er á endanum aldrei skaðleg, hvað þá til að byrja með.
Og því hlýtur maður að spyrja hvort Þórarinn sé ekki bara fórnarlemb lélegra kennara...
Bugur bugaði (IP-tala skráð) 6.12.2007 kl. 23:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.