Stjörnur

Það er spennandi að sýna listaverk sín opinberlega í fyrsta sinn. Mín fyrsta sýning var í Nýlistasafninu árið 1994, samsýning 8 íslenskra myndlistarmanna sem höfðu verið í Hollandi. Ég var sá eini sem enn var á lokaári. Einn þáttur í spennunni var að lesa gagnrýni í fjölmiðlum.  Eiríkur Þorláksson skrifaði um sýninguna í Morgunblaðið, jákvætt og hughreystandi fyrir frumraunirnar. Jón Proppe skrifaði í DV, líka jákvætt en hafði einhverjar tengingar sem ég vildi leiðrétta við svo ég sendi svar til DV, en það var aldrei birt. Hannes Lárusson skrifaði í Pressuna og lét okkur fá það óþvegið.  Ég svaraði Hannesi, kallaði hann sjálfumglaðan og eitthvað meira. Pressan birti svarið og þar með mína fyrstu opinberu gagnrýni (sem reyndar var gagnrýni á gagnrýnandann). Já, ég var "besservisser" strax í námi. Þetta voru þrjár ólíkar nálganir þriggja ólíkra gagnrýnenda.

Undanfarin ár hefur Morgunblaðið eitt dagblaða sinnt myndlistargagnrýni og skrifaði ég m.a. pistil um málið í sumar þar sem ég kvartaði yfir áhugaleysi fjölmiðla á myndlistarumfjöllun og að eintal okkar á Mbl. væri ekki nóg til að halda lífi í opinberri myndlistarumræðu. Að hún væri í dauðateygjunum. En viti menn! Tímaritið Mannlíf hefur tekið kipp og ráðið til sín Jón Proppe, sem undanfarna mánuði hefur farið yfir það helsta í flórunni og gefið stjörnur.  Ég las meira að segja gagnrýni hjá honum um sýningu mína í Listasafni ASÍ í nýjasta riti blaðsins. Hann segir að ég sé“afslappaður töffari”og gefur mér fjórar stjörnur fyrir.Ég hef reyndar lesið þessi skrif Jóns í Mannlíf frá því að mér var bent á þau í sumar, en annars hafði ég aldrei flett tímaritinu (ekki einu sinni á tannlæknastofu), hvað þá keypt það. Þessi nýjung er blaðinu til mikils sóma.  Jón skrifar sem “lýsandi gagnrýnandi” (descriptive criticism) og fer vel með það form. Hann er afar fróður um listir, menningu og heimspeki.  Dómur Jóns kemur síðan í stjörnugjöfinni. Mörg blöð erlendis gefa stjörnur með myndlistardómum. Þ.á.m. “Time out” í New York og Lundúnum, sem væntanlega er fyrirmynd menningarefnis hjá Mannlífi.  Spurning hvort enn sé ekki vettvangur til að fara alla leið.  Að gefa út vikurit sem skannar mannlíf og menningu líkt og gert er í “Time out”.

Það hafa oft komið upp hugmyndir um hvort að myndlistargagnrýnendur Morgunblaðsins ættu að gefa stjörnur.  Það er gert í gagnrýni á kvikmyndir, geisladiska og tónleika, en ekki myndlist eða bókmenntir.  Það eru skiptar skoðanir um málið og því tilefni til skoðanakönnunar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ransu, í fyrstu fannst mér hugmyndin um stjörnugjöf óviðfelldin og sagði því nei í skoðanakönnuninni. Eftir að hafa lesa færsluna þín (já, ég viðurkenni að ég greiddi atkvæði fyrst, þar sem ég tengdi ekki færsluna strax við skoðanakönnunina!) þá sé ég að ef til vill myndi það laða menn frekar til að lesa þá í pistla í blöðum sem fjalla um myndlist. Samkvæmt því hefði ég líklega átt að segja já!

Varðandi þær athugasemdir sem ég hef gert við færslurnar þínar vil ég segja þér að ég er algjörlega ómenntuð í myndlist, en er alin upp við áhuga á myndlist og myndir eftir suma þeirra manna sem mönnum er í dag gjarnt að kalla gömlu íslensku meistarana prýddu veggi á bernskuheimil/i/um mínu/m. Ekki þó vegna þess að ég sé af vellauðugu fólki komin, heldur vegna myndlistaráhuga afa míns og vináttu hans við marga þessara manna. Og fyrirgefðu svo málæðið!

Greta Björg Úlfsdóttir, 10.12.2007 kl. 17:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband