Áfram Schnabel!

schnabel

Tilkynnt hefur verið að Julian Schnabel sé á meðal leikstjóra sem bítast um Golden Globe verðlaunin í ár. Tilnefninguna hlýtur hann fyrir myndina Le Scaphaldre et le papillon (The Diving bell and the butterfly).  Þetta er þriðja mynd Schnabels, en allar hafa myndir hans verið byggðar á ævisögum listamanna.

Sú fyrsta heitir "Basquiat" (1996) og fjallar um félaga Schnabels í listinni, Jean-Michael Basquiat, önnur heitir "Before night falls" (2000) og fjallar um Kúbverska skáldið Reinaldo Arenas. Sú mynd rataði ekki einu sinni í bíó hér á landi, enda ekki "blockbuster" þrátt fyrir að Javier Bardem hafi sýnt snilldartúlkun á Arenas.  En Bardem hlaut óskarstilnefningu og Gullhnattartilnefningu fyrir afrekið, sem/og Gullljónið í Feneyjum, Independent spirit awards og verðlaun National society of  film critics fyrir besta leik í aðalhlutverki. Vona að sú nýjasta nái á hvíta tjaldið hér heima, en Þessi íslenska bíóeinokun er óttalega lömuð. Spurning með "Græna ljósið"? 

Nýjasta mynd Schnabels fjallar um Franska rithöfundinn Jean Dominique Bauby sem lifði glamur lífi en fékk slag og lamaðist.  Schnabel hlaut Cannes verðlaunin í ár fyrir leikstjórnina og er nú nefndur til Golden Globe.

Fyrir þá sem ekki þekkja Julian Schnabel, að þá skaust hann á stjörnuhimininn ásamt Jean-Michael Basquiat sem einn helsti fulltrúi Nýja expressjónismans eða New Image painting í Bandaríkjunum á níunda áratug síðustu aldar. Fantaflottur listmálari með uppblásið egó og sjálfstraust í lagi. Ég las bráðsmellna bók fyrir nokkrum árum, "Julian Schnabel by Julian Schnabel" þar sem hann fjallar á léttum nótum um málverkið og lætur allt flakka um listmarkaðinn og listelítuna í New York.

Áfram Schnabel!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Batnandi mönnum er best að lifa og gott hjá Schnabel að hafa tjaslað egóinu svona vel saman - þetta var töluvert fall hjá honum þarna um árið með tilheyrandi „brothljóðum“...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 16.12.2007 kl. 23:28

2 Smámynd: Ransu

Allir "Ný-málararnir" féllu illa í markaðshruni Nýja expressjónismans, enda fráleitt hvernig markaðurinn gleypti þá í sig. Schnabel segir í bók sinni að á sinni fyrstu opnun á brotnum diskamyndum (sem þú vísar skemmtilega í, Ásgeir) hafi verk hans gengið margföldum kaupum og sölum á milli gesta.

Held satt að segja að Schnabel hafi sloppið vel miðað við flesta ný-málara, því svo margir sem voru stjörnur eru gleymdir og grafnir.  Sennilega fór Jean-Michael Basquiat þó verst út úr þessu. Þoldi ekki álagið, frægðina og dópaði sig í hel. Stendur svo eftir sem goðsögn Nýja málverksins, hinn eini sanni (og dauði) málari.

Já, svona er myndlistarheimurinn

Ransu, 17.12.2007 kl. 00:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband