Nakin neðanjarðar

VenusESÍ eina tíð var orðið "klám" notað sem andheiti lista. Að klæmast á einhverju var þá þvert gegn fagurfræðilegu markmiði listarinnar.

Í Grikklandi til forna æfðu íþróttamenn naktir fyrir augum almennings. Ástæðan var ekki til að áhorfendur gætu fengið órum sínum svalað á áhorfendapöllum heldur var stæltur og nakinn mannslíkami vísir að fullkomnun. 

Á endurreisnartímum leituðu listamenn aftur til hinna Grísku gilda, og þótt óneitanlega sé miðaldarbragur á ímyndum Lucas Cranachs, líkaminn sléttur og útlimir smágerðir, þá tilheyrir hann endurreisnartímanum. 

Venus er ástar og frjósemisgyðja Rómverja, sú hin sama og Grikkir kölluðu Afródítu.  Venusarmynd Cranachs er því gyðjuímynd og yfir henni býr fagurfræðileg dulúð sem m.a. leynist í fáguðu handverki listamannsins. Líkaminn er í "contrapposto" (S-laga stelling) eins og tíðkst með venusarmyndir allt aftur til Grikkja og í nektinni fellst upphafning í líkingu við nekt Grikkjanna.

Með klámvæðingu nútímans hefur dulúð nektarinnar verið afhjúpuð og fólk er þar af leiðandi gjarnt á að sjá klám út úr allri nekt. Þannig sjá talsmenn neðanjarðarlestakerfisins í London greinilega mynd Cranachs og segja viðmiðunarreglur hafa verið brotnar, "að ekki megi sýna naktar persónur í auglýsingum". En nekt er ekki endilega ósiðleg og síst í 500 ára gömlu málverki sem sýnir ásýnd guðlegrar veru úr fornum trúarbrögðum. Hér er hreinlega verið að banna háleita fagurfræði af ótta við mistúlkun eða hugsanaglæpi (Big brother is watching you).

Rétt er þó að geta þess að myndin sem birtist með fréttinni í Morgunblaðinu er af annarri Venusarmynd Cranachs. Hann gerði nokkrar.  Þær eru þó aldrei kviknaktar. Umrædd Venus er með hálsfesti og gegnsæja hulu. En sú sem birtist í blaðinu er einnig með hatt.


mbl.is Mynd af nakinni Venus bönnuð í lestum London
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég skil alveg hvað þú ert að meina í pistlinum, Ransu. En ég get samt sem áður líka séð lógíkina í að banna verkið í neðanjarðarlestarkerfi Lundúna, sem þúsundir ferðast með dag hvern, fólk með ólíkar skoðanir og viðmið. Þar á meðal er örugglega fullt af fólki sem myndi telja sér misboðið með einmitt svona mynd, þó við tvö og fleiri sjáum hana í öðru ljósi. Þannig að mér finnst sanngjarnt að við förum á safnið til að sjá þessa mynd, og önnur hlutlausari mynd sé valin til að auglýsa safnið. En óneitanlega myndi þessi mynd vekja meiri athygli, þó óvíst sé að hún væri af þeirri gerð sem vonast er eftir með auglýsingunni, sem sé að hvetja fólk til að sækja safnið heim.

Greta Björg Úlfsdóttir, 15.2.2008 kl. 21:39

2 identicon

Svona hugsanastýring eða tepruskapur er í eðli sínu sá sami og getur unnið konum Saudi-Arabíu inn vandarhögg frá yfirvaldinu ef þær voga sér að sýna bert andlit sitt. 

Tóti (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 08:58

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Það eru nú fleiri sem ferðast með neðanjarðarlestum en arabar, Tóti, til dæmis margir kristnir sem ekki mega heldur sjá nakið hold eða kynfæri án þess að finnast sér misboðið.

Ég held ekki að við breytum hugsunarhætti þessa fólks með því að stilla fyrir framan myndum sem því finnst misbjóða sinni siðferðiskennd á stöðum sem það kemst ekki hjá því að horfa á þær, eins og til dæmis á ferðalagi með lest úr og í vinnu. Ég ímynda mér að slíkt vekji fyrst og fremst upp gremju og mótþróa, frekar en að það verði til þess aðvíkka út sjóndeildarhring þessa fólks, þar sem mig grunar að það myndi líta á þannig auglýsingar sem ögrun, frekar en fræðslu.

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.2.2008 kl. 20:58

4 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ha, ha, ég get nú reyndar séð fyrir mér ágætis atriði à la Monty Python út úr þessari pælingu: Trúarbragðastríð í neðanjarðarlest...mussufólk og listaspírur í slagsmálum...

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.2.2008 kl. 21:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband