20.8.2008 | 13:03
Of og van í kvikmyndum
Er enn í þessum ofmetnu-vanmetnu hugleiðingum (sjá neðar á blogginu) í tilefni af vangaveltum um ofmetna list í Fréttablaðinu um daginn og langar nú að láta í ljós mína skoðun á kvikmyndunum.
Ofmetnasta kvikmyndin: Sigríður Pétursdóttir var spurð um ofmetnustu kvikmyndina og setti hún Gladiator (Ridley Scott, 2000) í það hlutverk. Ég var svosem enginn Gladiator aðdáandi nema að mér þótti klippingar í bardögunum flottar. En ef málið snérist um Rómverjamyndir að þá hef ég átt erfiðara með Ben-Hur, alveg yfirmáta væmin semi-biblíumynd en þó líka með flottum bardagasenum. Annars er mín skoðun sú að Titanic sé ofmetnasta mynd allra tíma.
Vanmetnasta kvikmyndin: Ég gæti svosem sagt að 2001: A Space Odyssey sé vanmetnasta myndin vegna þess að hún fékk engin stór verðlaun á sínum tíma og lenti fáránlega neðarlega á alþjóðlegum skoðanakönnunarlista yfir bestu sci-fi kvikmyndirnar. En hún er auðvitað langbesta sci-fi myndin og átti tvímælalaust að fá Óskar og allt það á sínum tíma. Hins vegar held ég að 2001: A Space odyssey sé í grunninn vel metin, allavega er nógu oft vitnað í hana í kvikmyndum samtímans. Nú síðast í WallE.
Ef málið snérist um sci-fi myndir þá mundi ég segja The Thing from another world(Christian Nyby, 1951) sem fjallar um átök nokkurra manna við gangandi grænmeti utan úr geimnum.
En málið er stærra en sci-fi. Og óneitanlega er mikill fjöldi mynda á annarri tungu en ensku sem eru vanmetnar. Listinn yrði of langur ef ég byrjaði og ætla því ekki að hafa "ekkienskumælandi" myndir með í leiknum. Þær eru hvort sem er yfir höfuð vanmetnar. Samt verð ég allavega að nefna myndina Komdu og sjáðu / Idri I Smotri (Elem Klimov, 1985), allavega vegna samanburðar við Hollywood myndirnar. Ég sá hana fyrst í Laugarásbíó um svipað leiti og Platoon (Oliver Stone 1986) var að gera allt vitlaust. Platoon gersamlega hvarf í skugga þessarar Hvítrússnesku myndar sem sýndi ógurleika stríðs, allsvakalega áhrifamikil.
Kvikmyndin Monsieur Verdoux(Charles Chaplin, 1947) var flopp á sínum tíma,frábær mynd, en fólk átti erfitt með að sjá Charles Chaplin í hlutverki kvennamorðingja. Hún er vissulega vanmetin eins og Kes(Ken Loach, 1969), ein magnaðasta og fallegasta mynd breskrar kvikmyndasögu og fyrrennari breska raunsæisins sem var vinsælt á síðasta áratugnum. Önnur Loach mynd The wind that shakes the Barley (Ken Lopach 2006) er vafalaust vanmetnasta mynd síðustu ára. Hún hlaut reyndar Cannes verðlaun en var algerlega útilokuð í Óskar og BAFTA vegna þess að hún drap á spurningum um hryðjuverk sem kanar og bretar vilja ekki að fólk spyrji sig að. Auk þess sýndi myndin svarta hlið á Englendingum í garð Íra.
Ég er hins vegar á því að vanmetnasta mynd "ever" sé The Hudsucker Proxy (Joel Cohen, 1994). Hún var álitin flopp og hefur aldrei hlotið uppreisn æru. Ekki einu sinni eftir auknar vinsældir þeirra Cohen bræðra. Mér þótti hún snilldarverk þegar ég sá hana fyrst og þykir hún enn snilld. Formræn, fyndin og falleg með létt skot á Hollywood feelgood-myndir fjórða og fimmta áratugarins.
Ég hef meira að segja tileinkað kvikmyndinni hluta af rannsóknarferli mínu í myndlistinni sem ég kalla Homage to the Proxyog hef þegar sýnt í sjö hlutum í Reykjavík, Akureyri, Hveragerði, Ísafirði, Kaupmannahöfn, New York og Dubrovnik. Og er enn í þróun.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkur: Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 14:52 | Facebook
Athugasemdir
Sammála þér með Hudsucker....alveg frábær mynd.
"You know, for kids!"
Jesús Kristur (IP-tala skráð) 20.8.2008 kl. 13:13
Hudsocker Proxy finnst mér líka afar góð, rétt eins og flest það sem komið hefur frá bræðrunum.
Það að velja ofmetnustu eða vanmetnustu myndirnar hlýtur að vera persónuleg skoðun á skoðun sem erfitt er að festa hendur á. Hvaða viðmið hefurðu fyrir mat á kvikmynd?
Ólík sjónarhorn gefa nefnilega afar ólíkt mat á kvikmyndum.
Ég hef til dæmis mjög gaman af að ræða um hvað mér finnst Sunshine léleg kvikmynd, og fannst hún afar ofmetin í fyrra, enda fékk hún góða einkunn bæði á IMDB og Rottentomatoes, en mér fannst hún hrein hörmung.
Sýnir að þetta getur verið svolítið flókið mál, rétt eins og blandaðar myndhverfingar.
Hrannar Baldursson, 20.8.2008 kl. 16:56
Í fljótu bragði Hrannar, þá mundi ég segja Frægð myndar almennt 30,3% Viðtökur í umfjöllun 15,1% Verðlaun 14,2% Perónulegur smekkur 40,4%
Ransu, 20.8.2008 kl. 18:07
Takk fyrir þetta.... ég læri heilmikið á því að lesa bloggið þitt, hef mikinn áhuga á kvikmyndum en er langt í frá svona fróð eins og þú, það á svo sem við um myndlist líka.....
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 20.8.2008 kl. 19:50
Takk Hrafnhildur.
Myndlist og kvikmyndir eru ættingjar og fylgdust reyndar að um tíma, eða allt þangað til að kvikmyndasamsteypur í Hollywood tóku yfir. Og þannig fer líka fyrir myndlistinni því fyrr eða síðar mun "myndlistariðnaðurinn" og "kvikmyndaiðnaðurinn" fylgjast að á ný.
Ransu, 20.8.2008 kl. 22:58
Ransu. Ég er nú eiginlega alveg sammála þér i þessari samantekt, þó ég hafi aldrei reyndar séð "Komdu og sjáðu / Idri I Smotri". Gallinn við bæði "2001: A Space odyssey" og "The Hudsucker Proxy" er sá, að þær eru einfaldlega of langar. Menn missa athyglina um miðja mynd, sem er mikill galli. 2001 var hreint snilldarverk á sínum tíma.
Hvers vegna eru menn annars alveg hættir að sýna myndir Jacques Tati hér á landi? Það þyrfti að kynna þær fyrir ungum kvikmyndanördum. Set hér lista úr Wikipedia yfir myndir hans til gamans:
Júlíus Valsson, 21.8.2008 kl. 01:01
ps
ég er enn að hlæja að Playtime
Júlíus Valsson, 21.8.2008 kl. 01:03
Og ég er enn að hlæja að Les vacanses de Monsieur Hulot
Ransu, 21.8.2008 kl. 01:31
Ég sá líka Komdu og sjáðu og hún er á topp 10 yfir bestu myndir sem ég hef séð.
zsvalbor (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 08:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.