Mér finnst...

rockwell_criticEins og svo oft áður þá er ég að spá í myndlistargagnrýni.

Las skrif Önnu Jóa og Rögnu í Mogganum og hjó eftir því að báðar áttu til að skrifa fyrir hönd áhorfandans eða þá gerðu ráð fyrir að áhorfandinn mundi upplifa það sama og þær. 

 Anna sagði um sýningu Bjarkar Guðnadóttur í Suðsuðvestri -"Áhorfandinn fær á tilfinningunni að skyrtan tengist barnshöndinni..." 

Ragna sagði um sýningu Alexanders Steig -"...blekkingarmynd sem áhorfandinn sér fljótt í gegn um."

Þetta er reyndar algengt hjá okkur.  Ég man t.d. að Þóra Þórisdóttir skrifaði um sýningu okkar Birgs S. Birgissonar í Suðsuðvestri í fyrra -"Það veldur því vissum vonbrigðum fyrir þá listunnendur sem þekkja listamennina að sýningin sjálf bætir ekki neinu við..."  Þannig dreifði hún ábyrgðinni á eigin áliti yfir á alla þá listunnendur sem þekkja listamennina.

Og ég ætla ekki að þykjast saklaus af þessu og hef oft skrifað "áhorfandinn sér að..", eða eitthvað þvíumlíkt

Einhverntímann var álitið að listgagnrýnandi ætti algerlega að halda persónu sinni frá skrifum. Ég man einmitt eftir viðtali við Einar Hákonarson þar sem hann sagði eitthvað á þá leið að hann hefði ekki áhuga á að vita hvað gagnrýnandinn hefði borðað í morgunmat. 

Máski var hann að vitna í eitthvað tiltekið, má vera að gagnrýnandi hafi skrifað um sýningu og sagt sig hafa fundið hafragrautinn koma upp í kok. 

Í dag þætti slík lýsing allavega nokkuð snjöll.  Í það minnsta "svöl". 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristbergur O Pétursson

Bragi Ásgeirsson var vanur að nefna sjálfan sig í þriðju persónu sem "rýnirinn" í gagnrýni, ef ég man rétt. Það er amk. skýrara en "áhorfandinn". Það er auðvitað misjafnt hversu framarlega gagnrýnendur setja sig í skrifum sínum. Jónas Sen er dæmi um mjög persónulegan krítiker.

-"Það veldur því vissum vonbrigðum fyrir þá listunnendur sem þekkja listamennina að sýningin sjálf bætir ekki neinu við..." 

Vonbrigði fyrir útvalinn hóp innvígðra eða hvað? Skipta þeir öllu máli? Þarna finnst mér Þóra þrengja rammann full mikið. Hvað með viðbrögð allra hinna sem ekki þekkja listamennina og verk þeirra? Eru jákvæð viðbrögð þeirra byggð á misskilningi ef þeir vita ekki að listamaðurinn er að endurtaka sig? (Ég er ekki að vísa til sýningar þinnar og Birgis)  Það má líka skoða hugtakið endurtekningu.

Kristbergur O Pétursson, 23.8.2008 kl. 09:46

2 Smámynd: Ár & síð

Það er auðvitað ágætt að það skuli koma fram hjá gagnrýnanda fyrir hvaða hóp sýningargesta gagnrýni hans er skrifuð. Sem almennum gesti á myndlistarsýningum finnst mér þó ávallt best að lesa gangrýni sem skrifuð er frá hjartanu, ekki þar sem verið að tala til ákveðins hóps eða jafnvel að smjaðra fyrir honum.
Að öðru, það er alltaf leiðinlegt að lesa gagnrýni um sýningar þar sem fram kemur að sýningu sé lokið. Er ekki hægt að skipuleggja heimsóknir og birtingar myndlistargagnrýni betur en svo?
Matthías

Ár & síð, 23.8.2008 kl. 12:44

3 Smámynd: Ransu

Rétt er Kristbergur að Bragi nefndi sig í þriðju persónu.

Jónas Sen er einmitt gagnrýnandi sem segir jafnvel frá því að gsm símhringingum á tónleikum. Slíkt fer í taugarnar á mörgum, en mér þykir jafnan gaman að lesa dóma Jónasar. Og ekki má gleyma að gagnrýni er bókmenntagrein.

Það kemur ekki oft fyrir að dómar birtast eftir að sýningu sé lokið, Matthías.  Stundum eru það dómar frá Akureyri því ferðir gagnrýnenda frá Mbl. eru takmarkaðar þangað. 

Síðan hefur gerst að greinar hafi horfið í tölvukerfinu, verið komnar inn á síðu en tekin út fyrir auglýsingu og þá lent á vergangi í kerfinu.  Það er þá ekki fyrr en að gagnrýnandinn hringir sjálfur til að spyrjast fyrir um dóminn að uppgötvast.

Kann líka að vera að gagnrýnandi hafi gleymt sér. Líka hefur komið fyrir að sýningarstaðir hafi gleymt að senda tilkynningu á Moggann og sýning þá farið framhjá í skipulaginu.

Að lokum kunna margar sýningar í einu að valda því að einhver dómurinn þarf að bíða sökum plássleysis. Yfirleitt eru það þó einhver mistök sem valda því að dómur birtist eftir að sýninu sé lokið.

Ransu, 23.8.2008 kl. 13:18

4 Smámynd: Ár & síð

Sæll aftur. Það eru tvær ástæður fyrir þessari ábendingu minni í gær.
a) Áhorfandinn missir af viðmiði fagmanns (og jafnvel af sýningunni ef hann treystir á leiðsögn rýnis).
b) Listamanninum gæti fundist að sýningin hans sé ekki metin nógu merkileg til að fjallað sé um hana á meðan hún stendur yfir.
Það er gott að heyra að þið rýnar reynið að forðast að umfjöllun birtist of seint.

Ár & síð, 24.8.2008 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband