Menningarstefna í nýjum Mogga?

A2008-11-02_w272Sunnudagsmogginn er nokkuð veglegur miðað við síðustu misseri. En eins og fram hefur komið þá er útgáfufélagið Árvakur í fjárhagserfiðleikum eftir að eigendur þess fengu skell í kreppunni.

Virðingarvert að þrátt fyrir stöðu þessa er verið að bæta útlitið á blaðinu. Nýr ritstjóri vill væntanlega nýstárlegra blað. Búið að poppa upp forsíðuna á Sunnudagsblaðinu og svo var Lesbókin á laugardögum tekin í gegn fyrir skömmu.

Engu að síður þá finnur blaðið fyrir kreppunni og menningardeildin hefur skorið niður gagnrýni og skríbentar því hafðir í geymslu síðustu vikurnar.   

Reyndar er kjaftasaga komin á kreik að Mogginn sé hættur að birta myndlistargagnrýni.

Svo er ekki.  En eins og staðan er í dag þá er skorið við nögl og bara skrifað um helstu sýningarnar og máski fjallað um 1 eða 2 sýningar á viku.  Áður giska ég á að þær hafi verið um 6 á viku, enda löngum verið stefna blaðsins að gera skil á sem flestum menningarviðburðum.

Þegar staða Árvakurs skýrist og vonandi lagast á næstu vikum mun gagnrýni væntanlega aukast að nýju, þar sem að menningarumfjöllun er Morgunblaðsmönnum mikilvæg.  Hins vegar er ég fullviss um að hún verður ekki með sama sniði og áður.  Að þessar 6 birtingar að meðaltali á viku verði aldrei fleiri en 4, kannski bara 3.

Hér eftir verður þá ekki sjálfgefið að sýning í viðurkenndum sal hljóti gagnrýna umfjöllun. Gagnrýni mun fremur takmarkast við fast pláss.  Það er þá úrval sýninga sem skiptir máli, ekki magnið sem er  hverju sinni. Og tími til kominn.

Engin gagnrýni verður þá líka gagnrýni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það munu nú vonandi verða breytingar, nýtt og ferskt fólk. Kreppan mun hafa ýmsar breytingar í för með sér og hvað moggann varðar þá er það til góðs.

Flestir tónlistarmenn hér á landi eru á þeirri skoðun að tónlistargagnrýni sé ekki í góðum höndum á hvorki Morgunblaðinu né á Rás 2. Nú verða gerðar meiri kröfur á faglega umfjöllun og tónlistarmenntun þeirra sem fjalla um tónlist, þjóðfélagsástandið mun einfaldlega kalla eftir því.

sandkassi (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 15:10

2 Smámynd: Ransu

Hmmm...Gunnar veit ekki með tónlistarmenn í þessu. En gagnrýnendur tónlistar eru misjafnir eins og í öðrum greinum.

Hins vegar eru þið betur staddir í tónlistinni en í myndlistinni. Hafið þá allavega einhverja umfjöllun annarsstaðar en bara í Morgunblaðinu.

Stefna Morgunblaðsins hefur verið að færa þetta allt saman í einn pakka, að gera ekki mun á dægurmenningu og hámenningu. Enda kann það að vera tímaskekkja að greina þarna á milli.

Eftir að Ólafur tók við ritstjórn að þá er ekki lengur hámenning fremst í blaðinu og dægurmenning aftast. Þetta er allt hjá bíóauglýsingunum.

Yfirlýsingin er skýr. Morgunblaðið er dægurmiðill sem fjallar um dægurmál.

Ég er hlynntur þeirri stefnu í bili, eða allavega á meðan staðan er svona dapurleg og aðrir dægurmiðlar horfa framhjá gagnrýninni þannig að það er enginn umræðugrundvöllur hvort sem er.

Annars hef ég fjallað um þetta gagnrýnisleysisvandamál í Af listum pistlum í blaðinu. Í einni greininni taldi ég myndlistargagnrýni lognast endanlega útaf ef ekki skapaðist umræðugrunvöllur, því enginn gagnrýnandi heldur sönsum ef hann er á eintali til langs tíma.

Mér sýnist endalok hennar jafnvel enn nær í dag en þegar ég skrifaði pistilinn fyrir nokkrum mánuðum síðan.

Ég held þó að besti kosturinn í dag, þ.e. ef Árvakur jafnar sig, væri að birta alla gagnrýni á sama degi í einhverskonar menningarblaði um helgi eins og Lesbók. Að undanskilinni gagnrýni á tónleika og leikhúsfrumsýningar sem hefð er fyrir að birta daginn eftir.

Þannig gæti myndlist, tónlist, bókmenntir o.fl. fengið sinn fasta sess.

Ransu, 2.11.2008 kl. 17:22

3 identicon

Morgunblaðið hefur á örskömmum tíma breytzt í popptímarit landsmanna. Það má vart á milli sjá hvort meira er fjallað um popp og fræga fólkið í Mbl eða í Séð og Heyrt. M.a.s. Grapewine er efnismeira. Afleiðingin er sú að enginn heilvita maður nennir að vera áskrifandi - Sérstaða blaðsins er horfin út í veður og vind

Sveinn (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 18:01

4 identicon

ja ég tel það vera mikilvægt að þarna fari menn sem sýnt fram á sterka innsýn og þekkingu á því sviði sem þeir fjalla um. Það er mjög skrýtið sem dæmi að lesa gagnrýni um nýjustu plötu Ry Cooder t.d. og ekki er minnst á gítarleik.

En sem komið er veit ég ekki hvort maðurinn er hættur að spila á gítar, né hvort þetta var kannski diskur með sekkjapípuetíðum eftir slidegítarmeistarann Ry Cooder. Er samt engu nær-:).

Fjallað var jú á metnaðarfullan hátt um bókmenntafræðileg tengsl textanna á plötunni við ameríska samtíðarsögu minnir mig, en ráðgátan var fyrir mér eftir sem áður algjör.

En nú þegar að sami maðurinn mun fara með eignarhald á öllu heila klabbinu, þá verður svo sem jafn erfitt og áður að fá tónlistargagnrýni sem er mark takandi á. Undanfarin ár hefur sami aðilinn búið til hljómsveit, gefið hana út, spilað hana á útvarpsstöðvunum sínum og veitt henni 5 stjörnu gagnrýni.

Ef að fer sem horfir í þeirri óskiljanlegu atburðarrás sem virðist vera að eiga sér stað, þá verður staðan breytt varðandi hlutfall eignarhalds þessara miðla.

sandkassi (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 20:18

5 identicon

átti að vera;

þá verður staðan lítið breytt varðandi hlutfall eignarhalds þessara miðla.

sandkassi (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 20:19

6 identicon

Mogga gagnrýnin um myndlist hefur verið eina reglulega umræðan um myndlist í fjölmiðlum og finnst mér afa sorglegt hversu smá hún er orðin. Ég hef einmitt verið að taka eftir því á seinustu vikum hversu sjaldan það er gagnrýni og áttað mig um leið á hversu þyrst ég er að lesa eitthvað um myndlist (annað en plögg). Ég var farin að hallast að því að það væri samdráttur í sýningum en það er nú að öllum líkindum ekki. Ég er óssammála þessarri stefnu hjá mogganum, fyrst að minnka sjálfar greinarnar þannig að flestar voru ekki nærri jafn ítarlegar og áður og nú að fækka þeim. Ég get ekki talað um hina prentmiðlana þar sem þeir taka engan þátt í myndlistarumræðu. Ömurlegt.

Jóhanna H. Þorkelsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 10:10

7 Smámynd: Ransu

Jóhanna: Bragi Ásgeirsson sagði einu sinni á fundi þegar við vorum að fara yfir sýningaropnanir að þegar hann byrjaði að skrifa í Moggann þá hafi jafn margar sýningar opnað á ári og þessa einu helgi.

Man ekki alveg hversu margar opnanir voru þessa helgina, en talan 8 er ekki ósennileg. Þetta var fyrir 4 árum og sýningarstöðum hefur fjölgað enn síðan.

Það er ekki hægt að viðhalda sömu ritstjórnarstefnu og var. Þ.e. að gera skil á öllu eða flestu. Það er kominn tími til að velja og hafna.

Ransu, 3.11.2008 kl. 13:30

8 identicon

Já ég er kannski orðin svo góðu vön en ég nýt þess líka að lesa gagnrýni á minni sýningum með lítt þekktum listamönnum. En það er svo sem skiljanlegt þegar framboðið er orðið svo mikið að það þurfi að velja og hafna. En ég sé samt að leikhúsgagnrýnin fær þó nokkuð meira pláss og það virðist ekkert verið að minnka við hana í mogganum né öðrum dagblöðum. Það er í raun draumastaða, sama sýningin fær gagnrýni frá 2-3 mismunandi blöðum.

Jóhanna H. Þorkelsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 14:02

9 Smámynd: Ransu

Reyndar eru það kvikmyndirnar sem eru í draumastöðu og jafnvel í kreppuniðurskurði sýnist mér kvikmyndagagnrýnin halda dampi.

En þá má ekki gleyma að kvikmyndir eru vinsælar hjá öllum aldursflokkum.

Ransu, 3.11.2008 kl. 14:06

10 identicon

engin gagnrýni er þá líka gagnrýni.. segir þú..hver og hvernig á að ákveða hvað er þess virði að skrifað sé um það úr því að kreppustefnan er að minnka í stað þess að auka umfjöllun um listir ef ég skil þetta rétt..mér sýnist þetta þýða  að söfnin fái umfjöllun en grasrótin ekki eða hvað...að eina dagblað landsins sé að þynnast  í  poppblaði er dapurlegt

Anna Jóelsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 18:25

11 Smámynd: Ransu

Ég tek það fram að þetta eru vangaveltur en ekki yfirlýst stefna Morgunblaðsins.

Hins vegar er ljóst að breytingar verða og það liggur fyrir að dómum fækkar sem þýðir að það verður valið og hafnað. Og þá eru það auðvitað gagnrýnendur sem velja og hafna.

Formið eða lengd greina hef ég ekki hugmynd um, en vona að það verði bara búið til eitt blað fyrir gagnrýni á föstudögum eða laugardögum.

Þetta ættir þúað kannast við í NYC, Anna.  Og þar fá kannski 5% af sýningum umfjöllun í helstu tímaritunum.  Langflestar sýningar fá hvergi skrif.

 Ég efast svo um að grasrótin verði undanskilin hér eins og í NYC.  Enda er grasrótin svosem að sýna í sýna í söfnunum á íslandi.  Jóna Hlíf var t.d. að sýna í Grasrót 2008 og D-sal í Hafnarhúsinu á sama tíma um daginn.

Ransu, 3.11.2008 kl. 21:32

12 identicon

...ég hugsa nú að þetta sé miklu viðkvæmara mál í litlu kunningja samfélagi  en t.d í NY og kríteríurnar fyrir vali þess sem kemst á prent verða sífellt umdeildar ef ég þekki landa mína rétt!!

hlýtur að vera mikivægt að hafa góða breidd í hópi þeirra sem  skrifa og hafa þá nógu marga.. 

en ég sný ekki aftur með það að það er mikil eftirsjá í því lýðræði sem fólst í þvi að fjalla um flestar sýningar..

eru þetta sem sé peningar sem ráða því að dómum fækkar..dómurinn of dýr?

gleymum aldrei að studnum er dýrt að spara..

Anna Jóelsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 22:45

13 Smámynd: Ransu

Máski rekur kreppan þetta í þann farveg. En þetta hefur verið lengi í umræðunni. Of margar sýningar í gangi fyrir eitt blað. Plássleysi gerir það að verkum að dómar biða dögum saman og birtast oft undir það síðasta.

Tilraun með að stytta dóma var m.a. til að koma þeim fyrir.

Ég geri nú ekki ráð fyrir að gagnrýnendum fjölgi þegar dómum fækkar.

Ég undirstrika svo það sem ég hef oft sagt áður; Morgunblaðið getur ekki borið ábyrgð á skrásetningu íslenskrar myndlistar. Við höfum fullt af öðrum blöðum, tímaritum, sjónvarpstöðvum, ljósvakamiðlum og jafnvel nettímaritum sem láta myndlistargagnrýni ekki skipta sig nokkru máli.

Því gera engir kröfur til þeirra um að koma til móts við gagnrýnisþörfina?

Það er hreint út sagt fráleitt að eitt dagblað sjái um alla myndlistargagnrýni á Íslandi.  Og þá meina ég alla eins og allar sýningar.

Ransu, 4.11.2008 kl. 00:32

14 identicon

nei, það þarf eins og þú sagðir áðan fleiri miðla sem gagnrýna. Það er eiginlega ómögulegt að einn miðill eigi að blessa eða fella hvort sem það eru myndlistasýningar eða konsertar. Það er vond staða fyrir alla, bæði blaðið,lesendur og listamennina

sandkassi (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 01:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband