2.2.2009 | 12:47
Aðeins um klisjuna
Ég skrifaði gagnrýni sem birtist í Mogganum í dag um sýningu Ásmundar Ásmundssonar, Hola, í Hafnarhúsinu, undir yfirskriftinni "Klisjan í steypunni".
Mig langar því aðeins til að útskýra klisju þar sem ekki gafst pláss til þess og ástæðulaust að greina klisjuna frekar í þeirri grein að öðru leyti en "listamaðurinn sýður saman gjörninginn, objektið og rýmið eftir hárréttri uppskrift".
Ég hlusta nær alltaf á X-ið þegar ég ek bíl. Þar eiga útvarpsmenn til að gera grín að klisjukenndri músík sem er spiluð á FM, s.s. Britney Spears eða eitthvað þessháttar dillipopp sem gert er eftir uppskrift.
Mér þykir þá jafnan kómískt þegar útvarpsmenn X-ins hafa "dissað" dillipoppið sem klisju og láta svo eitthvað rokk í tækið sem er í sjálfu sér nákvæmlega sama klisjan, bara rokkklisja. Ég er svo þannig gerður að mér líkar rokkklisjur betur en FM klisjur.
Klisjan er yfirgripsmikil í dægurlistum og tröllríður myndlistinni alveg eins og í tónlistar og -kvikmyndaiðnaði. Þ.e. spurningin um að gera það sem þú veist fyrirfram að virkar vegna þess að það hefur virkað hingað til.
Ég tek þó fram að Ásmundur notar klisjuna með öfgafullum hætti, máski eins og Weird Al Jankovich, Ali G. og einna helst Andy Kaufman, heitinn.
Myndin sem ég birti með færslunni er af Nick Nolte í kvikmyndinni New York stories sem var pínleg listamannaklisja.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:58 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.