Eitthvað annað

RKAllt í einu man ég eftir blogginu. Hef látið það sitja á hakanum vegna annara skrifa.

Það hefur verið gaman að lesa um Ragga Kjartans.  Ungur listamaður setti út á tilsvör hans í fjölmiðlum. Sennilega mundi Ragnar ekki skora hátt í BA ritgerð um verk sín með álíka ummælum og því eðlilegt að ungir listamenn, nýkomnir úr listaháskóla sem gerir kröfur til nemenda um að geta gert væn skil á tilgangi verka sinna með ritgerðarsmíðum að þeir vænti einhvers meira í tilsvörum stórstjarna þegar þær eru spurðar út í verk sín.  En þetta einlægna popp-tungumál er samt eitt af atriðunum sem einkenna Ragnar, og gera hann að því sem hann er í listinni. 

Ég var alveg ósammála Christian Schoen hjá KÍM þegar hann svaraði greininni þannig að það ætti að horfa á list Ragnars sem líkingarmál en ekki raunveruleika.

Jacques Derrida sagði að listin væri í rammanum sem afmarkar listaverkið, sem er þá listamaðurinn sem gerir listaverkið, staða hans á listmarkaðinum,  í listheiminum, gallerí og þar fram eftir götunum. List Ragnars snýr að þessum þáttum listaverksins og er um raunveruleikann ekki líkingarmálið.

steinunnÞað hefur líka verið gaman að lesa um bókun á BÍL fundi og andsvör og yfirlýsingar vegna þess að Steinunn Sigurðardóttir hafi verið valin borgarlistamaður. Og spurning kviknar: Er fatahönnuður listamaður?  Fatagerðarlist?

Ég var með erindi á málþingi í Listasafni Reykjavíkur um vatnsliti í 100 ára listasögu Íslands. Það kom í minn hlut að fjalla um birtingu vatnslitarins í samtímalistum.  Þið sem mættuð ekki (það mættu um 60 manns) misstuð af miklu. Ekki bara kaffi og kleinum heldur líka frábærum gjörningi Halldórs Ásgeirssonar og eðal erindum frá Hrafnhildi Schram og Aðalsteini Ingólfssyni.

 Ég fjallaði um það hvernig vatnslitamyndir vilja ekki vera afmarkaðar sem myndir og leita þessvegna eftir því að vera utan við myndina (vissulega einhver Derrida tengsl þarna, en líka Danto, Belting og Kuspit) . Ég tengdi það staðreyndinni að samtímalist vilji ekki vera afmörkuð, ekki einu sinni sem list, og þessvegna leitar hún í að vera eitthvað annað, s.s. raunveruleiki, afþreying, kannski líka fatahönnun? Því ekki?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Velkomin í hús aftur. Hef saknað pistanna. Þetta eru notaleg tengsl við heimahagann fyrir útlaga. Hefði viljað hlusta á vatnslitaumfjöllunina. Eru þessir atburðir teknir upp.

Anna Jóelsdóttir (IP-tala skráð) 2.7.2009 kl. 11:40

2 identicon

Sæll og velkominn aftur. Gott þú gefir þér tíma til bloggs með öðru föndri.

Það er dálítið skemmtilegt hvernig þú persónugerir myndlist, þ.e. að listin vilji ekki þetta eða hitt líkt og um sjálfstæðan vilja sé að ræða hjá þessu "fyrirbæri".

Þetta er vitaskuld kunnugleg nálgun en ýtir undir það viðhorf að listin sé óháð vilja listamanna til að "sprengja ramma" heldur lúti eigin lögmálum. Það dregur úr vægi listamannsins sem frumkrafts og veldur því að allir aðilar sem koma að listheiminum verða jafnt metnir innan þessa geira. Fræðingar, sýningastjórar, safnarar og listamenn. Í yndislegu faðmlagi útvatnaðs jafnaðar.Allt verði okkur öllum að list!

Ég er einmitt hvað hrifnastur af því hvernig Ragnar dregur fram "rómantíska" mynd af listamanninum. Ekki er sett fram spurningin hvað hann gerir eða afhverju heldur AÐ hann geri. Að það er hann sem sinnir frumforsendu þess að til verði list. En nóg um það. Nú eru uppi umræður um hönnun og list. Er ekki kjarni málsins að frelsi þess sem skapar endar þar sem þarfir kúnnans byrja? Og eru þarfir listnjótenda þannig að þær hafi áhrif á gerð verks? Held varla. En þarfir þess sem kaupir hönnun eru mun veigameiri. Húsið þarf dyr og buxurnar skálmar... Stóllinn þarf að bera mann. Vissulega er gráa svæðið víðfeðmt en 100% frelsi listamannsins hlýtur að skilja milli feigs og ófeigs. Listar og hönnunar.

Annars eru nýjustu fréttir þær að formaður SÍM hefur sagt af sér því hún dirfðist að rugga bátnum. En þar eru bátsverjar sem telja skilin milli "sjónlista" vera að hverfa "sem betur fer".

Jóhann Ludwig Torfason (IP-tala skráð) 2.7.2009 kl. 14:14

3 identicon

Gaman að þú sért byrjaður að blogga aftur, hef mjög gaman af að lesa pælingar þínar. Valið á borgarlistamanni er alveg örugglega á gráu svæði en ég hallast meira að því að vera sammála Áslaugu.

Jóhanna H. Þorkelsdóttir (IP-tala skráð) 2.7.2009 kl. 18:31

4 identicon

þetta er gott, hus þarf dyr, buxur skalmar, stoll þarf að bera mann...og kúkur þarf rass...listamannarass!

sigurður örn brynjolfsson (IP-tala skráð) 2.7.2009 kl. 21:09

5 Smámynd: Ransu

Takk fyrir að segja hæ og meira.

Anna: Gjörningurinn var tekinn upp á videó og fyrirlestrar á band.

Jói: Ég fékk einmitt yfirlýsingu Áslaugar og blogga um málið.  Ástandið sem þú lýsir, þessi útvatnaði jöfnuður, er auðvitað orðin reynd. Kannski er það þessvegna sem listin er að kanna nýja möguleika.  Ég man þegar Henk Jan heimsótti okkur Gullpensla til að tala um liti (indigo), þú varst þar líka, minnir mig.  Henk persónugerði indigo og hann talaði líka um að listamaðurinn ætti að láta af eigin vilja gagnvart litnum og spyrja litinn hvernig hann vilji vera túlkaður. 

Jóhanna: Ég hallast líka að því að Áslaug sé réttu megin við listina.

Ransu, 2.7.2009 kl. 22:01

6 identicon

Ert þetta þú Söbbi? Hvaða kúkatal er þetta? Kúkur kemur úr hverjum rassi en þetta er listamannskúkur:

http://www.tate.org.uk/modern/tours/materialslibrary/artwork15.shtm

En Ransu, ég man eftir þessu. En dettur í hug dásamlegir frasar listamanna sem Þorvaldur Þorsteins safnaði einhverntíma.: Man engan þeirra en þeir voru margir hverjir um taumlaust meðvitundarleysi listamanns við listsköpun sbr. "fjallið málar sig í gegnum mig" osfr.

Jóhann Ludwig Torfason (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 12:47

7 Smámynd: Ransu

Ég man alltaf eftir einum frasanum, Jói..."ég vinn með riðgað járn af því að það er svo lífrænt".

Ransu, 3.7.2009 kl. 17:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband