Formaður SÍM segir af sér vegna þess að hönnun er ekki list

Áslaug Thorlacius, formaður SÍM (Samband íslenskra myndlistarmanna) hefur sent félagsmönnum SÍM eftirfarandi yfirlýsingu:

_________________________________________________________

aslaug Kæru félagsmenn

Ég hef ákveðið að segja af mér sem formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna. Að höfðu samráði við Katrínu Elvarsdóttur varaformann mun ég að öllu óbreyttu sinna starfinu til 1. október. Tíminn á hinsvegar eftir að leiða í ljós hvort boðað verður til aukaaðalfundar eða hvort hún tekur við.
Afsögn mín er í beinu framhaldi af þeim gífuryrðum sem birst hafa í fjölmiðlum að undanförnu, undirrituð af samherjum, jafnvel stjórnarmanni í SÍM. Að öðru leyti hefur stjórn SÍM verið þögul um málið og það get ég ekki túlkað sem öfugan stuðning við minn málflutning. Því tel ég einsýnt að tímabært sé að skipta um formann í félaginu.

Í viðhengi er grein sem bíður birtingar í Morgunblaðinu en þar skýri ég afstöðu mína í fáeinum orðum. Einnig vísa ég til pistils í fréttabréfi SÍM sem barst ykkur í tölvupósti í lok síðustu viku.

Ég óska félagsmönnum alls hins besta og vona að Samband íslenskra myndlistarmanna haldi áfram að eflast og styrkjast um ókomna framtíð.

Áslaug Thorlacius
______________________________________________________

Formaðurinn hefur semsagt sagt af sér vegna mótbáru sem skall á henni þegar hún mótmælti því að Steinunn Sigurðardóttir, fatahönnuður, hafi hlotið heiðursnafnbótina Borgarlistamaður ársins 2009.

Áskorunarlisti gengur á milli myndlistarmanna til að hvetja Áslaugu til að draga afsögnina til baka.  

Ég sá líka að Kristján Steingrímur deildarstjóri myndlistardeildar hafi sent henni opinbera afsökunarbeiðni en hann var á umdeildum lista manna og kvenna sem lýstu vanþóknun á bókun Áslaugar og Ágústs (formanns BÍL). Fleiri forsvarsmenn listaháskólans voru á listanum. Kristján var reyndar ekki að biðjast afsökunar á því að segja tískuhönnun vera list heldur snérist afsökunarbeiðnin um orð sem voru látin falla í garð Áslaugar og Ágústs í yfirlýsingunni.

nonniMyndlistarmenn hafa aldrei verið duglegir að taka opinbera afstöðu og láta í sér heyra um málefni sem varðar list og mig grunar að fleiri séu á bandi Áslaugar en andsnúnir hvað varðar um spurninguna hvort hönnun sé list.

Þeir sem eru því ósammála (og þeir sem eru því sammála) ættu að lesa þessa grein Ásmundar Ásmundssonar í Viðskiptablaðinu.

Þetta er vissulega snúið en samt augljóst.  Ef Jón Sæmundur prentar hauskúpur á boli að þá er það list, líka ef Hrafnhildur Arnardóttir greiðir hári.  Þetta er leikur að hönnun sem list en út frá forsendum myndlistar en ekki hönnunar.  Rétt eins og þegar Curver Thoroddsen borðar hamborgara eða fer í megrun þá er það list.

Merkilegt að forsvarsmenn Listaháskóla Íslands viti þetta ekki...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Takk fyrir að þú skyldir vekja athygli á þessu. Bæði yfirlýsingin í Fréttablaðinu fór fram hjá mér og greinin hans Ásmundar. (Ef hann les bloggið þitt líka þá ætla ég að minna hann á að hann var búinn að lofa að senda mér greinarnar sínar!) Það er nú full ástæða til að ræða þetta frekar. Og að Áslaug segi af sér formennsku vegna þess að hún hefur ákveðna skoðun á einhverju máli finnst mér alveg út í hött.

María Kristjánsdóttir, 3.7.2009 kl. 00:50

2 Smámynd: Ransu

Sveinn:  Slíkur gjörningur gæti vel haft merkingu sem list, eða ekki.

Skyrslettur Helga voru gjörningur en ekki sem list, eða honum hefur allavega ekki verið gefin merking sem list þótt auðvelt væri að setja hann í listsögulegt samhengi, s.s. við slettumálverk (Það þarf samt ekki endilega listsögulegt samhengi til þess að gjörningur sé list).

Við spurningunni -hvað er list?- er ekki hægt að gefa endanlegt svar þar sem að myndlistarhugtakið er lýsandi gildishugtak.  Þetta er opið hugtak eins og fræðingur að nafni Markus Weitz hefur skrifað um ágæta kenningu, en ekki endanlega kenningu.

Ég leyfi mér samt að segja að list eru allir möguleikar formsins til að vera eitthvað annað en formið sjálft, sem merkir að listin er  utan við hlutinn eða myndina sem við horfum á og þar metum við hvort, hlutur, mynd eða gjörningur geti verið merkingabær sem list.

María: Mótbáran og lítill opinber stuðningur hefur einfaldlega minnt Áslaugu á að hún væri búin að fá nóg. Hún segir það í raun í í Mogganum í dag.  Ég hef fullan skilning á afsögn hennar. Sjö ár er langur tími í sjálfboðavinnu.

Ransu, 3.7.2009 kl. 11:57

3 identicon

Gott að hitta þig hér. Ég var búinn að glata miðanum með emailnum þínum. Hér er linkur á greinarnar (og fyrir þig líka Ransu):

http://this.is/ausgot/greinar 

Ásmundur Ásmundsson (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 12:10

4 identicon

Ef að verkin eru illa gerð, ljót, óseljanleg, óskiljanleg og það þarfnast túlkunnar, þá eru þið örugglega að horfa á listaverk, ef að verk er vel gert, fallegt, seljanlegt og skiljanlegt og þarfnast ekki listfræðings til túlkunnar þá er það örugglega ekki listaverk, þess vegna er samtímamyndlist kjörlendi meðalmenskunnar.

Hæfileika fólkið fór að gera kvikmyndir og í hönnun, fólk sem hefur raunverulega listræna köllun beinir yfirleitt orku sinni þar sem það er frjálst að nota sína hæfileika (ekki í myndlist).

Þess vegna teldist Rassi prump meiri listamaður en Da Vinci samkvæmt mælikvörðum samtímans( Da Vinci var jú hönnuður og málverkin falleg, skiljanleg og aðlaðandi söluvara).

judas (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 16:27

5 Smámynd: Ransu

Kæri Júdas. Ef einhver listamaður frá endurreisnartímanum á sök á hvernig komið er fyrir listinni að þá er það da Vinci.

Lengi vel var Rafael sá listamaður endurreisnarinnar sem menn dáðu vegna tærleika hans -"Sá guðdómlegi" var hann kallaður.  da Vinci var hins vegar hinn mikli hugsuður og þegar listin fór að hafna fagurfræðilegu inntaki og hallast til hins hugmyndalega var Rafael úti og Leonardo inni.

da Vinci var verkfræðingur og vopnaframleiðandi sem kunni líka að mála.

Ransu, 3.7.2009 kl. 17:48

6 Smámynd: Ransu

Takk fyrir linkinn Ási.

Ransu, 3.7.2009 kl. 17:49

7 Smámynd: Ransu

Hvort er sveppur kjöt eða grænmeti?

Ransu, 3.7.2009 kl. 19:41

8 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Fyrst vil ég taka fram að mér finnst leiðinlegt að Áslaug skuli ekki hafa fengið þann stuðning sem hún vænti.

En varðandi hönnun og list eru skilin væntanlega oft óljós. Einhver hefur hannað pissuskálina sem Duchamp gerði svo fræga.

Listamenn leggja hönnuðum ýmislegt til og hönnuðir listamönnum.  Með góðri menntun listamanna og hönnuða hefur fólk brugðið sér í bæði hlutverkin. 

Hólmfríður Pétursdóttir, 3.7.2009 kl. 20:00

9 identicon

Sæll Ransu,

Ég neyðist til að leiðrétta þig, Da Vinci hannaði vopn en var ekki vopnaframleiðandi, það er alveg öruggt að hann var hönnuður.

Da Vinci á enga "sök" á samtímalist, verk hans byggjast jú á þekkingu og kunnáttu, Þú verður að líta til þýskrar heimspeki nær okkur í tíma til að finna sökudólga.

kv.

judas (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 22:10

10 Smámynd: Ransu

Ahhh. rétt Júdas hann hannaði vopn, minn feill að láta framleiðanda þarna fyrir aftan. Sá það reyndar eftir að ýta á send, en nennti ekki að leiðrétta.

En auðvitað á enginn sök á samtímalist nema samtímalistamenn. Engu að síður tók Da Vinci við keflinu af Rafael vegna þess að hann var vísindamaður sem gerði list. Það var reyndar móderníska viðhorfið. Samtímalistin hafnar listasögunni hvort sem það er da Vinci eða Rafael.

Þýskir heimspekingar...sökudólgar...mig er farið að gruna að þú sért Nerdrum maður, Júdas minn.

Ransu, 3.7.2009 kl. 23:17

11 identicon

Þig grunar..þýðir það að myndlistarlögreglan er komin í málið? Þetta stendur allt saman í bók sem heitir The invention of Art eftir Larry Shiner góð bók fyrir þá sem vilja skilja afhverju samtímalist er eins og hún er, kanski Nerdrum hafi lesið hana líka, hver veit, ekki ég.

kv

judas (IP-tala skráð) 4.7.2009 kl. 00:06

12 identicon

Það er hressandi að þessi umræða sé í gangi. Ég er sammála Hólmfríði hér að ofan að fólk geti brugðið sér í bæði hlutverkin og skil á milli hönnunar og myndlistar geti auðveldlega skarast. Það sem mér finnst samt sérstakt við að Steinunn hljóti þennan titil, er það að ég veit ekki til þess að Steinunn sjálf haldi því fram að hún sé að vinna að list.

Hermann Karlsson (IP-tala skráð) 4.7.2009 kl. 17:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband