Þorbjörg Pálsdóttir

þorbjörg_sorg_1984Þorbjörg Pálsdóttir, myndhöggvari, er látin, 90 ára gömul.

Þorbjörg var ein af þessum listamönnum sem notið hefur mikillar virðingar á meðal kollega eða innvígðra, eins og það er oft kallað, en lítið kynnt af söfnum, sem er í sjálfu sér stórfurðulegt!  

Síðasta safnasýning sem skartaði verkum Þorbjargar, að ég best veit, var samsýning hennar og Ása Ásmundssonar á gangi Kjarvalsstaða árið 2002. Þar var m.a. verkið Sorg (sjá mynd t.v.) frá árinu 1984. Sú sýning var á vegum Myndhöggvarafélagsins en ekki útvalin af safninu, en Þorbjörg var einn af stofnendum félagsins.  Einnig spiluðu verk hennar mikilvægt hlutverk á sýningunni Tívolí, sem Markús Þór Antonsson og Þuríður Sigurðardóttir settu saman í Listasafni Árnesinga árið 2005.

Máski hafa safnamenn átt í erfiðleikum með að finna henni stað í listsögulegu stigveldi, en verk hennar eru vissulega einstök í íslenskum listheimi.  Öllu jafnan eru þetta fígúrur, tómar að innan, gerðar úr grisjum og gifsi, asbest eða pólýester, fremur óaðlaðandi en afar áleitnar og áhrifamiklar. 

þorbjörg dansFlestir sem leggja leið sína um Öskjuhlíð rekast á verk hennar, Dansleikur, við Perluna (sjá mynd t.v. með listakonunni taka sporið með fígúrunum).  Verkið var upphaflega sýnt á sögulegri sýningaröð á Skólavörðuholtinu en var síðan steypt í brons og sett upp á Öskjuhlíðinni til frambúðar.

Um verkið ritaði Hannes Lárusson eftirfarandi texta í grein í tilefni af níræðisafmæli listakonunnar í febrúar.

"Þarna eru þær þessar fjórar berskjölduðu fígúrur í yfirstærð, einungis tveir í hljómsveitinni og tveir í dansinum. Ekki er fullljóst hvort hér eru á ferðinni tröll, afturgöngur, geimverur, kolaðar múmíur frá Pompei norðursins eða gestir í Glaumbæ. Furðulegur hrunadans, nútímavikivaki, kunnuglegir taktar og örlagasprikl. Flestir líkamsskúlptúrar Þorbjargar eftir 1967 fanga þessi augnablik sem allir þekkja en verða vart endurtekin eða sviðsett, augnablikin sem birta óræðan lífsneistann. Þessir myndglampar renna óstöðvandi framhjá, nást aldrei á filmu, eru með öllu óvéltækir, í rauninni ósýnilegir. Þeir ná að stöðvast og eignast annað líf í einstaka listaverkum".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Saell.  Hefur thú eitthvad á móti thví ad svara spurningu um PopOp verkin thín?

AVART (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 16:32

2 Smámynd: Ransu

Nei, AVART, ég hef ekkert á móti því að svara spurningu, en máski væri viðeigandi ef þú ert með spurningu að bera hana fram hér í færslunni þar sem ég nefni PopOp verkin.

Ransu, 13.11.2009 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband