Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
2.7.2009 | 21:38
Formaður SÍM segir af sér vegna þess að hönnun er ekki list
Áslaug Thorlacius, formaður SÍM (Samband íslenskra myndlistarmanna) hefur sent félagsmönnum SÍM eftirfarandi yfirlýsingu:
_________________________________________________________
Kæru félagsmenn
Ég hef ákveðið að segja af mér sem formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna. Að höfðu samráði við Katrínu Elvarsdóttur varaformann mun ég að öllu óbreyttu sinna starfinu til 1. október. Tíminn á hinsvegar eftir að leiða í ljós hvort boðað verður til aukaaðalfundar eða hvort hún tekur við.
Afsögn mín er í beinu framhaldi af þeim gífuryrðum sem birst hafa í fjölmiðlum að undanförnu, undirrituð af samherjum, jafnvel stjórnarmanni í SÍM. Að öðru leyti hefur stjórn SÍM verið þögul um málið og það get ég ekki túlkað sem öfugan stuðning við minn málflutning. Því tel ég einsýnt að tímabært sé að skipta um formann í félaginu.
Í viðhengi er grein sem bíður birtingar í Morgunblaðinu en þar skýri ég afstöðu mína í fáeinum orðum. Einnig vísa ég til pistils í fréttabréfi SÍM sem barst ykkur í tölvupósti í lok síðustu viku.
Ég óska félagsmönnum alls hins besta og vona að Samband íslenskra myndlistarmanna haldi áfram að eflast og styrkjast um ókomna framtíð.
Áslaug Thorlacius
______________________________________________________
Formaðurinn hefur semsagt sagt af sér vegna mótbáru sem skall á henni þegar hún mótmælti því að Steinunn Sigurðardóttir, fatahönnuður, hafi hlotið heiðursnafnbótina Borgarlistamaður ársins 2009.
Áskorunarlisti gengur á milli myndlistarmanna til að hvetja Áslaugu til að draga afsögnina til baka.
Ég sá líka að Kristján Steingrímur deildarstjóri myndlistardeildar hafi sent henni opinbera afsökunarbeiðni en hann var á umdeildum lista manna og kvenna sem lýstu vanþóknun á bókun Áslaugar og Ágústs (formanns BÍL). Fleiri forsvarsmenn listaháskólans voru á listanum. Kristján var reyndar ekki að biðjast afsökunar á því að segja tískuhönnun vera list heldur snérist afsökunarbeiðnin um orð sem voru látin falla í garð Áslaugar og Ágústs í yfirlýsingunni.
Myndlistarmenn hafa aldrei verið duglegir að taka opinbera afstöðu og láta í sér heyra um málefni sem varðar list og mig grunar að fleiri séu á bandi Áslaugar en andsnúnir hvað varðar um spurninguna hvort hönnun sé list.
Þeir sem eru því ósammála (og þeir sem eru því sammála) ættu að lesa þessa grein Ásmundar Ásmundssonar í Viðskiptablaðinu.
Þetta er vissulega snúið en samt augljóst. Ef Jón Sæmundur prentar hauskúpur á boli að þá er það list, líka ef Hrafnhildur Arnardóttir greiðir hári. Þetta er leikur að hönnun sem list en út frá forsendum myndlistar en ekki hönnunar. Rétt eins og þegar Curver Thoroddsen borðar hamborgara eða fer í megrun þá er það list.
Merkilegt að forsvarsmenn Listaháskóla Íslands viti þetta ekki...
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.7.2009 kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
11.3.2009 | 16:45
Kjánaleg hugmynd
Áskorun Kjartans Ólafssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að bankarnir selji um 4000 listaverk úr safni sínu er hreint út sagt kjánaleg.
Kjartan virðist álíta að huglægt verðmat listaverkanna upp að átta milljarða króna standist þegar þeim yrði öllum hrint út á markaðinn.
Þetta yrði eins og með bílaflotann hjá Glitni sem fór á einn fjórða af áætluðu verði. Nema að listaverkaflóð frá bönkunum mundi að auki stórskaða fyrirtæki eins og Fold, Borg, Stafn, Turpentine og mörg fleiri. Og sennilega valda gjaldþroti einhverja slíkra fyrirtækja sem nú berjast í bökkum
Það breytir engu þótt verkin yrðu seld með reglulegu millibili, eins og Kjartan leggur til. Myndlistarmarkaðurinn er í lamasessi eftir efnahagshrunið og 4000 listaverk í rýmingarsölu mundu skemma hann endanlega.
Auk þess er það framandleg firra að halda að til séu kaupendur fyrir þessi 4000 listaverk á einu bretti, nema þá kannski að menn fái tíu fyrir tvö.
Listaverk föllnu bankanna verði seld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.3.2009 | 13:50
Virkjum listina!
Mörður Árnason ritaði grein í Moggann í dag sem bar yfirskriftina Sköpun í kreppu. En hann vill nýta starfskrafta listamanna í auknum mæli. Hann segir m.a.
"Ég tel að ein af viðbrögðum okkar í kreppunni eigi að vera að blása til sóknar í sköpunargreinunum og fjölga störfum í listum og menningu. Starfslaun listamanna hafa ekkert hreyfst frá árinu 1996 í þrettán ár, og eru ennþá 100 árslaun alls. Nú skulum við tvöfalda þessi laun næstu fimm árin. Það er eitthvert ódýrasta framlag til atvinnu- og verðmætasköpunar sem veitt verður af opinberu fé og nemur til dæmis aðeins brotabroti af þeirri ívilnun sem til stendur að veita væntanlegu álveri í Helguvík
Þessi ráðstöfun mundi losa hundrað önnur störf, fækka þar með atvinnulausum og draga úr bótagreiðslum. Og sköpunarstörfin búa til aðra atvinnu. Rithöfundar eru fyrsti hlekkurinn í keðju sem liggur um bókaforlög, prentsmiðjur, hönnunarstofur, fjölmiðla, verslanir, skóla og bókasöfn. Þeir afla tekna erlendis og skapa Íslendingum sannari og haldbetri ímynd en útrásarvitleysur og opinbert glys. Hönnun, kvikmyndir, sjónlistir."
Sem vaktmaður myndlistarinnar að þá mundi ég bæta við að framleiðsla á myndlistarverki eða hvers kyns listmunum kann að snerta ýmiskonar innflutning á efni og aðkeypta vinnu s.s. hjá trésmíðaverkstæði, blikksmiðju, skiltagerð o.fl. og leiðir svo til þess að rekstur á galleríum eða hverskyns listmunaverslunum sé raunhæfur.
Mörður heldur svo áfram;
"Vel má svo ímynda sér (takk, Guðrún Vera) að hluta þessara nýju starfa við listsköpun og menningariðju mætti skilyrða því að listamennirnir verðu hluta tíma síns til að vinna með atvinnulausu fólki og skólanemum. Við skulum virkja þá hæfileika sem í okkur búa. Missa ekki besta fólkið úr landi. Sköpun gegn kreppu."
Þessi umræða hefur einmitt verið inn á heimili mínu, en þakkir Marðar í sviganum beinast þarna til eiginkonu minnar, en hún er eldheit í þeirri skoðun að virkja eigi listamenn þegar ástandið er eins og raun ber vitni og hreinlega ráða þá til starfa. Annað er sóun á kröftum.
Listamenn sem þyggja laun hjá ríkinu, eins og starfslaun, eru nefnilega eins og sjálfseignarstofnun á framlögum frá ríkinu. Og stofnanir hafa vissum skyldum að gegna gagnvart samfélaginu.
Mér þykir sjálfsagt að ríkið leiti til þessara stofnana (ég tala hér um ríkislaunaðan listamann sem sjálfseignarstofnun) og, eins og Mörður leggur til, virki enn fleiri til starfa til að takast á við ástandið.
Þýski myndlistarmaðurinn Joseph Beyus (sem er á öllum myndunum) er einn helsti hugsjónarmaður myndlistar síðustu aldar, en hann taldi að samfélag gæti aldrei virkað lýðræðislega nema út frá skapandi hugsun og vildi þess vegna gera listir að drífandi afli samfélagsins, hóf þar af leiðandi að móta hugmyndir um samfélagslegan skúlptúr (social sculpture). Beuys sá listina sem heildrænt afl sem snerti alla þætti samfélagsins og sjálfur hafði hann afskipti af öllum fj...
Ég tek því undir með Merði, Guðrúnu Veru og Joseph Beuys; "Virkjum listina!"
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.3.2009 kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.3.2009 | 11:20
Óvenjulega venjulegar myndir frá Guantanamo
Sýning Christophers Sims á ljósmyndum frá Guantanamo flóa í CAP í Washington hefur vakið athygli, ekki vegna hræðilegra ímynda af pyntingum eða ómannúðlegri meðferð á föngum, heldur vegna hversdagslegs yfirborðs.
Myndin hér að ofan sýnir t.d. sólbaðssvalir sem minna helst á einhvern túristastað þar sem menn sóla sig og drekka hanastél eða svaladrykki. En þegar betur er gáð að þá speglast gaddavírsgirðing og ljóskastarar til kvöldeftirlits í rúðunum á klúbbhúsinu.
Nokkrar myndanna sýna svæði þar sem börn fangavarðanna hafa verið að leik eins og myndin hér að ofan t.v. og svo eru myndir af matsölustöðum á Gantanamo. Myndin að ofan t.h. er frá Café Guantanamo en jafnframt má finna McDonald´s skyndibitastað innan gaddavírsgirðingarinnar.
Þá má sjá myndir af útivistar og -afþreyingarsvæðum fangavarða s.s. útibíói og ekki vantar net til að sparka í og skora mörk í fótbolta.
Þótt Sims hafi fengið leyfi frá yfirvöldum til að ljósmynda fanga og verði eða hermenn að þá kaus hann að hafa myndirnar mannlausar þannig að ímyndin beinist ekki að appelsínugulu búningunum eða einkennisklæðnaði fangavarðanna, því að á bak við hversdagslegt umhverfið leynist líka óhugnaður.
Fjallað er um þessar myndir Sims í Washington Post
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.2.2009 | 22:32
Snorri ætlar sér alla leið
Nú þegar menn sjá tækifæri á að koma sér fyrir í endurnýjun flokkskerfisins (það þurfti mega efnahagskrass og búsáhaldarbyltingu til að einhver hreyfing yrði á framboðum) að þá ætlar Snorri Ásmundsson myndlistarmaður sér ekki neina hógværð í sætaskipan Sjálfstæðisflokksins, ekkert 2-3 sæti eins og sumir. Hann ætlar alla leið í valdið.
Snorri hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu (ég feitletraði eina málsgrein upp á eigin spýtur).
Kæru Sjálfstæðismenn
Þar sem ég hef ákveðið að gefa kost á mér í formannskjör Sjálfstæðisflokksins er rétt að skrifa nokkur orð til að hnykkja á nokkrum atriðum.
Sjálfstæðismenn hafa oft á tíðum fylgt leiðtoga sínum í blindni, um það þarf ekki að taka dæmi. Þessi foringjahollusta hefur á stundum verið flokknum og þjóðinni til trafala eins og nýlegir atburðir sanna. Ég tel að nú sé tími til að losa flokkinn við leifar gamalla tíma og leyfa nýjum og ferskum mönnum að njóta sín.
Það er mikill heiður að vera valinn fulltrúi á Landsfund Sjálfstæðisflokksins, en því fylgir einnig mikil ábyrgð. Ekki eingöngu hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn og framtíð hans, heldur einnig og ekki síður, hvað varðar framtíð Íslands. Það þarf að kjósa nýjan leiðtoga. Leiðtoga sem getur leitt flokkinn og þjóðina í gegnum þessar efnahagsþrengingar sem við nú stöndum frammi fyrir. Ég held að ég sé tilvalinn í það mikilvæga hlutverk og stuðningsyfirlýsingar flokkssystkina minna um land allt hafa eflt mig í þeirri trú.
Einhverjir kunna að halda að hér sé um fíflagang að ræða því andstæðingar mínir hafa oft borið það upp á mig að ég sé einhverskonar grínisti eða að mín pólitísku afskipti séu listgjörningur. Þá spyr ég á móti: Hvað er gjörningur? Og má ekki segja að aðgerðir og stefna ríkisstjórnar Geirs H. Haarde hafi verið eitt allsherjar gjörningagrín? Það væri þá nær að hafa gjörningameistara við stjórnvölinn, ekki satt?
Fordómar verða til í ótta og einhverjir kunna jú að hafa ærna ástæðu til að óttast framgöngu mína og þá gjörninga sem ég hyggst fremja sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Ég t.d. líð ekki að ógeðfelldir, gráðugir drullusokkar hafi eitthvað með hagsmuni þjóðarinnar að gera. Þeir hinir sömu kunna að óttast að ég sigri í formannskjörinu og losi flokkinn undan oki spillingarinnar.
Kæru fulltrúar á flokksþingi, losið okkur úr viðjum óttans og takið fagnandi á móti nýjum og breyttum tímum með bjartsýnan og kjarkmikinn leiðtoga með gráblá augu sem kallar ekki allt ömmu sína.
Snorri Ásmundsson
Ármann vill 2-3. sætið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.2.2009 | 13:18
Breskir ljósmyndarar mótmæla nýjum lögum um varnir gegn hryðjuverkum sem skerða frelsi þeirra og eru hrópandi vísir á misnotkun yfirvaldsins
Bretar herða enn lög í baráttu sinni gegn hryðjuverkum og skerpa um leið á stóra-bróður-samfélaginu.
Ný lög tóku gildi í Bretlandi á mánudaginn sem gefa lögreglu leyfi til að banna hverjum sem er að taka ljósmyndir. Hlýði viðkomandi ekki að þá má handtaka hann á staðnum og gera myndavélina upptæka.
Ljósmyndarar mótmæltu þessum lögum fyrir utan Scotland Yard í gær (sjá mynd)
Lögin eru sett til að geta hindrað hryðjuverkamenn í yfirlitskönnun. En eins og The Associated press hefur bent á að þá skerða þessi lög líka frelsi ljósmyndara og jafnframt má misnota þau því að lögreglan getur skýlt sér á bak við lögin og bannað myndatöku eða gert myndavélar upptækar t.d. í óeirðum þar sem lögregla kann að vera sek um óþarfa ofbeldi.
Menn þar úti hafa svosem áður misnotað lög um varnir gegn hryðjuverkum.
HÉR má lesa frétt um málið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.1.2009 | 14:18
Aumingja Ríkarður
Í tilefni þess að Frank Langella er tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir túlkun sína á Richard Nixon og að við búum við gerspillt stjórnmálaflokkakerfi langar mig til að rifja upp teikningar Philips Gustons af Richard Nixon sem listamaðurinn gerði snemma á áttunda áratugnum þegar Nixon var forseti BNA. Teikningarnar voru svo gefnar út í bók sem ég er svo sæll að hafa fest á kaup fyrir nokkrum árum.
Philip Guston var abstraktmálari sem sveik málstaðinn undir lok sjöunda áratugarins og fór að mála rammpólitískar fígúratífar myndir með skoplegu ívafi.
Þessar myndir listamanns sem var þekktur fyrir liti og formleysi fór fyrir brjóstið á mörgum og hann var útskúfaður (nema eitt gallerí hélt tryggð við hann) allt þangað til að fulltrúar nýja málverksins uppgötvuðu verk hans á ný. Þ.á.m. voru þessar frábæru teikningar af Richard Nixon.
Bókin sem gefin var út heitir "Poor Richard" og þess má geta að gælunafn Richards Nixons var "Dick" og túlkar Guston andlit þáverandi forseta Bandaríkjanna með þeim hætti.
Benjamin Button með flestar tilnefningar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.1.2009 kl. 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2009 | 14:48
Framtíð Sjálfstæðisflokksins.
Það liggur við að maður skrái sig í Sjálfstæðisflokkinn til þess eins að geta kosið Geir H. Haarde út úr myndinni á næsta landsfundi flokksins. Og ekki síður þar sem Snorri Ásmundsson, myndlistarmaður, hefur tilkynnt framboð sitt gegn Geir (Sjá Vísi.is).
Það yrði þá aldrei meiri skrípaleikur að hafa Snorra í forustu flokksins en verið hefur í tíð Geirs.
Lýsi yfir stuðningi mínum við þennan gjörning Snorra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.12.2008 | 13:10
Skilaboð utan úr geimnum
Sá The Day the Earth Stood Still í gær.
Fyndið að hafa róbótann þetta gamaldags útlítandi, svona til að fylgja hinni sígildu og samnefndu B-mynd frá 1951 (sjá mynd t.v.). En svo leystist hann bara upp í allt öðruvísi vopn en sá gamli.
Það var annars flott atriði þegar hann byrjaði á dómsdags upplausninni, vantaði bara rödd Arnolds Schwartzeneggers -"I am GORT, prepare to die", til að fullkomna atriðið.
GORT var óneitanlega ljósi punkturinn í myndinni. Og gott að vita að Bach virkar betur en basúkka á ógnandi geimverur.
Svo voru skilaboðin frá geimverunni Klaatu eitthvað svo þægilega skýr. -Burt með auðvaldið, spillinguna og græðgina, kjósið Vinstri græna annars tortímir GORT ykkur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.11.2008 | 16:40
Pottþétt Kreppa - Jólaplatan í ár
Fékk þennan lagalista sendan á væntanlegum safndisk í hinni geysivinsælu Pottþétt diskaröð. Diskurinn heitir Pottþétt kreppa" og verður á uppsprengdu verði þar sem útgáfan er samræmt átak Glitnis, Kaupþings og Landsbanka.
Sérstök útgáfa verður í 2008 eintökum sem verður fáanleg á verðtryggðum myntkörfulánum og er með aukalagi. Þ.e. Memorial Remix útgáfa af laginu Lóa litla á brú í flutningi þeirra Bubba Morthens og Geirs H. Haarde á í Austurbæ í fyrra.
Lagalisti:
1. Hjálpaðu mér upp - NýDönsk
2. It's a hard life - Queen
3. Can't walk away - Herbert Guðmundsson
4. The winner takes it all - ABBA
5. Er nauðsynlegt að skjóta þá - Bubbi Morthens
6. I need a miracle - Fragma
7. Á tjá og tundri - Sálin hans Jóns míns
8. Run to the hills - Iron Maiden
9. Hamingjan er krítarkort - GCD
10. I'm going down - Bruce Springsteen
11. Þau falla enn - Síðan skein sól
12. Ég vil fá að lifa lengur - Todmobile
13. The Thrill is gone - B.B. King
14. Sirkus Geira Smart - Spilverk þjóðanna
15. Highway to hell - AC/DC
16. Til hamingju Ísland - Silvía Nótt
17. Exodus - Bob Marley
18. A Poor mans roses - Patsy Cline
19. Vanskilablús - Megas
20. Hard Times - Bob Dylan
Aukalag. Lóa litla á brú (Memorial Remix) - Bubbi Morthens, feat. Geir H. Haarde
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)