Ómetanlegur Pollock

Pollock PaintingFyrir 549 milljónir króna kaupa menn goðsögn og það er ljóst að Jackson Pollock er hátt rísandi goðsögn enda fara verk hans upp í 900 milljónir króna, þegar vel liggur á. 

Listamaðurinn Jackson Pollock er hinsvegar ómetanlegur, enda að mínu mati einn af þremur mikilvægustu myndlistarmönnum sem hafa komið upp eftir síðari heimstyrjöldina (Leyfi hinum tveimur að fá frí í þessum skrifum).

En hversvegna er Pollock svona mikilvægur?  Hann var alls ekki fyrstur til að sletta málningu á striga. Hans Hoffman, sem Pollock sótti hjá námskeið, gerði það áður og sennilega Emil Schumacher líka.

En þeir stigu hinsvegar ekki dansinn sem Pollock steig. þeir voru enn að mála myndir á trönum og slettu smá málningu ofan á form og liti.  Pollock hefur vafalaust fengið sitt frá Hoffman, en hann tók samt skrefið til fulls og lagði strigann á gólfið og byggði málverkið frá grunni með því að sletta eins og óður maður. Og þannig opnaði Pollock tvær gáttir fyrir næstu kynslóð myndlistarmanna.

Sú fyrsta var að hann sprengdi málverkið frá trönunum og gerði það að athöfn (s.br. action painting).  En í kjölfar málverka Pollocks var pensillinn allt eins óþarfur og hófu listamenn að gera annarskonar tilraunir með gerð málverka, s.s. að stýra flæði lita með veltigrind, sprengja litablöðrur eða draga litaða nakta líkama eftir striga. Í beinan legg frá Pollock koma þá listamenn eins og  Helen Frankenthaler, Morris Louis, Yves Klein............

Hin sprengjan fólst í því að þegar listamenn á borð við Allan Kaprow og Hermann Nitcsh sáu myndir  Hans Namuths af Pollock vera að mála (eða sletta) rann upp fyrir þeim að athöfnin væri áhugaverðari en afraksturinn og upp frá því hófu þeir að fremja gjörninga eða "happenings".  En "Happenings"er nokkurskonar ritúall sem byggir á athöfn (action) eða framkvæmd s.br. gjörningur (að gera).

Pollock er að þessu leyti ómetanlegur hlekkur í listasögunni. Hann opnaði málverkið upp á gátt en gaf um leið listamönnum færi á að hafna því gersamlega og gera athöfnina eina og sér að listaverki. 


mbl.is Verk eftir Pollock selt á 8 milljónir dala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Þetta er skemmtileg og fræðandi lesning hjá þér Ransu. Ég hefi fjarskalega gaman af þessum pælingum þínum um listamenn og hvernig þeir túlka sína list. Takk.

Þorkell Sigurjónsson, 13.3.2008 kl. 06:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband