14.3.2008 | 00:07
Á gráu svæði
Höfundarréttur er vandasamt fyrirbæri og kann að hefta hinn skapandi listamann rétt eins og að vernda afurðir hans. Sennilega fer myndlistin inn á mun grárra svæði í höfundarréttarmálum en aðrar listgreinar.
Bandaríska myndlistarkonan Sherry Levine tók fyrir höfundarréttarvandamálið þegar hún ljósmyndaði ljósmyndir eftir Walker Evans og sýndi undir heitinu "After Walker Evans". Það var enginn sjáanlegur munur á hennar ljósmyndum og ljósmyndum Evans. Hinsvegar var nálgun þeirra gerólík, þar sem að Evans var skrásetjari heimilda á kreppuárunum í Bandaríkjunum en Levine konseptlistamaður (Neo Conceptual art) sem vakti athygli á níunda áratugnum, einmitt fyrir þessar ljósmyndir af ljósmyndum.
Þetta var myndlistarstefna á níunda áratug síðustu aldar sem kallaðist "Yfirtökulist" (Aproppriation art) og snérist að mörgu leyti um umræðu frekar en ímyndir.
Mike Bidlo kópéraði t.d. myndir eftir Picasso, Pollock og Warhol og kallaði þær "Ekki Picasso", Ekki Pollock" og "Ekki Warhol", David Diao endurgerði myndir eftir Malevich með smávægilegum en oft kómískum breytingum, og þannig má áfram telja.
Mér þótti Philip Taaffe og David Diao einna skemmtilegastir yfirtökulistamannanna en Levine gekk þó ganga skrefið hvað lengst með ljósmyndunum og er að mörgu leyti áhugavert að sama ímyndin geti gengið í gegn um endurnýjun vegna annarrar nálgunar listamanns.
Ef Levine hefði verið lögsótt og skipað að eyða ljósmyndum sínum væri listasagan því fátækari.
Mig minnir þó að Vignir Jóhannsson hafi lent í einhverjum lögsóknum þegar hann reyndi við yfirtökulistina og málaði Lóma Jóns Stefánssonar með viðbættum rauðum deplum.
Myndir: (Efri) Sherry Levine, After Walker Evans, 1981. (Neðri) David Diao, Black and White, 1988.
![]() |
Höfundarréttur tekinn alvarlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 12:40 | Facebook
Athugasemdir
Mikið verða það spennandi tímar, þegar enginn mun hagnast fjárhagslega á Listinni, heldur eingöngu auðgast andlega ;)
Ásgeir Kristinn Lárusson, 14.3.2008 kl. 13:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.