Hvað er satt í listinni?

bacon van goghFrancis Bacon málaði á sínum tíma stórbrotna myndröð sem hann tileinkaði Vincent van Gogh. Myndin hér vinstra megin er úr þessari myndröð Bacons frá árinu 1957.

Bacon sagði Vincent hafa komist næst raunveruleika listarinnar þegar hann skrifaði til Theo bróður síns; " Það sem ég geri kann að vera lygi, en lygin túlkar raunveruleikann nákvæmar en nokkuð annað"

Bacon tók þessi orð Van Goghs til fyrirmyndar. En hann áleit að þegar tilfinningin kæmist til skila, einhver fýsísk eigind listaverksins, þrátt fyrir að vera lygi, að þá væri listaverkið fyrst satt. 

þegar ég las þessa frétt í NYT um helgina, um fósturlátagjörning listnemans,  hugsaði ég um lygina í listinni.

Fyrst voru fósturlátin raunverulegur gjörningur, en þegar sótt var að listnemanum að þá sagði hún að lygin væri hinn raunverulegi gjörningur. Að það voru engin raunveruleg fósturlát.

Hér er Popúlisminn auðvitað hinn raunverulegi gjörningur, eða raunverulega lygi. Allt eftir því hvernig við lítum á þetta.


mbl.is Lygar sem listaverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held þetta með listina og lygina sé algjörlega hárrétt enda hafa fleirri meistarar látið þessi orð falla um listina!

Til dæmis Pablo Picasso

Þetta hafði hann að segja.

"Listin er lygi, sem fær oss til að höndla sannleika."

Kristinn Guðmundsson (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 13:48

2 Smámynd: Bergur Thorberg

Í listinni er lygi sem er sannari en sannleikurinn um listina.

Bergur Thorberg, 21.4.2008 kl. 20:51

3 Smámynd: Hannibal Garcia Lorca

En verður lygin list þegar það er flett ofan á henni - eða fyrr?

Hannibal Garcia Lorca, 22.4.2008 kl. 00:15

4 identicon

Heill og sæll Bokki.

Þakka þér kærlega fyrir sáluhjálpina.  Ég þakka þér líka fyrir að benda mér á að ég þufi ekkert að lesa bloggið þitt. ( Hafði bara ekki hugmynd um það ! ). En stundum er bara svo rosalega gaman að lesa blablabla sem kemur frá sumum að maður stenst ekki mátið. Og ég tala nú ekki um þegar menn eru sérstakir "verktakar" ( samkv. uppl. frá Morgunblaðinu ertu skráður verktaki í umfjöllun á myndlist ?? ). Það kann vel að vera að þú finnir fyrir einhverri gremju hjá gamla skarfinum ? En sú gremja er hvorki af vondum genum né illri hugsun til þín Bokki komið, eða snertir þig sem gamlan kammerat frá Hollandi. Hún er fyrst og síðast vegna afar aumrar umræðu um myndlist - framsetningu og kjark til að tala .

 Einu sinni sagði ágætis foringi; " þeir sem eru mér hjartanlega sammála get ég ekki treyst - en þeir sem eru mér ekki sammála vildi ég gjarnan fá að ræða við ".  Í dag er þessu aðeins öðruvísi farið: " þeir sem eru mér sammmála, þeim get ég heilsað á næsta bar sem ég hitti þá á - en þeir sem eru mér ekki sammála, eru óvinir mínir " !!!

Megi sáluhjálparinn og verktakinn í þér verða fleyrum en mér til bjargar.

 Bestu kveðju,

G R Lúðvíksson, gramur og grár.

Guðmundur R Lúðvíksson (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 00:20

5 Smámynd: Kristbergur O Pétursson

Úr ljóði eftir Stein Steinarr: Með hálfum sannleika berst ég gegn algerri lygi.  Kannski er veruleikinn 'eins og við þekkjum hann' mótsagnakennt samsafn brota. Listamenn raða brotunum saman á ýmsan hátt til að spyrja: Sérðu það sem ég sé? Við sjáum lífið og tilveruna hvert á sinn hátt. Van Gogh vildi túlka strit og erfið lífskjör alþýðumanna, sbr. Kartöfluæturnar og fleiri myndir frá þeim tíma. Gunnlaugur Blöndal málaði myndir af síldarstúlkum á planinu og var víst legið á hálsi fyrir að túlka ekki bakverkina og svitalyktina, einmitt það sem Van Gogh hefði lagt áherslu á. Samt er sýn Gunnlaugs ekki ósannari fyrir vikið. Hann sá bara aðra hlið á viðfangsefninu. Kjarval var nokkrar vertíðir til sjós og þótti efnilegur til stýrimanns eða skipstjóra á flotanum. En hann tók pokann sinn og fór í land, og eru furðu fáar myndir hans af skipum eða sjómennsku eftir það nema táknrænar, þrátt fyrir að hafa sjómennskuna í blóðinu og mikla reynslu. Hann sneri huga sínum annað. Sumar af hraunmyndum hans eru reyndar eins og ólgandi haf að sjá.

Gunnlaugur Scheving fór kannski ekki nema einn róður með körlunum í Grindavík, en málaði þó allar þessar stórbrotnu sjávarmyndir. Hann gerði sér mikið úr skammvinnri reynslu.

Kristbergur O Pétursson, 22.4.2008 kl. 09:17

6 Smámynd: Ransu

Sæll Guðmundur og takk fyrir þetta. 

Svo aðrir viti um hvað þetta snýst þá er það þessi bloggfærsla;   http://www.ransu.blog.is/blog/ransu/entry/505376/ 

Gott að þú hafir fengið sáluhjálp .  Og ég er hjartanlega sammála þér að myndlistarumræða á Íslandi er dauf.  Hún er í raun engin á opinberum vettvangi (og þá hljótum við að geta heilsast á næsta bar?)

Hér er ég að blogga til gamans og hef síður áhuga á árásargirni að utan eða kaldhæðnis-skotum í minn garð. En vissulega er ánæjulegt ef einhver málefnaleg umræða verður á blogginu.  Og ég geri engar kröfur um að fólk sé mér sammála (Og mundi samt heilsa á næsta bar).

Bloggið mitt hefur ekkert að gera með að einhversstaðar standi að ég sé verktaki hjá Morgunblaðinu.  Ég fæ ekkert borgað fyrir bloggið frekar en aðrir og gæti allt eins bloggað um fjölskylduhagi mína.

Ég hef kosið að blogga um menningu. Stundum í upplýsingaformi, stundum, dægurfréttaformi, stundum sem viðbrögð við frétt, stundum bara einhverjar vangaveltur upp úr þurru.stundum...stundum...

Að lokum langar mig að benda þér á að ég var skírður að nýju í  Mið Ameríku, árið 2000, þar sem ég dvaldi um skeið.  Mér var gefið nafnið "Ransu" og hef notað það nafn síðan.

bestu kveðjur

Ransu, 22.4.2008 kl. 10:18

7 Smámynd: Ransu

Hannibal: Sennilega hefur listin sem um ræðir í Mogganum verið lygi þegar flett var ofan að henni.

Kristbergur: Takk fyrir þetta fallega innlegg. Sjónarhorn Gunnlaugs á bátana þykir mér alltaf áhugavert. Minnir mig á það sem  í kvikmyndageiranum kallast "Sjónarhorn Guðs", þegar myndavélin færist til ofan frá. Spurning hvar lygin felst í því sjónarhorni?  Kjarval fer hins vegar í svörðinn, svo nálægt að maður er að kafna í mosa og grjóti. En samt ekki af því að það er bara tilfinning, ekki raunveruleiki.

Ransu, 22.4.2008 kl. 10:29

8 identicon

Heill og sæll Ransu.

Bið þig velvirðingar á nefna þig röngu nafni. Hafði ekki hugmynd um skírnina í Mið Ameríku. En mér finnst alveg með ólíkindum þessi sáluhjálp sem ég fæ senda frá m.a Hannesi Sig og svo þér. Ef ég væri í svoleiðis leit myndi ég sennilega leita eitthvað annað. En hvað með það. Sála mín er ekki til skoðunnar hér - eða er það ? Stundum er maður þannig að þegar manni skortir rök, dettur maður í það að segja " pabbi minn er með stærra tippi en pabbi þinn " þótt maður hafi verið að ræða allt annað ? Þannig upplifi ég oftast þegar umræðan fer í " ég er bara... " eða " þú ert bara..." Einmitt þetta upplifi ég nú. Ég er fyrst og fremst að tuða um þetta klístraða yfirborð sem umræðan er í. Tökum bara dæmi um þessa "lygi í myndlist" sem þú og þínir spegúlantar eru að velta sér í -  í háfleigum "boring" klisjum. - Skilgreinum fyrst orðið "lygi". Það er hægt að skrökva, plata, segja ósatt, ljúga og falsa. Á öllum þessum hugtökum er merkingarmunur. En samt - myndlist getur sjaldnast sagt "sannleika" eins og við þekkjum hugtakið "sannleika". Til hvers er þá að vera með þetta orðagjálfur - sem ekkert segir og ekkert skilar okkur áfram sem myndlistarmenn ?? Við erum ekkert öðruvísi "homopatískt" en annað fólk. Við höfum heila, fætur, höfuð, borðum svipaðan mat, eigum börn og tökum þátt í samfélaginu. Sem sagt við erum líka manneskjur. Hvað fyndist þér ef vörubílstjórar fengu svipaða umræðu og myndlistin, en verið væri að ræða um það hvort bíll segði birrrrr eða burrrr. Og umræðan væri á eins hundleiðinlegri skilgreiningu á "lyginni" í myndlist ? Í guðs volaða bænum förum frekar að tala um myndlistina sem hluta af "nútímalegu samfélagi" þar sem við eigum samleið með öllum sem hafa áhuga á manneskjulegu líferni. Við höfum ekkert upp úr því að segja bæ bæ eða vera með í einhverju hástemdu hjali. Við erum manneskjur alveg eins og fólkið sem býr í næsta húsi.

Að lokum. "Plís" ekki detta í einhverja "Hannesísku" þar sem hlutirnir eru vinir og óvinir ! Allt eru þetta mismunandi orð og mismunandi sýn á hlutina.

P.S     Ég les allar greinarnar frá þér. Og oftast hef ég mjög gaman af þeim. Um tíma var ég m.a áskrifandi á Morgunblaðinu eingöngu vegna þeirra. En þegar ég hafði samband við MBL og fékk uppgefið hvernig vinnubröggð blaðsins væru gagnvart myndlistinni, sagði ég blaðinu upp og les eingöngu bloggið þitt. 

Guðmundur R Lúðvíksson (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 00:38

9 Smámynd: Kristbergur O Pétursson

Guðmundur Rúnar Lúðvíksson: Við erum sammála um að myndlistarumræðan mætti vera meiri í prent- og ljósvakamiðlum. Bloggið er ágætis vettvangur, opinn fyrir alla til að viðra skoðanir sínar á sinn hátt og mættu fleiri taka þátt. Ég er með bloggsíðu þar sem ég kem á framfæri hugleiðingum mínum, nánast eingöngu um myndlist og málefni sem tengjast myndlist. Bloggvinir mínir eru flestir myndlistarfólk.

Ég hef lengi beðið eftir að þú gerist bloggvinur minn, en þú lætur ekki á þér kræla og hefur ekkert um mín blogg að segja ef þú lest þau yfirleitt. Mér finnst það skjóta skökku við. Mér finnst það einnig skjóta skökku við að þú farir hæðnisorðum um bloggvini Ransu og málflutning þeirra, mig þar með talinn, sem hafa sitt til mála að leggja hér á bloggsíðu hans.

Kristbergur O Pétursson, 23.4.2008 kl. 09:20

10 Smámynd: Ransu

Mér þykir það mikill heiður ef þú, Guðmundur, varst áskrifandi á Mogganum bara út af greinum mínum.  Ég segi líka að sú litla opinbera umræða sem fer fram um myndlist er þar að finna, hvaða álit sem menn hafa á henni eða blaðinu.  Það segir reyndar sitt um ástandið á opinberri myndlistarumræðunni. Að hún sé bara í einum dægurfjölmiðli Og ég kalla þessa umræðu reyndar eintal okkar fjögurra skríbenta blaðsins, og hef svosem aldrei dregið dul á það.

En ég verð að svekkja þig Guðmundur með því að á bloggi þessu færðu eflaust ekki umræðuþörfinni svalað. Hér hafa cirka sjö myndlistarmenn komið með athugasemdir síðan ég byrjaði að blogga fyrir 4 mánuðum og ég hef svosem sjálfur verið að finna minn takt í þessu, þannig að þetta taki ekki of mikinn tíma frá öllu hinu,en bloggi samt í einhverjum takti.

Hins vegar væri ánægjulegt ef hér á blogginu gæti þróast málefnalegur umræðuvettvangur fyrir myndlistarmenn sem ætti sér sjálfstætt líf, þar sem allar skoðanir fái sitt, en mér þykir líka vænt um þegar fólk kastar bara kveðju eða einhverju léttu innskoti. En þykir bara leitt þegar uppnefni og þvíumlíkt birtist í athugasemdum og hef sjálfur skýr mörk á því hvað ég læt bjóða mér í þeim efnum.

En hér er auðvitað engin sáluhjálp, rétt er það Guðmundur, Þótt ég verði nú að játa að ég er mjög forvitinn um hvernig Hannesísk sáluhjálp gengur fyrir sig.

Held ég láti þetta duga í þessu.

kveðja

Ransu, 23.4.2008 kl. 13:13

11 identicon

Heill og sæll enn og aftur Ransu.

Takk fyrir ör jákvæðari innlegg. Vandamálið í tungumáli okkar sem myndlistarmanna er "hið háfleyga" eða það sem ég kalla "orðgjálfur". Okkur hættir allt of oft til að fimbulfamba um fegurð, lygi, isma og hvað það nú allt er á yfirborðskenndan hátt, svona eins og í kennslustund í listasögu. Okkur hættir til að gleima því að fyrirrennarar okkar voru mennskir menn með tilfynningar og þörf fyrir tjáninguna - og voru í sjálfu sér skítt sama um alla sýndarmennsku - í tali og á borði. Þeim í raun var annt um það sem þeir gerðu og við uppgötvum. En einhverra hluta vegna hefur tekist að smyrja inn í okkar höfuð þessum hástemda talsmáta - sem engin nennir að hlusta á eða taka þátt í. Eins og þú sjálfur segir frá. Sem sé, við erum orðin eins og gamla gufan þegar hún hafði einkaleyfi á fluttningi í útvarpi. Myndlist og menning er ekkert öðruvísi umfjöllunarefni en allt annað sem í kringum okkur er. Allir hafa þörf fyrir að skilja hlutina í kringum sig. Og við eigum að leggja okkur fram um að tala tungumál sem aðrir en við sjálf skiljum. Þetta með "Hannesískuna" nenni ég ekki að útskýra nema þá kanski í einu orði. "Hanagal". Allavega hún truflar mig ekki í því sem ég er að gera.

Að lokum þetta minn kæri. Þakka spjallið. Læt þessu alfarið lokið. Segi það ekki að ég sakni Morgunblaðsins - en þeir þurfa að skoða á sér naflann.

Bestu kveðju til ykkar og sendu þinni spúsu kveðju og hamingju óskir með væntanlega sýningu í höfuðborg norðursins.

GRL

Guðmundur R Lúðvíksson (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband