Fyrst þarf að sigta Kristján og Kjarval frá áhugamönnum

geymslaAuðvitað var það furðulegt á sínum tíma þegar listaverkin fylgdu með bönkunum í kaupbæti.  En nú eru bankarnir aftur komnir í ríkiseigu og listaverkin með.

Samkvæmt plani að þá verða bankarnir seldir einhverntíman seinna. Allavega þegar XD kemst aftur við völd. Og þá þarf að passa að endurtaka ekki sömu vitleysuna og gleyma menningarverðmætum sem bankarnir hafa áskotnast gegn um tíðina.

Hins vegar er ekki svo auðvelt að láta safneignina yfir í hendur Listasafns íslands eins og ýjað er að í annarri grein um málið undir titlinum Listaverkin; mistökin ekki endurtekin. En þar bendir Katrín Jakobsdóttir Menntamálaráðherra á að höfuðlistasafninu skorti starfsfólk, geymslu og sýningarrými til að geta sinnt safneign bankanna.

Í eigu bankanna eru margir gullmolar úr íslenskri myndlistarsögu, en þar er líka tonn af dóti sem á ekkert erindi inn í safneign Listasafns Íslands.

Þarna eru verk eftir frístundamálara, vini og vandamenn einhverja bankastjóra og jafnvel verk sem hafa verið tekin óskoðuð upp í skuldir. 

Listasafn Íslands er auðvitað ekki geymsla og því þyrfti fyrst að fara í gegn um safneign bankanna, verk fyrir verk, sigta Kristján og Kjarval frá áhugamönnum og meta hvað eigi heima í safneign höfuðlistasafnsins og hvað ekki.


mbl.is Vill listaverk bankanna í ríkiseigu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Ágúst Hansen

Þó deila megi um sanngirni þess að safnaeign gömlu ríkisbankanna hafi fylgt með í kaupunum þegar bankarnir voru einkavæddir, án þess að hafa verið sérstaklega tilgreind, er staðreyndin sú að vel hefur verið hlúð að þessum söfnum.

Í þeim tillögum sem reifaðar hafa verið um örlög þessara safna, hefur verið horft fram hjá mikilvægum atriðum sem skipta verulegu máli.

Í dag er safnaeign Listasafn Íslands um 10.000 verk. Talið er að bankarnir eigi samtals um 4000 verk. Því má ætla að meirihluti þessara verka muni rata beint í geymslur safnsins því húsakostur safnins býður ekki upp á sýningar á öllum þessum fjölda. Jafnvel þó verk eftir minni spámenn verði sigtuð út væri þetta veruleg aukning og alveg ljóst að safnið hefur ekki fjármuni til þess að sýna og rannsaka þetta með sóma.

Á þeim fáu árum sem bankarnir voru í einkaeigu jókst safnaeignin með meiri hraða og skipulagðari hætti en áður var. Keyptu bankarnir ýmsar myndlistarperlur sem Listasafn Íslands hefði aldrei haft ráð á að kaupa miðað við núverandi fjárlög. Þar má til að mynda nefna verkið "Hvítasunnudagur" eftir Kjarval sem ég keypti fyrir Landsbankann og kostaði um 24 milljónir þegar rannsóknar og flutningskostnaður er með talinn.

Ef þessi verk verða færð af efnahagsreikningi bankanna og í umsjón Listasafn Íslands hverfur einnig hvati bankanna til þess að viðhalda safninu og enn fleiri meistaraverk en áður munu rata inn á heimili fjársterkra einstaklinga í stað þess að vera almenningi til sýnis.

Að mínu mati er besti kosturinn að listaverkasöfn ríkisbankanna verði áfram í eigu þeirra. Til þess að tryggja almenningi aðgang að safninu mætti skylda bankanna til að sýna verkin reglulega og varðveita þau. Forvarsla gæti jafnframt verið sameiginlegt verkefni Listasafns Íslands og bankanna en kostnaður af slíku myndi falla á bankanna . Þannig fengi Listasafn Íslands sérstakar tekjur sem það sárlega vantar til þess að uppfylla skilyrði laga um safnið.

Jóhann Ágúst Hansen, 20.2.2009 kl. 16:39

2 Smámynd: Ransu

Sæll Jóhann og takk fyrir innlegg þitt.

Ég veit ekki með Landsbanka og Glitni en Kaupþing réð til sín fagmann til að sigta, skrá og meta safneignina allavega 2 árum áður en bankinn fór á hausinn.

Og ég er nokkuð viss um að á meðan bankarnir voru í einkaeigu að þá voru innkaup mun faglegri en á meðan þeir voru ríkisbankar.

Hins vegar voru engar kvaðir á listaverkaeigninni sem fylgdi kaupunum á sínum tíma og safnið hefði þess vegna getað grotnað niður ef enginn áhugi hefði verið fyrir hendi.

Ransu, 20.2.2009 kl. 21:34

3 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Ég hef haft uppi hugmyndir um að sýna mætti þessi verk á heilbrigðisstofnunum á Íslandi.  Ekki síst sjúkrahúsunum.  Á LSH, almennum deildum er nánast ekkert um listaverk - en þau fáu sem þar eru gleðja alveg ótrúlega og auðvelda manni marga biðina þar sem og legur.

Ég verð að segja að ég skil ekki af hverju þessir stjórnendur bankanna seldu þessi verk ekki, rétt eins og þeim veittist ofurlétt að féfletta almenning, fyrirtæki og alla þjóðina.

Þessi verk tilheyra menningararfi okkar og fylgdu frítt með bönkunum, þegar þeir voru einkavæddir og átti aldrei að gerast.

Hins vegar geta öll einkafyrirtæki komið sér upp góðu safni, góðri vörslu sem og sýningaraðstöðu en það er allt, allt annað dæmi, en þau listaverk sem gefin voru með bönkunum.

Það var hrein og klár móðgun við listamennina sjálfa sem og þjóðina.

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 21.2.2009 kl. 02:41

4 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Ég tel rétt að safnaeign bankanna verði skráð sem hluti Listasafns Íslands. Þannig verði tryggt að ekki verið borið út úr bönkunum listaverk og þeim hreinlega stolið. Ég treysti engum lengur.  

Best væri því að skrá þetta allt, ljósmynda í bak og fyrir, taka röntgenmyndir, og mæla listaverkin þyngd/stærð.

Baldur Gautur Baldursson, 22.2.2009 kl. 21:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband