13.11.2009 | 10:14
Þorbjörg Pálsdóttir
Þorbjörg Pálsdóttir, myndhöggvari, er látin, 90 ára gömul.
Þorbjörg var ein af þessum listamönnum sem notið hefur mikillar virðingar á meðal kollega eða innvígðra, eins og það er oft kallað, en lítið kynnt af söfnum, sem er í sjálfu sér stórfurðulegt!
Síðasta safnasýning sem skartaði verkum Þorbjargar, að ég best veit, var samsýning hennar og Ása Ásmundssonar á gangi Kjarvalsstaða árið 2002. Þar var m.a. verkið Sorg (sjá mynd t.v.) frá árinu 1984. Sú sýning var á vegum Myndhöggvarafélagsins en ekki útvalin af safninu, en Þorbjörg var einn af stofnendum félagsins. Einnig spiluðu verk hennar mikilvægt hlutverk á sýningunni Tívolí, sem Markús Þór Antonsson og Þuríður Sigurðardóttir settu saman í Listasafni Árnesinga árið 2005.
Máski hafa safnamenn átt í erfiðleikum með að finna henni stað í listsögulegu stigveldi, en verk hennar eru vissulega einstök í íslenskum listheimi. Öllu jafnan eru þetta fígúrur, tómar að innan, gerðar úr grisjum og gifsi, asbest eða pólýester, fremur óaðlaðandi en afar áleitnar og áhrifamiklar.
Flestir sem leggja leið sína um Öskjuhlíð rekast á verk hennar, Dansleikur, við Perluna (sjá mynd t.v. með listakonunni taka sporið með fígúrunum). Verkið var upphaflega sýnt á sögulegri sýningaröð á Skólavörðuholtinu en var síðan steypt í brons og sett upp á Öskjuhlíðinni til frambúðar.
Um verkið ritaði Hannes Lárusson eftirfarandi texta í grein í tilefni af níræðisafmæli listakonunnar í febrúar.
"Þarna eru þær þessar fjórar berskjölduðu fígúrur í yfirstærð, einungis tveir í hljómsveitinni og tveir í dansinum. Ekki er fullljóst hvort hér eru á ferðinni tröll, afturgöngur, geimverur, kolaðar múmíur frá Pompei norðursins eða gestir í Glaumbæ. Furðulegur hrunadans, nútímavikivaki, kunnuglegir taktar og örlagasprikl. Flestir líkamsskúlptúrar Þorbjargar eftir 1967 fanga þessi augnablik sem allir þekkja en verða vart endurtekin eða sviðsett, augnablikin sem birta óræðan lífsneistann. Þessir myndglampar renna óstöðvandi framhjá, nást aldrei á filmu, eru með öllu óvéltækir, í rauninni ósýnilegir. Þeir ná að stöðvast og eignast annað líf í einstaka listaverkum".
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.11.2009 | 12:34
Hvað er op list?
Í tilefni af síðustu sýningarhelgi Bliks á Kjarvalsstöðum ætla ég að rifja aðeins upp op listina með hliðsjón af þremur áherslum sem ég lagði á í fyrirlestri sem ég helt á kjarvalsstöðum í síðasta mánuði. Áherslurnar voru upphaf op listar, yfirtaka tísku- og skemmtanaiðnaðarins og endurskoðun á op list í samtímalistum.
Op list heyrir undir strangflatarlist. Feður hennar eru Joseph Albers og Victor vasarely (Sjá myndir fyrir ofan). Albers (t.v) sá aðallega um rannsóknir á skynjun lita en Vasarely (t.h) um formið
Op list byggir á kerfi og var aðallega gagnrýnd fyrir að snúast um skyn-brellur eða "trikk".
Sýningin The Responsive eye í Moma árið 1965 var hápunktur op listar en að sama skapi fall hennar sem liststefnu innan módernismans sökum þess að tískuheimurinn tók formið yfir og op list varð hluti af neyslu og dægurmenningu sjöunda áratugarins.
Stanley Kubrick notaði op list og skynvillur snilldarlega í 2001 a space odyssey til að varpa spurningu um veruleika og skynjun.
Hollendingurinn Peter Schuyff (sjá mynd til vinstri) er einn þeirra sem endurvakti áhuga á op list á tíunda áratug síðustu aldar. Schuyff lagði megin áherslu á ljós litar en hafnaði öllum vísindum eða kerfi módernískrar og listar.
op list er sú abstraktlist sem býr yfir hvað mestu skemmtanagildi.
Menning og listir | Breytt 9.11.2009 kl. 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2009 | 11:29
Síðasta Blik
Mig langar að minna á að síðasti sýningardagur Bliks er á sunnudaginn.
Blik er sýning á Kjarvalsstöðum - Listasafni Reykjavíkur sem rekur tengsl íslenskra listamanna við Op-list og er undirritaður einn af átta listamönnum sem eiga verk á sýningunni. Í aðalhlutverki er Eyborg Guðmundsdóttir, sem ég bloggaði um fyrir c.a. ári og nefndi sem vanmetnasta listamann þjóðarinnar. Hún er greinilega að fá einhverja athygli, loksins.
Efri mynd er af titillausu malverki eftir Eyborgu frá árinu 1975 sem er á sýningunni en sú neðri er eftir mig sem er einnig á sýningunni og heitir PopOp, frá árinu 2005.
Hér fyrir neðan eru upplýsingar um sýninguna af heimasíðu Listasafns Reykjavíkur
Fjölmargir listamenn hafa skírskotað til op-listarinnar í verkum sínum en á sýningunni eru sýnd verk eftir átta íslenska listamenn sem á einn eða annan máta beita sjónhverfingum eða leika sér með upplifun áhorfandans í verkum sínum.
Sýningin hverfist um myndlistarkonuna Eyborgu Guðmundsdóttur (1924 -1977), sem lítið hefur borið á í íslensku listalífi. Eyborg aðhylltist geómetriska abstraktion en margir gætu kannast við glerverk hennar í glugga Mokka, sem hefur hangið á sama stað í rúma fjóra áratugi, eða frá því að Eyborg hélt þar sýningu árið 1966. Eyborg nam myndlist í París og sýndi víða um Evrópu í hópi áhrifamikilla listamanna sem kölluðust Group Mesure. Hún hélt sína fyrstu einkasýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins árið 1965, en síðasta sýning hennar var tíu árum síðar í Norræna húsinu.
Auk verka Eyborgar eru sýnd ný og eldri verk Arnars Herbertssonar, verk Jóns Gunnars Árnasonar, Gravity sem hann sýndi á Feneyjatvíæringinum árið 1982 , Litasvið og teikningar eftir Ólaf Elíasson og ný og eldri verk Helga Þorgils Friðjónssonar. Einnig eru til sýnis verk eftir Hrein Friðfinnsson, Hörð Ágústsson og pop-op verk eftir JBK Ransu.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2009 | 10:26
Þegar Ragnar hlaut Sjónlistaverðlaunin
Samkvæmt plani fyrir hrun ætti ég að vera nýkominn frá Akureyri eftir að hafa verið vitni af Ragnari Kjartanssyni taka á móti Sjónlistaverðlaununum fyrir sýninguna The End.
Ég sé Ragnar ljóslifandi fyrir mér stíga lukkulegan upp á svið eftir að nafn hans hefur verið kallað upp og taka á móti orðunni. Hann mundi byrja á því að þakka fyrir sig og bera svo Elínu Hansdóttur og Hrafnkeli Sigurðssyni vott með því að segja að honum þætti mikill heiður að hafa verið tilnefndur með þeim. Í kjölfar þess mundi hann segja eitthvað smellið um Feneyjarævintýrið og rífa svo míkrófóninn af einhverjum leiðinlegum söngvara sem hefur verið fenginn sem uppfyllingarefni, hrópa svo á gömlu Trabantgaurana sem væru á meðal áhorfenda og saman tækju þeir lagið með Ragnari.
Þetta hefði verið kvöld Ragnars og ógleymanleg stund fyrir okkur hin, ef hún hefði gerst í alvöru, en þessi íslensku Turner verðlaun hafa hljóðlega verið verið skrúfuð af.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.10.2009 | 14:41
Þrjú hundruð
Samkvæmt frétt í DV og Vísi þá hefur það fengist staðfest eftir sérfræðimati að 300 listaverk úr eigu Íslandsbanka og Kaupþings séu menningarverðmæti sem þjóðin má ekki missa úr landi og ríkið þurfi þess vegna að eiga á þeim forkaupsrétt.
Forvitnilegt væri að vita hverjir hafi séð um matið (Sá það ekki í frétt).
Og af persónulegum ástæðum þætti mér enn forvitnilegra að vita hvort málverk sem Kaupþing á eftir undirritaðan sé menningarverðmæti eða hvort það megi fjúka úr landi.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.7.2009 | 22:57
Bókin - Íslensk samtímalist í dag
Einhverntíman nefndi ég á blogginu mínu að það ætti að gefa út bók með 50 samtímalistamönnum sem væri hugsuð sem sneiðmynd íslenskrar samtímalistar. Margir lögði inn spurningar í athugasemdum sem ég gat ekki svarað þar sem að bókin var á frumstigi.
Ég átti von á einhverjum hasar nú þegar bókin er komin út, en hún hefur farið svo hljóðlega um að ég get enn ekki svarað neinum spurningum.
Þetta er flott bók, vandaðar myndir og textar um alla listamennina í dreifingu hjá góðu útgáfufyrirtæki. Tvímælalaust eigulegur gripur, það vantar ekki. Og vafalaust fínasta auglýsing fyrir íslenska samtímalist.
Það má auðvitað alltaf deila um hvort þessi eða hinn listamaðurinn eigi að vera í svona bók. En umræðunnar vegna langar mig til að koma inn á tvö atriði.
það er enginn ljósmyndari í þessum 50 manna hópi, ég er þá að tala um það sem kallast samtímaljósmyndun og á við um t.d. Pétur Thomsen, Spessa og Katrínu Elvarsdóttur o.fl..
Mér er það óskiljanlegt að sett sé aldurstakmark á hópinn. Ef verið er að tala um samtímalist að þá var Kristján Guðmundsson að vinna til merkilegra samtímalistaverðlauna, Hreinn Friðfinnsson er sennilega ferskari en flestir þeir sem yngri eru, ég tala ekki um Steinu Vasulka. Hvað er þetta með aldur og íslenska samtímalist?
Menning og listir | Breytt 4.7.2009 kl. 05:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.7.2009 | 21:38
Formaður SÍM segir af sér vegna þess að hönnun er ekki list
Áslaug Thorlacius, formaður SÍM (Samband íslenskra myndlistarmanna) hefur sent félagsmönnum SÍM eftirfarandi yfirlýsingu:
_________________________________________________________
Kæru félagsmenn
Ég hef ákveðið að segja af mér sem formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna. Að höfðu samráði við Katrínu Elvarsdóttur varaformann mun ég að öllu óbreyttu sinna starfinu til 1. október. Tíminn á hinsvegar eftir að leiða í ljós hvort boðað verður til aukaaðalfundar eða hvort hún tekur við.
Afsögn mín er í beinu framhaldi af þeim gífuryrðum sem birst hafa í fjölmiðlum að undanförnu, undirrituð af samherjum, jafnvel stjórnarmanni í SÍM. Að öðru leyti hefur stjórn SÍM verið þögul um málið og það get ég ekki túlkað sem öfugan stuðning við minn málflutning. Því tel ég einsýnt að tímabært sé að skipta um formann í félaginu.
Í viðhengi er grein sem bíður birtingar í Morgunblaðinu en þar skýri ég afstöðu mína í fáeinum orðum. Einnig vísa ég til pistils í fréttabréfi SÍM sem barst ykkur í tölvupósti í lok síðustu viku.
Ég óska félagsmönnum alls hins besta og vona að Samband íslenskra myndlistarmanna haldi áfram að eflast og styrkjast um ókomna framtíð.
Áslaug Thorlacius
______________________________________________________
Formaðurinn hefur semsagt sagt af sér vegna mótbáru sem skall á henni þegar hún mótmælti því að Steinunn Sigurðardóttir, fatahönnuður, hafi hlotið heiðursnafnbótina Borgarlistamaður ársins 2009.
Áskorunarlisti gengur á milli myndlistarmanna til að hvetja Áslaugu til að draga afsögnina til baka.
Ég sá líka að Kristján Steingrímur deildarstjóri myndlistardeildar hafi sent henni opinbera afsökunarbeiðni en hann var á umdeildum lista manna og kvenna sem lýstu vanþóknun á bókun Áslaugar og Ágústs (formanns BÍL). Fleiri forsvarsmenn listaháskólans voru á listanum. Kristján var reyndar ekki að biðjast afsökunar á því að segja tískuhönnun vera list heldur snérist afsökunarbeiðnin um orð sem voru látin falla í garð Áslaugar og Ágústs í yfirlýsingunni.
Myndlistarmenn hafa aldrei verið duglegir að taka opinbera afstöðu og láta í sér heyra um málefni sem varðar list og mig grunar að fleiri séu á bandi Áslaugar en andsnúnir hvað varðar um spurninguna hvort hönnun sé list.
Þeir sem eru því ósammála (og þeir sem eru því sammála) ættu að lesa þessa grein Ásmundar Ásmundssonar í Viðskiptablaðinu.
Þetta er vissulega snúið en samt augljóst. Ef Jón Sæmundur prentar hauskúpur á boli að þá er það list, líka ef Hrafnhildur Arnardóttir greiðir hári. Þetta er leikur að hönnun sem list en út frá forsendum myndlistar en ekki hönnunar. Rétt eins og þegar Curver Thoroddsen borðar hamborgara eða fer í megrun þá er það list.
Merkilegt að forsvarsmenn Listaháskóla Íslands viti þetta ekki...
Menning og listir | Breytt 3.7.2009 kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
2.7.2009 | 00:16
Eitthvað annað
Allt í einu man ég eftir blogginu. Hef látið það sitja á hakanum vegna annara skrifa.
Það hefur verið gaman að lesa um Ragga Kjartans. Ungur listamaður setti út á tilsvör hans í fjölmiðlum. Sennilega mundi Ragnar ekki skora hátt í BA ritgerð um verk sín með álíka ummælum og því eðlilegt að ungir listamenn, nýkomnir úr listaháskóla sem gerir kröfur til nemenda um að geta gert væn skil á tilgangi verka sinna með ritgerðarsmíðum að þeir vænti einhvers meira í tilsvörum stórstjarna þegar þær eru spurðar út í verk sín. En þetta einlægna popp-tungumál er samt eitt af atriðunum sem einkenna Ragnar, og gera hann að því sem hann er í listinni.
Ég var alveg ósammála Christian Schoen hjá KÍM þegar hann svaraði greininni þannig að það ætti að horfa á list Ragnars sem líkingarmál en ekki raunveruleika.
Jacques Derrida sagði að listin væri í rammanum sem afmarkar listaverkið, sem er þá listamaðurinn sem gerir listaverkið, staða hans á listmarkaðinum, í listheiminum, gallerí og þar fram eftir götunum. List Ragnars snýr að þessum þáttum listaverksins og er um raunveruleikann ekki líkingarmálið.
Það hefur líka verið gaman að lesa um bókun á BÍL fundi og andsvör og yfirlýsingar vegna þess að Steinunn Sigurðardóttir hafi verið valin borgarlistamaður. Og spurning kviknar: Er fatahönnuður listamaður? Fatagerðarlist?
Ég var með erindi á málþingi í Listasafni Reykjavíkur um vatnsliti í 100 ára listasögu Íslands. Það kom í minn hlut að fjalla um birtingu vatnslitarins í samtímalistum. Þið sem mættuð ekki (það mættu um 60 manns) misstuð af miklu. Ekki bara kaffi og kleinum heldur líka frábærum gjörningi Halldórs Ásgeirssonar og eðal erindum frá Hrafnhildi Schram og Aðalsteini Ingólfssyni.
Ég fjallaði um það hvernig vatnslitamyndir vilja ekki vera afmarkaðar sem myndir og leita þessvegna eftir því að vera utan við myndina (vissulega einhver Derrida tengsl þarna, en líka Danto, Belting og Kuspit) . Ég tengdi það staðreyndinni að samtímalist vilji ekki vera afmörkuð, ekki einu sinni sem list, og þessvegna leitar hún í að vera eitthvað annað, s.s. raunveruleiki, afþreying, kannski líka fatahönnun? Því ekki?
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.3.2009 | 13:23
Námsefnið í gegn um listir og leik - Opinn dagur í Lækjarbotnum.
Af því að ég hef stundum sett út á listaleysið í skólakerfinu þá get ég hreykinn sagt að ég iðka það sem ég predika og þegar dóttir mín komst á skólaaldur að þá kom lítið annað til greina en waldorfskóli.
Hún gengur í waldorfskólann í Lækjarbotnum og bræður hennar í leikskólann á sama stað.
Waldorf kennslufræðin vill nálgast námsefnið í gegn um listir og leik. Útivera og hreyfing er meiri en kyrrseta. Þau líka læra formteikningu samhliða stærðfræði og ég bendi sérstaklega á að þessi svakalega flotta op mynd á plakatinu (t.v.) er úr 10 ára bekk.
Ég skrifaði reyndar aðsenda grein um skólann sem kemur í Moggann á morgun, laugardag, en þennan sama dag er opinn dagur hjá waldorfskólanum í Lækjarbotnum.
Ég hvet ykkur, sem ekki eruð að meika almenna skólakerfið og eruð með börn sem nálgast skólaaldur, að mæta og kynna ykkur litrófið.
Og líka ykkur sem eruð að meika hið almenna skólakerfi að mæta og kynna ykkur líka litrófið, því það er eins með waldorfskólann og hinn almenna ríkisskóla að hann þarf ekkert endilega að henta öllum. Þessvegna er gott að vita litrófið.
Lækjarbotnar eru á leiðinni frá Reykjavík til Hveragerðis, alveg við byggð borgarmörkin en samt úti í sveit. Upp brekkuna og beygt til hægri rétt eftir Heiðmörk.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)