Færsluflokkur: Tónlist
15.1.2009 | 14:44
Ægifegurð og náttúruhæfileikar
Ég er með vinnustofu í Skúlatúni og vandist því að staldra með málningarskúfinn þegar lúðurinn blés hér um árið til að vara nærstadda við dínamítbombunum. Þá skalf allt hverfið og nötraði oft á dag, enda grafið fyrir turninum með þvílíku offorsi að það hálfa væri nóg.
En nú er tíðin önnur og turninn stendur opinn að ofan og hvín oft og ógurlega.
Mér er títt hugsað til Finnboga Péturssonar hljóðskúlptúrista þegar ég stend utan við vinnustofuna og einhver ófyrirséð vindhviða laumar sér á milli byggingareininga svo hljómurinn, sem er reyndar aldrei samur, tekur snarpa breytingu frá Adagio yfir í Allegro
Turninn er risastórt hljóðfæri og náttúran er hljóðfæraleikarinn sem af stakri snilld (náttúruhæfileikum) skapar eitthvað ægifagurt úr þessari vitleysu, allri saman.
Táknmynd góðæris eða kreppu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.12.2008 | 13:22
George Brecht látinn
Fluxus listamaðurinn George Brecht lést um helgina á elliheimili í Köln.
Brecht fæddist í New York árið 1926 en fluttist til Frakklands á sjöunda áratugnum þar sem hann tók þátt í Fluxus uppákomum og rak þar Fluxus listaverkabúð fram til ársins 1968, en þá flutti hann til Lundúna og að lokum til Kölnar árið 1972.
Ludwigsafnið í Köln hélt heilmikla yfirlitssýningu á verkum hans þar í borg árið 2005. Hann átti líka verk Fluxussýningunni miklu í Listasafni íslands árið 2004.
Brect starfaði náið með John Cage, Nam June Paik og Robert Filliou, jafnt sem myndlistarmaður og tónskáld og tvinnaði þessar listgreinar saman í gjörningum sínum.
Hans frægasta verk er Drip music, sem hann samdi árið 1959 og frumsýndi ári síðar.
Hann hefur samið ýmsar útgáfur af Drip tónlistinni.
Á myndinni er hann að "performera" slíkt verk og hér að neðan má sjá og heyra verkið í nýlegri flutningi.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2008 | 08:54
Flúrið við Axl-arlið
Upplýsi það hér og nú að ég er með Guns N´ Roses tattú á handleggnum, efst við Axl-arlið.
Fékk mér flúrið á unglingsárunum en þar sem að ermalausa tímabilinu mínu er löngu lokið að þá hefur farið lítið fyrir flúrinu á opinberum vettvangi undanfarin ár.
En ég ber það stoltur þessa dagana.
Chinese Democracy er magnað dæmi.
Axl Rose horfinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 18:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.11.2008 | 00:25
Þetta er 90´s
Í Af listum pistli dagsins veltir Birgir Örn Steinarsson fyrir sér skilgreiningu Á 90´s kvöldum, og kvartar yfir einsleitri tónlist á slíkum danskvöldum sem hann kallar glóstauta-sápukúluteknó. En bendir svo á að ólíkt áttunda og níunda áratugnum hafi stefnur og straumar tíunda áratugarins einkennst af fjölbreytni, þar sem allt var leyfilegt.
Í myndlistarsvelti Morgunblaðsefnis gerir maður sér gott úr því að sækja líkingar við myndlistar-umræðu í aðrar greinar og því forvitnilegt að lesa þessar yfirlýsingar Bigga í samhengi við þróun myndlistar. En þar er sama uppi á teningnum.
Endalok módernismans á hvörfum áttunda og níunda áratugarins marka samskonar breytingar í myndlist og popptónlist, enda snýst þetta um breytt viðhorf almennt, Samt voru mjög skýrar afmarkaðar stefnur á þeim níunda, s.s Nýja málverkið / Bad painting (sem var sama og pönkbylgjan í poppinu), Neo geo / Nýja geometrían, Ný konseptlist og Yfirtökulist.
Á tíunda áratugnum er annað þrep póstmódernismans. þegar allt má.
Fyrir mitt leyti markaði hljómsveitin The Podigy tímamót. Sérstaklega þegar lagið Firestarter fór í spilun. Lagið var sambland af pönk og danstónlist og skipti hún sköpun fyrir mína myndlist, varð til þess að ég fór að hugsa um samblöndun athafna- málverks og mínimalisma eða geometríu (sjá mynd t.v.), eitthvað sem í eina tíð var óhugsandi á sama myndfleti, rétt eins og pönk og dans (þá meina ég diskódans) var óhugsandi í einu sándi níunda áratugnum.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 05:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.11.2008 | 16:40
Pottþétt Kreppa - Jólaplatan í ár
Fékk þennan lagalista sendan á væntanlegum safndisk í hinni geysivinsælu Pottþétt diskaröð. Diskurinn heitir Pottþétt kreppa" og verður á uppsprengdu verði þar sem útgáfan er samræmt átak Glitnis, Kaupþings og Landsbanka.
Sérstök útgáfa verður í 2008 eintökum sem verður fáanleg á verðtryggðum myntkörfulánum og er með aukalagi. Þ.e. Memorial Remix útgáfa af laginu Lóa litla á brú í flutningi þeirra Bubba Morthens og Geirs H. Haarde á í Austurbæ í fyrra.
Lagalisti:
1. Hjálpaðu mér upp - NýDönsk
2. It's a hard life - Queen
3. Can't walk away - Herbert Guðmundsson
4. The winner takes it all - ABBA
5. Er nauðsynlegt að skjóta þá - Bubbi Morthens
6. I need a miracle - Fragma
7. Á tjá og tundri - Sálin hans Jóns míns
8. Run to the hills - Iron Maiden
9. Hamingjan er krítarkort - GCD
10. I'm going down - Bruce Springsteen
11. Þau falla enn - Síðan skein sól
12. Ég vil fá að lifa lengur - Todmobile
13. The Thrill is gone - B.B. King
14. Sirkus Geira Smart - Spilverk þjóðanna
15. Highway to hell - AC/DC
16. Til hamingju Ísland - Silvía Nótt
17. Exodus - Bob Marley
18. A Poor mans roses - Patsy Cline
19. Vanskilablús - Megas
20. Hard Times - Bob Dylan
Aukalag. Lóa litla á brú (Memorial Remix) - Bubbi Morthens, feat. Geir H. Haarde
Tónlist | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.11.2008 | 22:55
Avant-garde eða kitsch
Las Alíslenskt popp: skýrslu, Arnars Eggerts Thoroddsen í Lesbók.
Skemmtileg grein / skýrsla.
Spurningin um "alvöru" listamenn og skemmtikrafta sem Arnar veltir fram í popptónlistinni er sígild í listinni.
Í myndlistinni er það spurningin um Avant-garde og kitsch eða framúrstefnulist og "listlíki" (hef alltaf átt erfitt með þessa þýðingu á kitsch en kitsch er til þess gert að höfða til múgsins).
Bandaríski gagnrýnandinn Clement Greenberg skrifaði áhugaverða ritgerð um þetta efni skömmu eftir heimsstyrjöldina síðari þar sem hann m.a. sagði óumflýjanlegt fyrir framúrstefnulistina að verða á endanum kitsch.
Módernisminn byggðist á framúrstefnu en var að sama skapi glóbal. Póstmódernisminn tók öðruvísi á málunum og á níunda áratug síðustu aldar varð Jeff Koons ofurvinsæll í myndlistinni þegar hann skapaði list sem meðvitað höfðaði beint til almennings á forsendum framúrstefnunnar.
Donald Kuspit, gagnrýnandi, kallaði list Koons og hans líka, psuedo avant-garde (gervi framúrstefnulist) og taldi megin muninn á framúrstefnulistamanni og listamanni gervi framúrstefnunnar vera að sá síðarnefndi velti sér upp úr gildum Rómar en sá fyrrnefndi ögraði þeim. En samkvæmt Kuspit (og reyndar mörgum fleiri) telst það háleitara markmið listamanns að ögra viðteknum gildum fremur en að velta sér upp úr þeim.
Í því sambandi þótti mér athugasemd Einars Bárðarsonar áhugaverð. En hann stendur óneitanlega með vinsældum umfram öllu öðru. Enda vinnur við að búa til vinsældir í takti við það sem fyrir er en ekki ögra viðteknum gildum.
Myndir: 1) Sonic Youth á tónleikum (bara besta tónleikaband ever), 2) Blómaskúlptúrinn Puppy eftir Jeff Koons fyrir utan Rockefeller center árið 2001.
Alíslenskt popp: skýrsla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2008 | 23:07
ubu og óæskilegasta sönglagið
http://www.ubu.com/ er frábærastastasta vefsíðan fyrir listunnendur í dag. Þar má liggja yfir hlóðverkum og videoverkum eftir unga sem aldna, lifandi og dauða, Duchamp, Cocteau, Becket, Banksy, Fahlström, Acconci, Abramovich, Anderson, Schneeman....og bara alla.
Fyrir video smellir maður á Film & Video inn á síðunni vinstra megin en fyrir hljóðverk smellir maður á sound.
Í hljóðverkum mæli ég sérstaklega með Komar & Melamid & Dave Soldier´s , The Most unwanted song. Pólitískt-kántrí-óperu- 90´s rapp-með skosk-írsku ívafi. Alveg brilliant.
Annars er stórhættulegt að fara inn á þessa síðu. Maður drukknar alveg.
Njótið...
Tónlist | Breytt 10.10.2008 kl. 08:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)